07.09.1915
Efri deild: 54. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Framsm. (Magnús Pjetursson) :

Svo sem háttv. deild er kunnugt, var tekjuhalli fjárlaganna nálægt 236,000 kr., eftir 2. umr. hjer í deildinni. Þar af voru 217 þús. kr. skilyrðisbundnar fjárveitingar. Yrði þá hinn eiginlegi tekjuhalli 18,576 kr. 92 aur.

Nefndin hefir nú enn viljað gera tilraunir til þess, að minka tekjuhallann nokkuð, og ef brtt. nefndarinnar, sem hún nú leyfir sjer að bera fram, verða samþyktar, mundi hann minka um 10–11 þús. kr.

Fyrst vil jeg geta þess, að á þgskj. 783 eru nokkrar prentvillur, og. vona jeg að leiðrjettingin á þeim, sje þegar komin í hendur háttv. þm. — Nefndin hefir komist að þeirri niðurstöðu, að brtt. frá háttv. þm. G.-K. (K. D.), um styrk til hörundsberklasjúklings væri rjettmæt, þegar það upplýstist, að nú væru 2 sjúklingar, sem styrksins þyrftu að njóta. Nefndin álítur sjálfsagt að hlaupa undir bagga í slíkum tilfellum, þegar menn geta ekki fengið bót meina sinna hjer á landi, og ætti það að verða föst regla framvegis um þessa sjúklinga, úr því landið hefir ekki efni á, að setja hjer upp ljóslækningastofu, sem ekki getur komið til mála. — Þá er brtt. við 13. gr. B. VII. Nefndin vill, að Austur-Hjeraðsvötn komi í staðinn fyrir Austurós Hjeraðsvatnaós,því að brúin er ekki á ósnum. Þá vill og nefndin sleppa orðunum „alt að“, því þau gætu skilist svo, sem engin umframgreiðsla mætti eiga sjer stað, en það er ekki meiningin. Tillag sýslusjóðs er fast ákveðið, hvað sem brúin kostar. Þessi brtt. er gjörð eftir bendingu og tilmælum landsverkfræðings Jóns Þorlákssonar. — Þá er brtt. um að hækka styrkinn til Faxaflóabátsins úr 10 þús. í 12 þús. kr. Strandferðanefndin hefir mælst til þessarar hækkunar, og hefir háttv. þm. Skagf. (J. B.) óskað eftir að fá að gera grein fyrir, hvernig á því stendur, og mun jeg því eftirláta honum það.

Þá er næsta brtt. um skilyrðið við fjárveitinguna til Breiðafjarðarbátanna, sem jeg tók fram hjer við síðustu umræðu, að nefndin mundi koma með. En nefndin vill láta þess getið, að þó þar standi að Eimskipafjel. Íslands fari ferðir á þessa staði, felst auðvitað engin skuldbinding í aths. fyrir Eimskipafjel.; það hagar sjer eftir öðrum ástæðum jafnframt. Að eins þetta, að það sje ekki skuldbundið til að fara fleiri ferðir.

Þá kemur að 13. gr. E.

Eins og menn muna frá 2. umr., þá var það tilætlan okkar, eftir tilmælum hæstv. ráðherra, að sundurliða ekki laun vitaumsjónarmannsins. Nefndin gjörði till. um, að færa þau saman, eins og var í síðustu fjárlögum, og í tilefni af því, vildi jeg skjóta því til hæstv. forseta, að bera upp brtt. 6 á undan brtt. 5. Jeg vil um leið geta þess, að í 6. brtt. hafði slæðst. inn prentvilla, sem sje E. 1. b. í stað E. 1. a. 2, sem jeg vona að hafi þegar verið leiðrjett.

Þá er 14. gr. B. II. d. 5. Rector mentaskólans sendi fjárlaganefndinni erindi í tilefni af því, hve aðsókn hefði aukist mikið að skólanum, og það svo mjög, að nú væru bekkir orðnir 9, en ekkert útlit fyrirað þeir yrðu færri á næstu árum. Þetta gæti ekki gengið svo, nema meira fje væri veitt til skólans, þar eð bæði vantaði fje til þess, að borga með tímakennurum og. prófdómurum. Nefndinni fanst óhjákvæmilegt að verða við þessari beiðni, og leggur því til, að hækkað sje við skólanum 500 kr., eins og rector fer fram á.

Næst er brtt. við 14. gr. B. III. Fyrsta upphæðin er að eins breyting, sem leiðir af hinni á undan. En næsta brtt. er viðvíkjandi námsstyrknum við Akureyrarskólann. Fanst nefndinni rjett, að hafa þar 600 kr. síðara árið í stað 800 kr., og láta hann þannig lækka hlutfallslega eins og við Mentaskólann. Verður þá alveg samræmi milli beggja skólanna.

