25.08.1915
Efri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

68. mál, útflutningur hrossa

Framsm. (Sig. Stefánsson):

Nefndin, sem skipuð var í mál þetta í Nd., hefir ekki gjört miklar breytingar við frumv. og álítur að breytingar á lögunum um útflutning hrossa sjeu nauðsynlegar.

Hross hafa ekki verið mikið flutt út að vetrarlagi, fyrr en síðastliðinn vetur, og eftirspurn sú, sem þá var eftir hrossum, var sök í því, en frá mannúðarinnar sjónarmiði er það vart verjandi að flytja hross út um hávetur, þegar litið er til útbúnaðar þess á skipunum, sem þau verða að búa við.

Frumv. þetta var borið fram í Nd. og þar lagði nefndin til, að útflutningur væri bannaður á hrossum frá 1, nóv. til 1. apr., en það var felt. Nefndin játar fullkomlega, að þegar litið er til hrossaútflutnings á haustin, þá er heppilegra að binda bannið við 1. okt. Því þá eru veður oft farin að spillast allmikið, en samt þorði hún ekki að lengja banntímann að haustinu. Sama er að segja um vorið og útflutning á þeim tíma árs. Þar lagði nefndin til, að tíminn væri lengdur frá 1. apríl til 1. maí, og hefði helst átt að vera til 1. júní, en svo langt þorði nefndin ekki að fara, en þótti þó of skamt farið. Það er öllum kunnugt, að aprílmánuður er versti mánuðurinn fyrir hrossin, þá falla þau helst, ef þau annars falla, og þótt bannað sje að flytja út mögur hross, þá er því banni tæpast hlýtt. Aprílmánuður er alt af versti mánuðurinn, og það er hann, sem gengur næst hrossunum. Nefndin leggur því til, að tíminn sje ákveðinn frá 1. nóv. til 1. maí. Það er álitamál, hvernig útflytjendum geðjast að þessu, en hjer er það mannúðin, sem á að ráða, en ekki smávægis hagsmunir einstakra manna. Ræð jeg því háttv. deild til að samþykkja frumv.