03.09.1915
Efri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

138. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Flutningsmaður (Jósef Björnsson):

Jeg vil leyfa mjer að fara fáeinum orðum um þau ummæli hv. 5. kgk. (G. B.), að ákvæði frv. þessa gætu komið mjög hart. og ranglátlega niður á þeim, sem hafa opinber störf á hendi, ef þeir legðu niður vinnu. Jeg er ekki sammála hv. 5. kgk. (G. B.) um þetta. Jeg lít að minsta. kosti svo á, að eigi minna harðræði eða. ranglæti, eins og hv. 5. kgk. (G. B.) mun vilja kalla það, hafi um langan aldur verið í lögum hjá oss, og skal jeg í þessu sambandi minna á vinnuhjúalögin.

Ef hjú rýfur gjörðan samning og gengur úr víst að orsakalausu, hvað kostar það hjúið? Það kostar að minsta kosti: eins mikið fyrir það, miðað við kaup þess, eins og sektir þær, sem hjer er ætlast til að greiddar sjeu, miðað við kaup þeirra,. sem þær eiga að greiða. Þótt 500 kr. virðist fljótt á litið allhá sekt, þá er þess að gæta, að fáir menn í þjónustu hins opinbera munu hafa lægri árslaun en 500 kr. En nú eiga hjúin að greiða sem svarar árskaupi sínu í sekt, ef þau rjúfa að orsakalausu vistarsamning. Hjer er því nokkurn veginn samræmi á milli.

En hjer er og annars að gæta. Það. getur leitt svo mikið tjón fyrir landið af verkfalli starfsmanna þess, að ekki verði. metið, og það þarf því að reisa sem rammastar skorður gegn því, að það geti komið fyrir.

Þeir, sem ganga í þjónustu hins opinbera, munu jafnaðarlegast vita full deili á því, að hverju þeir ganga, vita hvað há laun þeir eiga í vændum. Reki nú að því, að þeim þyki launin of lág, þá liggur opið fyrir þeim að segja sig frá starfinu, þessi lög hindra þá alls eigi frá því. Frumv. er því eigi svo ægilegt, sem hv. 5. kgk. (G. B.) vill gjöra það.

Þá er að minnast á athugasemdir hv. 2. kgk. (Stgr. J.), um að sanngjarnt virðist, að ákveða lægri sekt en til er tekin í 1. grein, ef sjerstakar málsbætur eru.

Það getur verið, að þetta sje á rökum bygt, og vænti jeg þess, að hæstv. ráðh., sem frv. hefir samið, og vjer flutningsmenn þess, munum taka þetta til athugunar, áður en málið kemur til 3. umr. Annars undrar mig það, ef hv. 5. kgk. sjer sjer eigi fært að vera með frumv. af þeim ástæðum, sem hann tók fram.