07.09.1915
Efri deild: 54. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Karl Finnbogason:

Jeg átti tvær brtt. við fjárlögin nú, en annari þeirra hefir verið vísað frá.

Jeg vil leyfa mjer að láta álit mitt í ljós um frávísunina.

Hjer er um tvö málsatriði að ræða. Svo verð jeg að líta á það.

Annað atriðið er það, hvort veita skuli utanfararstyrk handa barnakennurum. Það. atriði er samþykt í báðum deildum. Hitt atriðið er, hversu hár styrkurinn skuli vera. Um það atriði er ágreiningur.

Við aðra umræðu hjer í háttv. deild var felt að styrkurinn skyldi vera 2000 krónur, en nú er farið fram á 1800 krónur. Hjer er um annað atriði að ræða, því 2000 kr. er annað en 1800 kr. — annað atriði.

Þó 1000 krónur hafi verið samþyktar, en 2000 kr. feldar, þá er hæð styrksins ekki þar með óbreytilega ákveðin. Mátti því vel bera fram breytingartillögu við upphæðina, því aðalatriðið stendur, þó aukaatriðið — upphæð styrksins — 2000 kr., hafi fallið. Enda mun það hafa tíðkast hingað til, að bornar hafa verið upp breytingartillögur við fjárhæðir, hvað eftir annað, þótt einstakar tölur hafi fallið.

Verð jeg því að álíta, að hæstv. forseti hafi vikið hjer frá vanalegri og rjettmætri reglu.

Jeg ætla mjer ekki að deila um þetta. við dómarann, en mjer þykir það illa farið, einkum þar sem jeg tel, að nú liggi fyrir óræk sönnun fyrir því, að spara megi fjárupphæð þessa og meira til á öðrum lið, prófdómendum við barnaprófin.

Hin tillagan er um að veita til heimilisiðnaðar 1500 krónur, sem skiftist svo, að Heimilisiðnaðarfjelag Íslands fái 2/3 hluta, eða 1000 krónur, og fjelagið á Akureyri þriðjung eða 500 krónur. (Forseti: Jeg vil benda á, að það heitir „Heimilisiðnaðarfjelag Norðurlands“). Það stendur „Akureyrar“ í fjárlögunum, og mjer var ekki annað kunnugt, en ef til vill má skoða það sem prentvillu, (Forseti: Já), og hefi jeg ekki á móti því. Heimilisiðnaðarfjelag Íslands hefir haft 500 kr. styrk, og hefir honum aðallega verið varið til þess, að kosta námsskeið handa fullorðnum mönnum, þar sem þeim hefir verið kend trjesmíði, burstagerð, bókband o. fl. Tilgangurinn með þessum námsskeiðum hefir verið sá, að gjöra unglinga og fullorðna hæfa til þess, að kenna börnum heimilisiðnað. Aðsóknin að námsskeiðunum hefir farið vaxandi, og nemendur sótt þau úr ýmsum áttum, svo það sýnist vera áhugi fyrir málinu. Og það er enginn vafi á því, að þetta verður að gagni, og það ekki litlu, með tímanum.

Nú hefir Heimilisiðnaðarfjelag Íslands í hyggju að setja á fót vinnustofu fyrir börn, þar sem kenna á fátækum börnum ókeypis heimilisiðnað, og eins, ef efni og ástæður leyfa, öðrum börnum, gegn litlu gjaldi. Fjelagið hefir undirbúið málið í von um, að það fengi styrkinn hækkaðann. Vinnustofan er undirbúin og húsið er til. Og ef fjelagið fær þennan styrk, þá á það von á að fá styrk í viðbót frá bæjarsjóði Reykjavíkur og frá fjelagi í Svíþjóð.

Það er því mikils vert fyrir fjelagið, að það fái meiri styrk, en ráðgjört er í fjárlögunum. Það er svo fyrir mælt, að heimilisiðnaðarfjelag Akureyrar, eða rjettara Norðurlands, fái hluta af þeim 1000 kr., sem veittar eru til heimilisiðnaðar, og skal hluti sá, vera að tiltölu við framlög. Það er því enginn vafi á því, að heimilisiðnaðarfjelag Norðurlands fær töluverðan hluta af upphæðinni, en þá verður styrkur, sá, sem Heimilisiðnaðarfjelag Íslands fær, svo lágur, að það getur ekki sett á fót vinnustofuna, því það sjer sjer það ekki fært, nema styrkur þessi nál 1000 krónum.

Heimilisiðnaðarfjelag Norðurlands er nýstofnað, var stofnað í sumar, og tel jeg því rjett, að það fái sama styrk og Heimilisiðnaðarfjelag Íslands fjekk, er það hóf göngu sína.

En upphæðin er lítil, og fyrirtækið er viðurkent gott að vera, og vænti jeg því, að háttv. deild taki breytingartillögunni vel.