03.09.1915
Efri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

138. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Steingrímur Jónsson :

Jeg vil að eins skjóta því til hæstvirts ráðherra og flutningsmanna, hvort ekki væri vert að athuga nánar nokkur atriði í frumvarpinu, sjerstaklega í fyrstu grein, þar sem talað er um hvern þann, er tekur þátt í verkfalli. Jeg hygg að það væri æskilegt, að það væri skýrt nánar, hvað meint er með „verkfalli“. Jeg gjöri ráð fyrir að með orðinu verkfall sje átt við nokkuð víðtæk áhrif eða samtök um að leggja niður vinnu, en ekki þótt t. d. einhver einn starfsmaður í Landsbankanum leggi niður starfann og mæti ekki til vinnu alt í einu, upp úr þurru. Um slíkt er óþarft að fá sjerstök lög, enda enginn háski að því. Við þetta getur því trauðla verið átt, og því æskilegt að skýra nánar hugtak orðsins verkfall.

Bæði í þessari grein og í 2. grein, tel jeg að sektarákvæðin sjeu óþarflega há og mjög erfitt fyrir dómarann að beita þeim, svo lögin verði rjettlát.

Vjer skulum hugsa oss samtök um verkfall eins og um daginn og verkfallið hefði komist á. Jeg hefi ekki á móti því, að tekið sje með harðri hendi á þeim, er gangast fyrir slíkum samtökum, og á þeim, er taka þátt í þeim með ráðnum hug. En nú vitum við að í slíkum samtökum taka og aðrir þátt nær hugsunarlaust eða minsta kosti hugsunarlítið, eru teymdir með í þau af öðrum, t. d. ungar, um 16 ára gamlar, saklausar stúlkur, er hafa að árslaunum 4-500 krónur. Hvernig á nú nokkur dómari að sekta slíka stúlku um 500 kr.?

Og hver vill telja það rjettlátan dóm? Það verður líka við uppsögn dómsins að taka tillit til launa starfsmannsins.

Því mun nú verða haldið fram, að það sje venja dómara hjer á landi, að dæma í lægstu sektir, og því verði að hafa lágmark sektanna svona hátt, 500 krónur. En svo verður ekki hjer. Hjer verða margir sakaðir samtímis og þá hlýtur líka að koma fram mismunur í sektunum, eftir því, hversu sakir standa til. Forgöngumennirnir hljóta að fá hærri sektir en þeir, er hafa tekið þátt í verkfallinu af vanþekkingu og þroskaleysi. Og svo hafa laun starfsmannanna einnig áhrif á upphæð sektanna.

Þessar athugasemdir mínar eru ekki gjörðar til þess að hindra það, að lögin nái fram að ganga, því jeg álít þau nauðsynleg. En jeg kem fram með þær af því, að jeg álit að lögin komi betur að notum, ef þær eru til greina teknar; það verður betra að framkvæma lögin.

Að endingu vil jeg skjóta því til flutningsmannanna, hvort þeir vilji ekki bæta aftan við 1. gr. frumvarpsins ákvæði um, að þar sem sjerstakar ástæðar væru fyrir hendi, er drægju úr seki sakbornings, þá mættu sektirnar vera lægri. Ef það væri gjört tel jeg síður ástæðu til að álíta að lögin yrðu að eins pappírsgagn.

Rjett væri og að lagfæra 2. grein, en jeg er ekki eins óánægður með hana, en findist rjett að lægstu sektir í 1. gr. væru t. d. 100 krónur og í 2. grein 50 krónur.