09.08.1915
Efri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

12. mál, landhelgissjóður Íslands

Framsögum. (Sigurður Stefánsson) :

Jeg verð að segja það, að ræða háttv. 2. kgk. þm. (Stgr. J.) sannfærði mig ekki um það, að það væri rjett hjá honum, að framlag þetta verði um aldur og æfi.

Og jeg verð að játa það, að mjer þykir það dálítið vesalmannnlegt, að við skulum ekki treysta landinu til þess að kaupa skip þessi, þegar jafnvel einstakir menn kaupa togara, er slaga hátt upp í verð nægilega stórra strandvarnar skipa. Mjer þykir hjer kenna ofmikillar svartsýni eða bölsýni, að halda því fram, að við sjeum ekki færir um það. (Stgr. J.: Hver hefir sagt það?) Háttvirtur. 2. kgk. þm. (Stgr. J.) þar sem hann hjelt því fram, að tillag þetta yrði um aldur og æfi, án þess að nokkurn tíma kæmi til verklegra framkvæmda.

Það, sem jeg tel erfiðast, er byrjunin, að kaupa skipin eða fá þau. En þegar við vinnum alt af að því marki, með aukningu sjóðins, þá verður það ekki tilfinnanlegt, og þá er síður hægt að segja, að vjer reisum oss hurðarás um öxl með því. Vitaskuld er það rjettast, að aðaltekjur landhelgissjóðsins verði sektafjeð, en það má búast við því, að það verði mjög lítið, ef það verður nokkuð, meðan ófriðurinn stendur yfir, og því verðum við ef unt er, sem eg tel, að leggja nú meira fje til sjóðsins en endranær og í venjulegu árferði. Jeg vil hins vegar gæta allrar sparsemi og hófs í málinu, og því vil jeg taka til greina athugasemdir hv. 5. kgk. þm. (G. B.) og hv. 2. kgk. þm. (Stgr. J.), svo hægt verði að athuga málið nánar frá fjárhagslegu sjónarmiði.

Hvað reksturskostnað skipanna snertir, er hv. 2. kgk. þm. (Stgr. J.), talaði um, þá hygg jeg, að hann verði ekki svo tilfinnanlegur, að við getum ekki vel staðist hann, og það því heldur, sem búast mætti við að allmikið fje fengist árlega upp í þann kostnað í sektafjám og andvirði upptæks afla og veiðarfæra. Auk þess verðum við að gæta þess, að hinu óbeini hagnaður af því, að landhelgin sje. vel varið, er afarmikill, svo mikill, að hann verður ekki með tölum talinn.