07.09.1915
Efri deild: 54. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Sigurður Stefánsson:

Jeg athugaði ekki áðan brtt. þá, er háttv. 2. kgk. þm.

(Stgr. J.) hefir gjört á þgskj. 810, og snertir brtt. mína. Þessi tillaga fer fram á, að færa lánsheimildina niður í 45 þúsund kr. En tillaga mín er miðuð við áætlun, er gjörð var í fyrra um verkið, þar sem áætlað var, að kostnaðurinn yrði um 60 þús. krónur. Um brtt. þessa, á þgskj. 810, vil jeg taka það fram, að jeg er auðvitað þakklátur háttv. deild, ef hún verður samþykt, því það er allgóður styrkur fyrir fyrirtækið, þó jeg hins vegar kjósi fremur að tillaga mín nái fram að ganga.

Fáein orð vil jeg segja um brtt. á þgskj. 784, er háttv. 6. kgk. þm. (J. Þ:) ber fram. Hann vill binda styrkinn til goodtemplara tveimur skilyrðum. Fyrra skilyrðinu, undir a-lið, get jeg .ekki greitt atkvæði, því þetta skilyrði er svo óákveðið, og svo vaxið, að það er ókleift fyrir landsstjórnina, að hafa eftirlit með því, að templarar hagi sjer svo, sem þar er mælt fyrir. Enn fremur er það, að jeg tel það siðferðislega skyldu goodtemplara, að stuðla að því, að lögin nái vinsældum, og að fá menn til þess, að bera meiri virðingu fyrir þeim, því jeg tel það ekki nema gott, að lögunum sje hlýtt. En það er rjett hjá háttv. 6. kgk. þm. (J. Þ.), að þeir fari ekki með æsingar og ofstopa eða setji lögregluspæjara út um alt land, til þess að vita hvort lögin eru brotin. Það er afar óheppilegt, en jafn heppilegt er það, að þeir hafi áhrif á hugsunarhátt fólksins, um að bera virðingu fyrir lögunum.

Öðru máli er að gegna um b-liðinn. Jeg lít svo á, að þeir menn sem unna bindindissemi, megi vera þakklátir goodtemplurum fyrir bindindisstarfsemi þeirra, sem gjörð er í þágu alls landsins, og þessi maður, er hjer á hlut að máli, var um mörg ár regluboði og vann ötullega að því (Guðm. Ólafsson: Vann hann ekki að banninu líka?) (Karl Einarsson: Hann var eindreginn á móti því). (Jón Þorkelsson: Hann hefir alt af verið á móti banninu og er það enn). Um það veit jeg ekki, og skal láta það ósagt. En jeg vil taka það fram, að Reglan hefir sumstaðar minna hugsað um að starfa að bindindi, en að starfa sem pólitískur flokkur. Það er mjer sjerstaklega kunnugt úr mínu kjördæmi, og þau afskifti eru fjelaginu til einskis sóma, heldur hið gagnstæða. Jeg skal sem dæmi þess nefna síðustu prestskosninguna þar, þar sem það var allfjarri því, að þeir ræktu starf sitt sem skyldi, eða gætu sjer sóma. Það er varhugavert og óheppilegt fyrir templara, að kasta sjer inn í deilumál dagsins, og það leiðir til þess, að þeir jafnvel vinna gegn stefnuskrá sinni. Vitaskuld eiga ekki allir templarar þar óskilið mál, en mikill þorri þeirra er fullur ofstækis, ekki einungis í bannmálinu, heldur og í hinum pólitísku flokksmálum. Það hefir víst aldrei verið tilætlunin, að þeir kæmu fram sem pólitískur flokkur, heldur hitt, að vinna að því, að bæta siðferðið og betra og göfga hugsunarhátt landsmanna. Því er það, að jeg mun greiða atkvæði með síðari liðnum, því þótt nokkuð af styrknum eigi að ganga til þess að greiða gamlar skuldir, þá ætti það eigi að vera orsök þess, að Sigurður Eiríksson gæti eigi fengið þennan styrk.