03.09.1915
Efri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (488)

138. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Ráðherra :

Háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) neitaði því, að í Frakklandi væru lög um verkfall. Jeg skal ekki fullyrða það, þótt jeg hyggi að svo sje, en hins vegar skal jeg til þriðju umræðu útvega upplýsingar um það. Það ætti að vera ljettur vandi.

Það var svo að heyra á háttv. þm. (G. B.), að hann vildi lög um þetta efni, þótt hann gjörði ýmsar athugasemdir. Hann var að tala um verkföll við ýms verkleg fyrirtæki, svo sem vegi og járnbrautir, en þau verkföll heyra ekki undir þessi lög. Menn vinna þar ekki sem sýslunarmenn; heldur er landið þar eins selt, eins og t. d. verksmiðjueigandi gegn verkafólki sínu, kaupmaður gegn starfsmönnum sínum.

Að setja gjörðardóm í slík mál sem þessi, það held jeg að ekki sje gjörlegt, þegar af þeirri ástæðu, að það gæti komið fyrir, að gjörðardómurinn hækkaði kaup starfsmannanna svo og svo mikið. Og eftir hvaða heimild ætti stjórnin að greiða þau laun?

Jeg veit að menn líta mismunandi augum á verkföll; sumum finnast þau jafnvel rjettmæt, en jeg álít þau í alla staði óhafandi, þegar sýslunarmenn þess opinbera eiga í hlut, og vil ekki eiga þau yfir höfði mjer, ef hægt er að útiloka þau. Jeg vil því, að þingið gjöri það, sem í valdi þess stendur, til þess að fyrirbyggja þau.

Spursmál er það og hvort 143. og 144. greinar hegningarlaganna ná ekki yfir verkföll opinberra starfsmanna. Það má vel vera, að dómstólarnir líti svo á. En það þurfa helst að vera skýr ákvæði um það, sjerstök lög, því að þá getur ekki á neinu tvímæli leikið. Það er ekki allt af sagt, að þeir sjeu verst staddir, er hefja verkfall; aðrir geta verið verr staddir, en þeir sjá betur sóma sinn.