13.08.1915
Efri deild: 31. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Guðmundur Björnson:

Jeg hefi engu við það að bæta, sem hátttv., framsögumaður (K. E.) nú hefir sagt um breytingartillögurnar. En þó þykir mjer hlýða að fara nokkrum orðum um þetta mikilsverða mál við þessa umræðu.

Það er að vísu gott og sjálfsagt, að landsstjórninni og útvöldum mönnum, sem skipaðir eru henni við hlið, sje heimilað vald til þess að gjöra allar þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar kunna að verða á þessum háskalegu tímum. En hitt er eigi síður nauðsyn, að Alþingi íhugi vendilega fyrir sitt leyti, hverjar og hve víðtækar þessar ráðstafanir skuli vera.

Þetta eitt er víst, að hættan er ekki minni nú en í fyrra. Jeg hygg að í raun og veru sje útlitið ískyggilegra nú en þá. Það hefir komið á daginn, að þessi ófriður hefir orðið miklu víðtækari og illkynjaðri en nokkur gat rent grun i. Jeg hygg því að allir hjer á þingi muni sammála um, að óumflýjanlegt sje að heimila landsstjórninni vald til slíkra ráðstafana, sem nauðsyn krefur. En hvers krefst nauðsyn landsmanna nú? Hvað á að gjöra? Um það hafa þegar orðið talsverðar umræður og skiftar skoðanir í hv. Nd. Og ef til vill eru ekki heldur allir á eitt mál sáttir í því efni í þessari háttv. deild.

Hingað til hafa menn mest talað um þá hættu, sem stafa kynni af kjötskorti, og hafa heyrst háværar raddir um, að banna ætti að einhverju leyti útflutning á kjöti. Aðrir hafa þó bent á, að háskalegra væri, ef skortur yrði á kornmat í landinu. Það er einkum þetta tvent, kjötið og kornið, sem mönnum hefir orðið tíðrætt um. Og jeg hefi nú kvatt mjer hljóðs aðallega til þess, að lýsa skoðunum mínum um það efni.

Jeg vil þá taka það fram þegar, að höfuðnauðsynin virðist mjer þetta eitt að tryggja landinu nægan kornmat. Þegar allar lífsnauðsynjar hækka í verði, verður byrðin þyngst á herðum fátæklinganna, og er því lífsspursmál að athuga sem vandlegast, hvernig hægt sje að gjöra best matarkaup. En mjer hefir fundist á skorta, að þessari spurningu væri slíkur gaumur gefinn sem skyldi. Í slíkum efnum kemst alþýðan oft á rjetta leið af sínu eigin hyggjuviti, og jeg vil leyfa mjer að benda á, að á síðustu árum hafa bændur meir og meir tekið upp þann sið, að selja kjöt og smjör, en kaupa í staðinn korn og smjörlíki. Þetta hafa þeir vitanlega gjört vegna þess, að þeir sáu að þetta voru góð matarkaup. Menn kunna að ætla að munurinn á saðningargildi þessara matartegunda sje ekki mikill eftir verði þeirra, en bann er geysimikill. Jeg hefi reiknað út, hvað mikið næringargildi er í einnar krónu virði af ýmsum matvælum samkvæmt núgildandi verðlagi: Mjer telst svo til, að fimmföld næring sje í rúgmjöli á móts við saltkjöt, og að ferfalt meiri næring sje í saltaðri síld en kjöti. Enn fremur er næstum því tvisvar sinnum betra matarkaup, að smjörpundinu fyrir 90 aura heldur en að kjötpundinu fyrir 50 aura.

Og um tólgina er það sama að segja, ef pundið af henni er selt á 50 aura, þá fæst margtalt meiri næring fyrir þá peninga, heldur en ef keypt væri fyrir þá saltkjöt eða saltfiskur.

Mennirnir þurfa að halda á næringarefnum bæði úr dýraríkinu og jurtaríkinu. Fyrsta lífsnauðsyn okkar er sú, að tryggja oss þær matvörutegundir, sem við getum ekki framleitt sjálfir. Korn veg ekki hjer á landi, og þurfum vjer því að flytja geysimikið af kornmat frá útlöndum. Undanfarin ár höfum við flutt inn 9½ þúsund smálesta af kornvörum, eða fyrir um 2 miljónir króna. Jeg get því ekki betur sjeð en að fyrsta ráðstöfun stjórnarinnar hljóti að verða sú, að útvega landinu nægilegan kornforða. Þar með er auðvitvitað ekki sagt, að stjórnin eigi að kaupa alt það korn. Hún gæti og ætti að hafa þá aðferð, að grenslast vandlega eftir, hvað verslanir og kaupfjelög landsins hafa gjört til þess að birgja sig að kornvöru. Vera má að verslanir og kaupfjelög sjái sjer fært að útvega af eigin ramleik alt það korn, sem þarf, en hitt gæti líka komið í ljós, að svo væri ekki, og þyrfti þá stjórnin samstundis að hlaupa undir bagga. Þess vegna er slík eftirgrenslan af stjórnarinnar hálfu bráðnauðsynleg.

