09.08.1915
Efri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

12. mál, landhelgissjóður Íslands

Steingrímur Jónsson :

Háttv. frsm. (S. St.) vildi vjefengja það, að það mætti segja, að framlag þetta væri um aldur og æfi. En jeg vil skýra þau orð nánar.

Jeg tel sjálfsagt, að þetta fje verði lagt fram, þar til að það nægir til þess að kaupa eitt eða tvö skip til strandgæslunnar, en þegar það er búið, þá kemur nýr kostnaður til sögunnar. Og jeg leyfi mjer að halda því fram, að sá kostnaður verði enn þá meiri, það er kostnaðurinn við úthald skipanna, og sá kostnaður verður um aldur og æi, og því tel jeg rjett það, sem jeg sagði. Jeg skal ekkert um það segja, hvort landið er fært um að taka þennan kostnað að sjer.

Jeg leit svo á, á Alþingi 1913, þegar samþykt var að landssjóður legði 5000 kr. í þennan sjóð, að það færði okkur ekki hænufeti nær takmarkinu, og jeg lít svo á enn þá, að þetta frumv. færi oss ekki nær því, sem hlýtur að vera aðalatriðið, hve nær við erum færir um að taka þennan kostnað á okkar herðar, kostnaðinn við að halda úti varðskipi eða varðskipum.

Jeg leit svo á þá, 1913, og gjöri það enn, að það sje rjett, að sektirnar renni í þennan sjóð, en það tel jeg rangt, að binda fjárveitingarvald Alþingis og veita vissa fúlgu árlega í þennan sjóð. Og þessi fúlga getur verið tekin frá brýnustu og nauðsynlegustu framfaramálum þjóðarinnar, er miklu síður þola bið.

Það stendur fast, og er óhrekjanlegt, að nú í júlílok átti sjóðurinn hjá landssjóði yfir 46 þús. kr., er landssjóður gat þá ekki borgað. Háttv. þm. Vestm. (K. E.) taldi engan vafa á því, að landssjóður hefði nú nóg í sjóði, til þess að greiða þessa upphæð. Það má vel vera að svo sje, því jeg efa ekki að það sje rjett hjá hinum háttv. þingmanni, að landssjóður hafi nú fje í sjóði, þar sem nýverið er búið að fullgreiða, eða því sem næst, til hans tekjur síðasta árs. En það ber líka lita á það, að það liggur margt fyrir, er hann þarf að greiða; má þar meðal annars benda á þingsályktunartillögu, sem nýverið hefir komið fram í háttv. Nd., þar sem farið er fram á, að landssjóður leggi fram 500 þús. kr. til vörukaupa. Og á þessum voðatímum, sem nú standa yfir, þá verður landssjóður að vera til taks, því peningar eru dýrir, eða má ske ófáanlegir.

Jeg á því, fyrir mitt leyti, erfitt með að greiða atkvæði um frumvarpið nú. Jeg er hræddur um, að þessi fjárveiting kunni að standa fyrir þörfum nauðsynjamálum vorum.