25.08.1915
Efri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

68. mál, útflutningur hrossa

Hákon Kristófersson:

Jeg verð að viðurkenna það, að nefndin hefir komið vel fram í þessu máli, en þó get jeg ekki verið henni sammála. Jeg sje ekki að betra sje, nema jafn vel verra, að leyfa útflutning á hrossum 1. maí, en ekki 1. apríl. Í aprílmánuði er jafnan flutt út lítið af hrossum, svo að meðferð þeirra á skipunum er betri, þar eð færri eru. Apríl er sá mánuðurinn, sem hrossin fara verst, og þess vegna er ástæða til að ætla, að þau sjeu betur útlítandi í byrjun mánaðarins, heldur en í lok hans.

Jeg verð að segja, að það er hrygðarefni að verða segja frá því hjer opinberlega í háttv. deild, að hross sjeu að drepast úr hor í aprílmánuði, og hlýtur þar að vera um að kenna frámunalegu eftirlitsleysi af hálfu þeirra, sem hlut eiga að máli, og finst mjer því bein ástæða til að lengja bannið til 1. júní. Mun jeg koma með brtt. þess efnis til 3. umr. Í sambandi við þetta vil jeg geta þess, að jeg var í vor staddur á stað, þar sem hrossum var skipað út til útflutnings, og mjer blöskraði að sjá hve mögur hrossin voru, og er okkur til hreinustu vanvirðu að láta þau fara þannig frá okkur. Vildi jeg því að háttv. deild sæi sjer fært, að breyta tímanum til 1. júní.

Þetta mál er svo vaxið, að við megum ekki láta það hamla okkur, þó háttv. Nd. láti í ljósi gagnstæða skoðun; í því megum við ekki láta álit hennar ráða svo miklu, að við hopum frá rjettu marki.