04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Karl Finnbogason:

Fyrst örfá orð um breytingartillöguna á þgskj. 738, um hækkun á launum Lárusar Rist. Háttv. framsögumaður færði það gegn henni, að ekki væri rjett að hækka launin hlutfallslega. Jeg er háttv. framsögumanni alveg samdóma um þetta. En einmitt af þeirri ástæðu með jeg háttv. deild til að samþykkja tillöguna. Það er sem sje stór munur á því að hækka laun manns, sem hefir 6000 kr., eða manns, sem hefir að eins 600 kr.

Ætti t. d. að hækka laun tveggja svo launaðra manna hlutfallslega, segjum tvöfalda þau, þá yrðu laun annars 12000, en hins 1200 kr. Okkur háttv. framsm. kemur víst alveg saman um, að slíkt væri ekki rjett, nema alveg sjerstakar ástæður væru fyrir hendi.

Hitt ætti okkur einnig að koma saman um, að miklu meiri ástæða er að jafnaði til að lækka lág laun en há, og að hjer er hún mjög mikil. Annars vona jeg, að háttv. deild verði á mínu máli um þetta, og skal því eigi fjölyrða það frekar. Hv. 5. kgk. (G. B.) lofaði mjög Björn Jakobsson, og mæltist til, að styrkurinn til hans yrði ekki feldur. Jeg felst algjörlega á það, sem hann sagði um þetta, og vænti jeg þess, að fleiri sjeu á sama máli. En jeg er viss um, að ef háttv. 5. kgk. þekti Lárus Rist eins vel og Björn Jakobsson, þá myndi hann mæla eins mikið með honum. Lárus hefir gjört mikið til að kenna og útbreiða líkamsæfingar, sund og knattleika á Akureyri og víðar, og hefir til þess gjört alt, sem í hans valdi hefir staðið. Hann hefir bara ekki eins gott tækifæri til þess á Akureyri og Björn Jakobsson hjer, en á fyrir það engu síður skilið þessa kjarabót, en hinn styrkinn.

Þá vildi háttv. framsögumaður ekki hækka utanfarastyrkinn til kennara, og virtist mjer hann vilja bera saman kjör lækna og kennara, en það álít jeg alls ekki heppilegt hans málstað. Í fyrsta lagi fyrir þá sök, að kennarar, nær allir, hafa margfalt lægri laun, en læknar. Í öðru lagi er staða þeirra miklu ótryggari, og í þriðja lagi er miklu minna til þeirra kostað af landsfje í upphafi. Þetta er því ekki sambærilegt. Einmitt fyrir þá sök, hve illa kennarar eru launaðir, þarf að styrkja þá til menningar, öðrum fremur. Þá var háttv. framsögumaður á móti því að veita Samúel Eggertssyni 900 kr., til þess að gjöra kort af Íslandi, og færði til þess þau rök, að til væri að eins uppkast og ekki næg trygging fyrir að það myndi koma að fullum notum. Öllum er heimilt að sjá þetta uppkast; að mínu viti er það mikið gott, og kunnugir menn hafa látið fylgja því meðmæli sín. Nokkrar líkur eru því til, að verk mannsins verði að notum, ef hlaupið er undir bagga með honum að framkvæma það. Aftur eru engar líkur til þess, að verkið verði að notum, ef maðurinn fær enga hjálp. Í sambandi við þetta vil jeg benda á, að háttv. frsm. var að mæla með fjárveitingu til að leita að vatni í Vestmannæyum.

Jeg er honum samdóma um það, að rjett sje þinginu að gjöra tilraun til að útvega Vestmannaeyingum heilnæmt vatn þess mun full þörf. En þá ætti hann. einnig að vera mjer samdóma um það, að rjett sje að stuðla að því, að kortþörf íslenskra ungmenna sje fullnægt, eins og vatnsþörf Vestmannaeyinga. Því enga frekari vissu — nema síður sje — getur hann haft fyrir því, að vatnsleitin verði að meiri notum en kortgjörðin. Hvorttveggja liggur í framtíð, og reynslan ein getur sannað, hver not verða að því fje, sem fram yrði lagt nú.

