04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Ráðherra :

Háttv. þm. Seyðf. (K. F.) talaði um barnafræðslu og skoraði á stjórnina að taka það mál til íhugunar. Mjer væri það mjög ljúft, ef föng væru á, því að jeg er sjálfur óánægður með fyrirkomulagið, eins og það er. Jeg býst þó við, að okkur háttv. þm. Seyðf., greini á um leiðir. Mjer skildist á honum, að hann áliti fyrirkomulagið fremur gott, og jeg held að hann hafi ekki fundið að því, hve ung börnin fara í skóla. Jeg er ekki þeirrar skoðunar, að það sje gott. Jeg álít alls ekki, að hvert 10 ára barn eigi að fara í skóla. Jeg álít, að það geti verið blátt áfram illt verk að setja börn á þeim aldri í skóla, besta partinn úr deginum. Við höfum sett lög um dýraverndun, en það veitti ekki af að setja líka lög um barnaverndun. Hjer í Reykjavík er það algengt, að 5–6 ára gömul börn sjeu sett í skóla. Auðvitað er það ekki skólafyrirkomulaginu einu að kenna. Jeg þori að fullyrða, að slíkt er allt annað en holt, fyrir andlegan þroska þeirra. Jeg álít, að það ætti að færa skólaskyldualdurinn upp í 12–14 ára aldur, til þess að börnin geti haft fult gagn af kenslunni og starfi skólanna. Það geta þau varla, fyrr en þau eru orðin 12–14 ára. Þá kostar það miklu minni tíma og erfiði að kenna þeim, heldur en meðan þau eru yngri. Jeg býst nú reyndar varla við að þessi skoðun mín finni djúpan jarðveg hjer á þingi, enda er stutt síðan fræðslulögin voru sett.

Jeg ætla ekki að fara mörgum orðum um þessa 2 pósta, sem nefndin hefir lagt til að yrði lækkað við um 100 kr. Það er ekki vert að eyða tíma þingsins í umræður um það, því að tíminn, sem í það fer, kostar meira en nemur þeirri upphæð. Jeg vil þó geta þess, að eftirlaun þessara pósta væru í samræmi við eftirlaun annara pósta, ef þau yrðu lækkuð, og því rjett hjá nefndinni að gjöra það.