02.09.1915
Efri deild: 49. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

138. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Flutnm. (Jósef Björnsson):

Jeg skal ekki fara mörgum orðum um frv. þetta, sem jeg og nokkrir aðrir háttvirtir deildarmenn höfum gjörst flutningsmenn að.

Nú fyrir skömmu hafa þau tíðindi gjörst hjer, hvað verkfall snertir, að full þörf sýnist vera, að lög sjeu samin, sem hindri að starfsmenn landsins leggi niður starfa sinn og baki, ef til vill, þjóðinni með því tjón. Þörfin á slíkum lögum getur tæplega álitist minni hjer en annarsstaðar, og gott að grípa til þeirra, ef svo ber undir. Geta skal jeg þess, að því er snertir frv. þetta, að það er komið fram hjer í þessari háttv. deild að undirlagi hæstv. ráðherra og mun að mestu vera samið af honum. Mun deildarmönnum því óhætt að treysta því, að frumvarpið sje vel samið. Vona jeg og að háttv. deild taki málinu vel, og viðurkenni nauðsyn þess, en hins vegar er nú orðið svo áliðið þingtímans, að lítið tóm er til að velta því lengi fyrir sjer; teljum við flutningsmenn því rjett, að hraða frumvarpinu sem mest. Vil jeg þó ekki mæla á móti því, að það sje athugað í nefnd, þó það kynni að tefja lítið eitt fyrir því, en hins vegar er frv. svo stutt, að tæplega er ástæða til þess. Gætu menn athugað það hver í sínu lagi og komið með breytingar, ef þeim sýnist svo.

Tef jeg svo ekki háttvirta deild lengur, en vona, að málinu verði vel tekið.