Hæstvirtur ráðherra talaði nokkur orð um kenslumálin og fræðsluástandið — einkum hjer í Reykjavík. Þótti mjer kenna ýmsra undarlegra grasa í ræðu hans um það efni, en sje þó ekki ástæðu til, að ræða það mál til muna hjer, á þeim grundvelli sem hann.

Mjer skildist hæstv. ráðh. álíta, að börnin gjörðu ekki annað í barnaskóla en gleyma því, sem þau kunnu, áður en þau komu í hann. Þetta er mjög nýstárleg kenning, og jeg hygg mjög vandfundin rök fyrir henni, enda voru þau ekki færð.

En sje það skoðun hæstv. ráðherra, að alt skólastarf á þessu sviði sje unnið fyrir gýg, þá vil jeg alvarlega benda honum á það, að þar er mikið verk og nauðsynlegt að vinna fyrir mann í hans stóðu. Og ekki ætti að efa, að hann vilji bæta eitthvað af þeim stórgöllum, sem hann sjer á fræðslufyrirkomulaginu, fyrst hann er svo heitur fyrir þeim, sem ræða hans bar vott um. Enda leyfi jeg mjer að skora á hana að gjöra það.

Jeg er nú ekki samdóma hæstv. ráð; herra um það, að árangur fræðslustarfsins í landinu sje sá, er hann heldur fram. Jeg er sannfærður um, og hefi reynslu fyrir því, að allur þorri barna lærir í skólunum, og það ekki svo lítið.

Um hitt er jeg samdóma hæstv. ráðh., að langt sje frá því, að árangur starfsins sje eins og æskilegt væri og ætti að vera.

En úr göllunum verður ekki bætt með orðum einum, enda þótt töluð sjeu í efri deild Alþingis. Úr þeim verður aldrei bætt með því einu, að fárast um það, að alt gangi andhælis, og best sje að hætta við alt saman, hverfa til þess, sem var, eða því um líkt.

Nei, hjer þarf úrræða og starfs. Árangur fræðslustarfsins byggist fyrst og fremst á kennurunum. En til þess að þeir geti leyst það vel af hendi, þurfa þeir að vera hæfir til þess. Til þess að þeir verði hæfir, þurfa þeir góðan undirbúning. Og spor í þá átt er jeg að reyna að fá þingið til að stíga, með því að veita utanfararstyrk, með þeim skilyrðum, sem um er að ræða.

En undirbúningurinn er ekki einhlítur. Aðstaða kennaranna þarf líka að vera sæmileg. Þeir verða að hafa nauðsynleg tæki til kenslunnar, og auk þess mat sinn refjalaust. Á þetta skortir mjög. Og meðan kennarar eru sveltir, eins og nú, og verða að nota hverja frí stund til að vinna sjer brauð, svo þeir geti lifað flækingslífi, þá er ekki von, að þeir verði stöðugir í stöðunni. Og meðan ekki skapast föst kennarastjett í landinu, sem getur fórnað öllum kröftum sínum í þarfir fræðslunnar, verður hún aldrei fullkomin. Og föst kennarastjett skapast aldrei, nema skólahjeruð stækki og kennurum fækki.

Þetta verður þjóð og stjórn að skilja og viðurkenna, ef hún vill manna börn sín, og halda áfram að vera menningarþjóð.

Eintómir palladómar um málið hrinda því aldrei áleiðis, hvar sem þeir eru fluttir og hver sem flytur þá. Það verður að rannsaka málið frá rótum, og vinna að bótum þess, er aflaga fer, með viti og striti.

Og fyrst og fremst þarf að bæta kennarana. Deildin hefir tækifæri til að stuðla að því, með því að samþykkja tillögur mínar.

Skal jeg svo láta útrætt um þetta að sinni.

Þá vil jeg minnast örfáum orðum á bóndann á Hrauntanga.

Hann býr uppi á miðri Öxarfjarðarheiði, langt frá öllum öðrum mannabygðum. Heiðin er löng og ill yfirferðar og ófær dagleið milli bæja oft á vetrum.

Bóndinn á Hrauntanga hefir haft lítilfjörlegan styrk, til að halda við bygð þarna á heiðinni, og veita ferðamönnum gisting og beina í viðlögum. Háttv. Nd. hefir ætlað manninum 300 kr. hvort árið, en háttv. nefnd þessarar háttv. deildar vill klípa 200 kr. af þessu, og láta hann að eins fá 100 kr. á ári. Hjer virðist mjer allómannlega ráðist á lægsta garðinn, og verð jeg því að mótmæla.

