04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Framsögumaður (Magn. Pjetursson):

Jeg skal tala ósköp stutt. Jeg gleymdi einu, sem háttv. 6, kgk. (J. Þ.) minti á, og það var styrkurinn til skálda og listamanna. Mjer finst hafa verið meinloka í því máli, bæði hjá hæstv. ráðherra og háttv. 6. kgk., því að þeir töluðu báðir um að úthluta því fje, sem ekki væri til. Jeg get ekki sjeð annað, heldur en að nefndin þurfi ekki að móðgast af því, að henni eru fengnar 11000 kr. til útbýtingar, og get ekki kallað þá upphæð ekki neitt, eins og hæstv. ráðherra og háttv. 6. kgk. Eða vilja þeir ekki gjöra svo vel og lesa það, sem í frv. stendur? Það er skýrt og greinilegt.

Þótt fjárlaganefnd Nd. hafi gjört tillögur um þessa upphæð í nefndaráliti sínu, þá fæ jeg ekki skilið, hvernig á að skoða álit fárra manna sem lög, eða bindandi fyrir aðra þingmenn, eða þingdeildir eða stjórnina. Hitt er annað mál, að stjórnin og hin væntanlega nefnd, fyrir hefðar sakir og kurteisi, kann að líta sömu augum á þetta og hv. fjárlaganefnd Nd.

Í upphafi þingsins, þegar kosin var fjárlaganefnd í þessari hv. deild, var ætlast til, að hún hefði samvinnu við fjárlaganefnd neðri deildar. Og bjuggust menn við miklu af þeirri samvinnu, því sagt var sem svo, að ekki gæti hjá því farið, að allir eða flestir fjellust á það, sem báðar nefndir hefðu komið sjer saman um. Nú vill svo til, að það eru hjer 3 liðir, sem báðar nefndirnar komu sjer saman um, það var um barnskólana, skáldastyrkinn og búnaðarfjelögin, og á þessa 3 liði hefir einmitt sjerstaklega verið ráðist. Þetta sýnir þó að minsta kosti, að ekki á nefndin hjer í deildinni sök á þessum hlutum. Það var svolítið, sem hæstv. ráðherra skaut til fjárlaganefndarinnar, og það var um matreiðslunámsskeið á Eyrarbakka. Jeg bjóst við, að hæstv. ráðherra kannaðist við, að slík námsskeið eru til um allt land, kostuð að eins. af búnaðarsamböndunum og sveitarfjelögunum, og því næsta lítil ástæða til að styrkja þetta námsskeið fram yfir önnur. Alt öðru máli er að gegna um matreiðsluskólana, sem standa allan veturinn.

Þessa smámuni, sem hv. þm. Seyðf. (K. F.) talaði um, borgar sig ekki að ræða um, því tíminn er dýr hjer á þingi. Nefndin lagði til, að þessar lækkanir yrðu gjörðar samræmisins vegna, en kærir sig ekki um, að gjöra það að neinu kappsmáli.