09.08.1915
Efri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

12. mál, landhelgissjóður Íslands

Karl Finnbogason :

Sem 3. nefndarmaður lýsi jeg yfir því, að jeg er samdóma háttv. framsm. um, að taka málið til bráðabirgða út af dagskrá. En jeg vil ekki ákveða, að fresta málinu eins lengi og ætlast er til í dagskránni, sem hv. 5. kgk. (G. B.) lagði fram og mælti með. Hitt tel jeg hyggilegt, að fresta málinu með vanalegum hætti, til að koma í veg fyrir, að ótti sá um það, að hjer sje verið að binda landssjóði bagga, sem hann fái ekki risið undir, verði því að falli.

Um leið vil jeg vekja athygli á mjög mikilsverðu atriði í þessu máli.

Tilgangur sjóðsins er að gjöra oss færa um að verja landhelgi vora sjálfir. Því fyr, sem hægt verður að nota sjóðinn, þess fyrr næst, sá tilgangur. Nú er sjóðurinn orðinn fullar 56 þús. kr. Og ef 40. þús. kr. að minsta kosti bættust við hann á hverju fjárhagstímabili framvegis, yrði hann orðinn um 200 þús. kr. árið 1921. Þá mætti kaupa skip til landhelgisvarna, og verður ekki tölum talið, hversu mikið gagn gæti af því leitt. Frumv. þetta miðar að því, að þetta geti orðið. Og væri hrapallegt, ef hv. Ed. þyrði ekki að stefna hiklaust að því marki.