25.08.1915
Efri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

65. mál, áfengir drykkir

Framsögumaður (Björn Þorláksson):

Háttv. þm: Seyðf. (K. F.) hefir haft ýmislegt við frumv. að athuga. Honum þótti áfengismarkið, sem til er tekið í frumv., of lágt, og er það þó í samræmi við bannlögin. Hjelt hann að það mundi fæla menn frá að brugga saklaust öl, en jeg hygg, að honum skjátlist í því. Menn verða ekki sekari við lög fyrir það, þótt þetta ákvæði sje í frumv., því að ef einhver verður kærður fyrir að brugga áfenga drykki, hygg jeg að farið verði eftir bannlögunum um áfengisstyrkleikann. Háttv. þm. Seyðf. vildi því líklega helst, að áfengismarkið væri tekið úr bannlögunum.

Hv. þm. Seyðf. (K. F.) þóttu sektirnar of háar, en þar er nefndin á annari skoðun; hún vill að þær sjeu jafnháar fyrir bruggun hjer á landi og innflutning. Henni finst hvorttveggja vera jafn vitavert. Í gildandi lögum er lágmark sektanna 10 kr., en jeg held, að menn hljóti að verða sammála um, að þær sektir sjeu of lágar og hafi sárlítil áhrif. Það er satt sem hv. þm. sagði, að það er mikill munur á sakhæfi þeirra, sem brugga í smáum stíl, og þeirra, er brugga í stórum stíl. En nú er það orðin föst venja lögfræðinganna, að nota lágmark sekta við dóma sína, og er því hætt við, að sektin verði of lág fyrir þá, sem brugga í stórum stíl, Jeg held því fast við lágmark það, er nefndin hefir sett.

Þá er önnur brtt. við 5. gr., um áhöld þau, sem notuð eru til bruggunar. Hjer er ekki um neitt nýmæli að ræða í frv., því að bruggunarbannlögin frá 12. jan. 1900, hafa sama ákvæði um þetta atriði. Þótt sumum þyki hvítöl gott, þá er það skaðlegt, og jeg veit þess dæmi, að margir hafa drukkið hvítöl sjer til skammar, og orðið fullir af því. Við þekkjum báðir slík dæmi, hv. þm. Seyðf. (K. F.) og jeg, frá Seyðisfirði. (Karl Finnbogason: Það hefir verið eitthvað saman við það!).

Ef háttv. þm. tekur aftur fyrri brtt. sína, gæti jeg gjört honum það til geðs, að vera með seinni tillögu hans, því að jeg tel hana ekki beinlínis skaðlega.