25.08.1915
Efri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

41. mál, löggiltir vigtarmenn

Jón Þorkelsson:

Jeg stend ekki upp til að andmæla þessu frv., heldur út af orðum hv. 5. kgk. þm. (G. B.). Það er illa farið og skömm til frásagnar, að vog og mælir hjer á landi heyrir undir sveitarstjórn Khafnar. Í Danmörku hefir þetta verið lagt undir innanríkisráðuneytið, en við sitjum enn undir þessari dönsku hreppsnefnd. Jeg kom fram með þingsályktunartillögu 1911, um að stjórnin gerði gangskör að því, að koma reglu á þetta mál og koma hjer upp justering. En jeg hygg að stjórnin hafi ekkert gjört í því efni. Það ætti því að vera áminning til þingsins um að herða á stjórninni, að hún hefjist sem fyrst handa í þessu máli. Það sjá allir, hve öfugt það er, að eiga slíkt undir stofnum, sem mist hefir valdið í sínu eigin landi.