Jeg hefi sannspurt það, að maðurinn er bláfátækur, og hefir því fulla þörf þessara 300 króna. Auk þess vil jeg benda á það, að bóndinn á Tvískerjum á Breiðamerkursandi hefir 300 kr. á ári í alveg sama augnamiði, og hefir hv. nefnd ekki rekið hornin í það. Sje jeg þó enga ástæðu til að gjöra mun á mönnunum.

Jeg er viss um, að allir hv. þingdeildarmenn, og allir aðrir kjósendur í þessu landi mundu greiða atkvæði á móti breytingartillögu hv. nefndar, ef þeir hefði komið hraktir úr hríð, til bóndans á Hrauntanga, og þegið þar gisting og beina. Þá hefði þeir skilið, hvers virði það er, að mæta gestrisni í óbygðum. Þá hefði þeir skilið, að 300 kr. í þessu skyni, er smáræði fyrir landið, en að gisting og beini, veitt með gestrisni og alúð, er ekkert smáræði — á öræfum.

Þá vil jeg minnast tveggja uppgjafapósta, sem ekki hafa fundið náð fyrir augum hv. nefndar.

Þeir heita Árni og Bjarni, og býr annar hjer í Reykjavík, en hinn á Seyðisfirði. Hv. Nd. hefir ætlað þeim 300 kr. að eftirlaunum á ári, en hv. nefnd efri deildar vill færa eftirlaunin niður í 200 kr., á ári.

Jeg sje ekki annað, en að þessi lækkun sje af handahófi gjörð. Eða hvers vegna mega mennirnir ekki hafa 300 kr., eins og 200 kr., ef þeir þarfnast þess, og landið vill, að þeir lifi? Jeg sje ekkert vit í því, að miða hæstu eftirlaun pósta við 200 kr. á ári, þótt einhver tilviljun hafi endur fyrir löngu valdið því, að einhverjum pósti var veitt sú upphæð, og síðan miðað við hana. Hitt væri vit, að miða eftirlaunahæð þessara manna við launahæð og þjónustuár, eins og annara eftirlaunaðra starfs

manna landsins. Er jeg viss um, að þá yrði eptirlaun þessara manna frekar yfir en undir 300 kr., því báðir hafa verið í þjónustu landsins yfir 20 ár, og starfað ágætlega, að dómi þeirra, er þekkja og með þeim mæla. Þyrftu þeir ekki að fá nema 15 kr. fyrir hvert þjónustuár, til að fara yfir 300 kr. Og eru það engin ósköp.

Jeg veit enn fremur, að báðir þessir menn eru bláfátækir. Annar þeirra hefir mist uppkomnar dætur sínar úr tæringu, og sonur hans hefir verið alllengi á Vífilsstöðum, og getur en ekki unnið. Einnig á hann konu, sem er ófær til starfa, og er sjálfur aldurhniginn og mjög slitinn. Enda hefir hann verið eljumaður með afbrigðum. Hann hefir verið póstur á einhverjum allra örðugustu og verstu leiðum landsins, og illa launaður, að tiltölu við örðugleika og tilkostnað, eins og skjöl þau sýna, er fyrir liggja um mál haus.

Hinn manninn þekki jeg ekki, en hefi sannspurt, að hann hafi fulla þörf á 300 kr. eftirlaunum, ekki síst í slíkri dýrtíð, sem nú er fyrir þá, sem ekki geta unnið nje framleitt.

Benda vil jeg á það, að fáir munu kærkomnari alþýðu manna í hjeruðum, en póstarnir. Margir hafa vafalaust hlakkað til komu þessara tveggja pósta, og oft hafa þeir flutt ánægjuefni á afskekt heimili og gleðisnauð. Ef háttv. þingdeildarmenn vildu setja sig í spor þeirra, sem glaðst hafa af komu þessara manna, og þeir eru vafalaust margir, þá er jeg viss um, að þeir teldu ekki eftir þeim eftirlaunin, og greiddu atkvæði móti tillögum hv. nefndar.

Ef til vill kalla menn smámuni að eyða orðum um svo fáar krónur. En 100 kr. eru engir smámunir fyrir öreiga gamalmenni.