Þá er sjerstök brtt. frá nefndinni á. sjerstöku þgskj. 799, við 15, gr. 1. b, um laun fyrsta bókavarðar Landsbókasafns. Stendur svo á henni, að mikil líkindi eru til, að þar verði bráðlega mannaskifti, og gjört ráð fyrir, að hæfur maður taki þá við því. En ranglátt er að hann hafi þá ekki sömu laun og fyrirrennari hans, með því sjálfsagt má telja, að hann vinni sama verk og núverandi bókavörður, og leggur því nefndin til, að það af launum hinsnúverandi bókavarðar, sem er persónuleg launaviðbót falli. burt, en laun hans aftur hækkuð sem því svarar; þetta hefir því engin aukin útgjöld í för með sjer.

Þá er 10. brtt. á þgskj. 783 við 16. gr.. 2. b., um að liðurinn falli burt. Þó nefndin kæmi ekki með brtt. þessa við 2 umr., þá var hún þó ekki viss um nema hættulaust væri að leggja út í þetta fyrirtæki, en treysti hins vegar fyllilega landsverkfræðingnum. Við 2. umr. var jafnframt getið um, að lánið til Skeiðaáveitunnar fjelli burtu, af þeirri ástæðu meðal annars, að ekki væri rjett, að hafa tvö slík fyrirtæki undir í einu. Nú hefir nefndin við frekari athugun komist á þá skoðun, að láta heldur Skeiðaáveituna ganga fyrir, og hæstv. ráðherra er á sömu skoðun, en láta þá Miklavatnsáveituna bíða. Nefndin í hv. Nd. hefir einnig verið með nokkurn belg gagnvart fjárveitingunni til Miklavatnsáveitunnar, og mun því varla taka sjer nærri þó hún falli burt.

Þá kemur næsta brtt við sömu gr. 3., sem fer fram á að lækka tillag til sandgræðslu. Mest er það gjört af sparnaðarhugsun, en í og með vegna brjefs, er lá fyrir frá skógræktarstjóranum, þar sem draga mátti af, að fjeð kæmi ef til vill ekki að tilætluðum notum, og heldur farist óhönduglega framkvæmdir sumstaðar. Þetta má ekki skilja svo, að nefndin áliti ekki sandgræðsluna nauðsynlega, heldur er það af því, að hún er hrædd um að hjer sje ekki alt með feldu, fjeð ekki eins vel notað sem skildi, sem líka brjef skógræktarstjórans sjálfs ber með sjer.

Viðvíkjandi 16. gr. 7. b., þá hafði nefndinni dottið í hug, að strika út styrk til gerlaransókna, en vegna eindreginna meðmæla Búnaðarfjelagsins og landlæknis, ákvað hún að láta standa við það, sem komið var, en af því henni er kunnugt um, að gerlafræðingurinn hefir fleiri störf með höndum, svo sem rekstur gosdrykkjaverksmiðju o. fl., fanst henni ekki ástæðu til, að hafa laun hans hærri en 1200 kr. á ári. Má það teljast sæmilegt fyrir vinnu þá, sem hjer getur verið um að ræða. 1500 kr. er alt of hátt.

Þá er næst brtt. við sömu gr. 19. a. Sigurgeir Einarsson ullarfræðingur átti tal við nefndina, og skýrði henni frá, að ef fjárveitingin væri að eins til annars ársins, þá næði hún alls ekki tilgangi sínum, þeim tilgangi, að kenna ullarmatsmönnum, og koma lögunum í framkvæmd. Hann þyrfti að ferðast bæði árin. Og loks sagði hann það, að væri fjeð að eins veitt. til eins árs, þá væri hann ófáanlegur til að taka starfann að sjer. Þetta reið baggamuninn hjá nefndinni, og því komum við með þessa brtt.

Kem jeg næst að brtt. við 16. gr. 26. Eins og háttv. deild man, var ákveðið að lækka styrk til bóndans á Hrauntanga, úr 300 kr. ofan í 100 kr., en síðan hefir nefndin leitað sjer upplýsinga og komist að raun um, að rjettast muni vera, að láta sitja við sama og var í síðustu fjárlögum. Að vísu var í síðustu fjárlögum 300 kr. fyrra árið, en 100 kr. síðara árið; en það var að eins gjört bóndanum til hægðarauka, að færa hálfan síðara árs styrkinn fram á fyrra árið, því hann þurfti að byggja, en ekkert tekið fram um, að framvegis ættu 100 kr. að nægja. Nefndin leggur því til, að sama upphæð sje veitt og á síðasta fjárhagstímabili, að eins jafnt bæði árin.

Þá er síðasta brtt. á þgskj. 783, og þarf ekki að fjölyrða um hana, en af því hún er sama efnis og till., sem áður hefir komið fram, skýt jeg því til hv. forseta, hvort það gangi of nærri þingsköpum, að bera hana upp. (Forseti: Jeg álít að tillagan komist ekki að). Auðvitað leggur nefndin ekkert kapp á að koma henni fram, ef svo er, því það er vitanlegt, að hún mun orðalaust komast fram í Nd.

Jeg mun tala um brtt. hv. þm., þegar flutningsmennirnir hafa fært rök .fyrir þeim.