27.08.1915
Efri deild: 44. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

68. mál, útflutningur hrossa

Hákon Kristófersson :

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með breytingartillögu á þgskj. 566, og miðar hún í sömu átt og jeg mælti fram með, þegar málið var hjer síðast til umráða, sem sje að tímabilið, sem bannað er að flytja út hesta á, sje lengt til 1. júní. Jeg verð að halda fast við það, sem jeg sagði þá, að ekki sje hyggilegra að leyfa að flytja út hesta 1. maí, heldur en 1. apríl, bæði af því, að þá eru veður lítið farin að batna, og ef maður lítur til vellíðanar hrossanna á útleiðinni, en einkum vegna hins, að hross eru oft í svo slæmu ástandi, í byrjun maí, að það er ekki forsvaranlegt, að flytja þau út, því að útlit þeirra er lakara þá, en í byrjun aprílmánaðar. Þetta er svo ljóst, að það er óþarfi að eyða orðum að því. Jeg vona, að háttv, deild samþykki frumv.með þessari breytingu. Jeg hefði gjarna óskað, að tíminn hefði verið lengdur fram í miðjan júní, en sje mjer ekki fært, að fara fram á það, því að jeg bjóst við, að það mundi mæta mótspyrnu hjer í deildinni. En jeg vona, að háttv. deild sje mjer sammála um það, að auk þess, sem hrossin þola miklu lakar hina, að mínu áliti, slæmu meðferð, er þau verða fyrir á leiðinni millum landa, þegar þau eru mögur, þá sje það hin mesta vanvirða fyrir okkar, að senda þau í önnur lönd, ef þau eru illa útlítandi. Því verð jeg einnig að halda fram, að þó vert sje að taka sem mest tillit til þess, er ganga muni fram í háttv. neðri deild, megum við hjer í háttv. Fd. ekki þar fyrir hopa frá því, er við álítum að stefni að rjettu marki.