Jeg vil annars leyfa mjer að vekja athygli manna á því, að fyrir tveim árum var því hreyft hjer á Alþingi, að nauðsyn bæri til, að þing og stjórn sæi svo um, að á hverju hausti væri til hjer á landi ársforði af kornvöru. Því var þá haldið fram af minni hálfu, að annaðhvort ætti landsstjórnin að hafa alla kornverslun í sínum höndum, eða þá allsherjar kaupfjelag, fyrir alla alla þjóðina. Jeg hygg, að það hafi nú þegar sýnt sig, að talsvert vit var í þessari tillögu. Svo sem kunnugt er, gjörðist það í fyrra haust í fyrsta sinn, að landsstjórnin battst fyrir kornkaupum í í stórum stíl frá fyrstu hendi. Þessi fyrsta tilraun hepnaðist prýðilega; varan var ágæt og verðið var ágætt. Jeg er sannfærður um, að mörgum hefir orðið þetta ljós bending þess, að þetta væri rjetta framtíðarbrautin; að gjöra alla kornverslun að landsverslun, sem þó helst ætti að vera í höndunum á allsherjarkaupfjelagi. Mjer finst rangt að minnast ekki á þessa þjóðarnauðsyn við þetta tækifæri.

Þá vil jeg minnast lítið eitt á önnur matvæli. Það er betra matarkaup í saltfiski en kjöti, og ef nóg er til í landinu af fiskæti, þá er lítil þörf á kjöti. Að eins verður þess að gæta, að í öllu kjöti er talsvert af fituefnum, en mjög lítið í fiski. Þess vegna þarf miklu meira viðbit með fiski, og verður að setja undir þann leka. Það vill nefndin gjöra með seinni brtt. á þgskj. 295, sem fer fram á að banna allan útflutning á mör og tólg, Árið 1912 voru flutt hjeðan úr landi 27 þúsundir tvípunda af tólg, en svo mikil er feitmetisþörfin og svo afkáralegt er verslunarólagið, að talsvert af þessari tólg varð að flytja inn í landið aftur, eða 8600 tvípund. Nú er það víst, að feitmetisþörfin eykst með þverrandi kjötnautn en vaxandi fisknautn. Jeg þori því ekki að fullyrða, að feitmetisþörfinni verði fullnægt, þó að allri tólg sje haldið í landinu, en hins vegar býst jeg við, að mikið muni falla til af tólg í haust, því að sjálfsagt verður slátrað í langmesta lagi vegna hins háa kjötverðs.

Loks vil jeg minnast á síldina. Söltuð síld er ein hin besta fæða, bæði holl og næringarmikil. Það er (eftir verði) ferfalt meiri saðning í henni en kjöti, og í henni er mikið af feiti. Menn kunna nú að segja, að síldin geti samt ekki orðið að fullu liði, því að alþýða manna kunni ekki enn þá að eta hana. Þetta er að vissu leyti satt, en það er nú, finst mjer, einmitt hin fyrsta skylda stjórnarinnar, og væntanlegrar Velferðarnefndar að fræða alþýðu um, hvernig hún geti aflað sjer hollrar og ódýrrar fæðu fyrir sem minst verð, hvaða matarkaup sjeu hentust, og þessu

næst er hitt, að sjá um að bestu og ódýrustu matvæli sje höfð á boðstólum og alstaðar fáanleg.

Jeg skal nú ekki fara fleirum orðum um þetta efni. Mjer finst að það, sem jeg nú hefi sagt, hafi hingað til verið látið liggja um of í láginni. Jeg held að ekkert vit sje í að fara að banna útflutning á einhverju af saltfiski og saltkjöti, en vanrækja hitt, að útvega hentugustu og ódýrustu matvæli. Jeg vona að gjörlegt verði að ráða fram úr vandræðum þeim, sem að höndum kunna að bera, án þess að grípa til þessa óyndisúrræðis að stórskaða framleiðendur landsins. Og þessu vil jeg að lokum bæta við: Ef hægt verður að búa svo um hnútana að ekki væði kornmatarskortur og sjávarútvegurinn geti haldið áfram, þá er sannarlega ekkert að óttast. Þess hefi verið of lítið gætt, að meiri háski gæti ekki dunið yfir landið en sá, ef aðflutningur á kolum og steinolíu teptist. Þá mundu togarar og vjelabátar verða að liggja aðgjörðalausir og arðlausir uppi í landssteinum og sulturinn sækja að hverju heimili á öllu landinu. En á meðan við getum aflað oss nægilegs kornforða og haldið úti okkar friða fiskiflota, þá verður aldrei mikil þröng í búi hjá alþýðu manna, hvað sem öllu kjötinu líður.