16.08.1915
Efri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

71. mál, veiting prestakalla

Framsögumaður (Guðm. Ólafsson) :

Jeg hefi ekki miklu við það að bæta, sem jeg hefi áður tekið fram um þetta mál. Eins og áður er um getið, telur biskup frumvarp þetta betra en gildandi lög, og mikill meiri hluti allra sóknarnefnda hefir talið breytingarnar til bóta. Fáar eru andvígar því, og sum mótmælin, sem komið hafa, stafa sjáanlega af misskilningi. Ein sóknarnefndin t. d. segist hafa haft sama prestinn um mjög mörg ár, og af því að hún er vel ánægð með hann, vill hún enga breytingu hafa á lögunum „þótt hún sjái að þessi breyting á þeim sje til mikilla bóta frá því, sem nú er“. Það, sem þessi heiðraða sóknarnefnd óttast, finst mjer hljóta að vera þetta, að verði frumvarpið að lögum, muni þeir prestar, sem náð hafa kosningu með atkvæðum mjög lítils hluta safnaðar, heimta, samvisku sinnar vegna, að ný kosning fari fram í þeirra prestaköllum, og geti það leitt til nokkurra prestakaupa milli safnaða.

Nefndin er nú alls ekki hrædd við þetta. Hún er sammála og leggur til, að frumvarpið sje samþykt með litlum breytingum. Þá er 1. brtt. við 4. gr., inn í hana bætist á eftir orðinu „kjósendur“ orðin „í hverri sókn“. Það er búist við að biskup sendi hverri sóknarnefnd ákveðna tölu kjörseðla, en til þess þarf hann að vita tölu kjósenda í hverri sókn.

2. breytingartillagan er við 7. gr. Þar er lagt til að falli burtu síðasta setningin og í hennar stað komi: Þó er fundur lögmætur, ef meiri hluti atkvæðisbærra manna sækir hann. Það er auðvitað mikið betra, ef meiri hluti atkvæðisbærra manna sækir fund, þótt veikindi, vatnavextir eða veðurátta hamli, að þurfa ekki að boða til fundar af nýju.

3. breytingartillaga er við 11. gr. Þar falli orðin „hæfilega ,margir“ burt. Nefndinni fanst að þau orð mættu falla niður og rjettast, að fleiri kjósendur sjeu ekki inni en þeir, sem eru að koma til kosningar eða fara frá þeim.

Nefndin vill bæta inn í 12. gr., að í öðrum stöðum en Reykjavík, þar sem kjósendur eru 1000 eða fleiri, megi einnig kjósa á fleirum en einum stað. Líka er önnur breyting við 12. gr., að sóknarnefnd skuli ákveða, hverjir kjósi á hverjum stað.

6. breytingartillagan fer í þá átt, að breyta orðalagi á 13. gr. á þrem stöðum, til þess að færa hana til. betra máls.

Síðasta breytingartillagan er við 14. gr. Í henni var ekki talað um að kaupa yrði ábyrgð á skilríkjum þeim, er kjörstjórn sendi til yfirkjörstjórnar. Nefndinni fanst sjálfsagt að taka það fram, að kaupa skyldi póstábyrgð, til þess að engum skyldi detta í hug að senda þau öðruvísi. Þessar brtt. eru fáar og flestar lítilfjörlegar, en nefndinni fanst þær til bóta, og vonar því, að háttvirt deid leyfi þeim fram að ganga.