03.09.1915
Efri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

138. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Guðmundur Björnson:

Jeg vil svara því, sem háttv: 2. þm. Skagf. (J. B.) mintist á vinnuhjúa löggjöfina, með því, að það sje ágætt að fá hana inn í umræðurnar. Sá samanburður, sem þar hlýtur að koma fram, ætti að opna augun á mönnum fyrir því, hvað hjer er á seyði. Því að hvað er um vinnuhjúalöggjöfina að segja? Í stystu máli þetta: Hún er leifar af gamalli þrælkunarlöggjöf í landinu. Af henni spratt upp hin langvinna barátta um vistabandið; skammsýnir menn stóðu í þeirri trú, að ófært væri að lina á því tjóðurband, og henni — vinnuhjúalöggjöfinni — er það að þakka eða kenna, að æ gjörist erfiðara og erfiðara að fá fólk í vinnumensku, fá það til að bindast þeim ófrelsisböndum. Það er satt, að það er gott til skilningsauka, að taka vinnuhjúalöggjöfina til samanburðar við þetta frv. Þess ber vel að gæta, að sanngirnin getur hjer sem annarstaðar eins vel verið hjá verkamanninum, eins og hjá vinnuveitandanum.

Jeg held því fram, að komi ágreiningur upp, þá sje sanngjarnt að taka kröfur verkamannanna til skoðunar, en skjóta eigi römum slagbrandi fyrir, að þeir geti fengið áheyrn, hvernig sem á stendur. Aðrar þjóðir ;fara mjög varlega í þess konar mál; og jeg held því fram, þangað til mjer verður annað sýnt og sannað, að annarsstaðar sjeu eigi jafnströng lagaákvæði um verkfall, eins og í frv. þessu. Hafa þó aðrar þjóðir eigi farið varhluta af vandkvæðum þeim, sem verkföllum fylgja.

Jeg vona, að háttv. flutnm. sjái sjer fært að breyta: frv. svo, að líklegt sje, að rjettmætar kröfur opinberra starfsmanna geti orðið teknar rjettlátlega til greina. Vegur til þess væri fenginn, ef hægt væri fljótt og greiðlega að skjóta málinu undir óvilhalla menn. Ef þá gengi eigi saman, eða verkamenn vildu eigi hlíta tillögum eða úrskurði gjörðarmanna, þá fyrst væri tími til kominn að láta refsivönd laganna ríða að þeim. Þessu mundi vera hægt að koma svo fyrir, að varla gæti skaðleg vinnuteppa af hlotist. Herra forseti! Við höfum, enn sem komið er, lítið haft af verkföllum að segja, og löggjöfin því eigi fjallað um þau mál. Nú höfum vjer hjer byrjunina, og er sannarlega hvorki vel nje viturlega af stað farið í þessu frumv. Áreiðanlegra er það affarasælla að viðurkenna verkfallsrjettinn innan vissra takmarka. Auðsæ rök liggja að því, að svo er. Þetta er mín skoðun. En jeg býst eigi við, að hún nje orð mín hafi mikil áhrif að svo stöddu. Hjer sem annarsstaðar verður hver að bera ábyrgð á orðum sínum og gjörðum, — jeg á mínum og háttv. flutnm. á sínum. En spá mín er sú, að þeir muni síðar sjá, að þeir hafi farið helsti langt í þessu frv., í því, að hefta athafna frelsi manna.