04.08.1915
Efri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

71. mál, veiting prestakalla

Flutningsmaður (Guðm. Ólafsson) :

Á þingi í fyrra bar jeg og tveir aðrir hv. þingmenn hjer í deildinni fram tillögu til þingsályktunar um að skora á stjórnina að undirbúa og leggja fyrir þetta þing frumvarp til laga um veitingu prestakalla. Þessi háttv. deild tók tillögunni svo vel, að hún samþykti hana umræðulaust með öllum atkvæðum og afgreiddi hana þannig til ráðherra. Jeg bjóst við að þetta frumvarp yrði eitt af þeim, sem stjórnin legði fyrir þingið, og það því fremur, sem mjer var kunnugt um að biskup var að undirbúa þetta mál í vetur. En þessi von mín brást. Jeg inti ráðherra eftir því, hvernig á því stæði, að frumvarp þetta hefði ekki verið lagt fyrir þingið, og svaraði hann því, að frumvarp það, sem biskup var beðinn að semja hefði ekki komið til stjórnarinnar fyr en í maí, og hefði þá ekki verið tími til að bæta úr þeim göllum, sem á því hefði verið. Jeg hefi nú með aðstoð lögfræðings samið þetta frumvarp og tekið tillit til álits biskups á málinu. Í vetur leitaði hann álits allra sóknarnefnda á landinu um mál þetta, og fjekk hann svar frá 200 sóknarnefndum, en alls munu þær vera um 270 talsins. Voru þær flestar fylgjandi þeirri breytingu,. sem hjer er farið fram á. Að eins 30 voru á móti því, af því að þær óttuðust kostnaðarauka, og örfáar álitu að ekki væri þörf á breytingunni, af því að ekki væri nema ein sókn. í þeirra prestakalli. Þessi svör liggja nú í stjórnarráðinu, og getur væntanleg nefnd sjálfsagt fengið þau til yfirlits og sömuleiðis athugasemdir biskups um málið.

Jeg skal svo ekki að sinni fjölyrða umr., frumvarpið. Verði það að lögum, ræður það að minni hyggju, sanngjarna bót á göllum þeim, sem eru á núverandi fyrirkomulagi við prestskosningar og mjög oft hafa orðið þess valdandi, að að eins lítill hluti atkvæðisbærra manna í hverju prestakalli hefir getað neytt kosningarrjettar síns. Kostnaðaraukinn við breytinguna held jeg að verði lítill og ekki meiri en óhjákvæmilegt er, ef þingið vill gefa mönnum kost á að neyta atkvæðis síns.

Jeg vil loks leyfa mjer að gjöra það að tillögu minni, að þriggja manna nefnd verði skipuð í málið að lokinni þessari umræðu, og vona að hv. deild sýni frv. þá velvild að lofa því að ganga fram.