03.09.1915
Efri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

138. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Steingrímur Jónsson:

Það hefir verið talsvert deilt um þetta atriði, sem hjer hefir orðið að umræðuefni í dag, um rjettinn að gjöra verkfall. Jeg held að þessi, rjettur sje ekki jafn viðurkendur, eins og hv. 5. kgk. þm. (G. B.) vill halda fram,. að minsta kosti ekki að því, sem opinbera. starfsmenn snertir. En það veit jeg, að erfitt hefir verið að finna takmörkin milli opinberra starfsmanna og hinna. Þetta hygg jeg að hafi komið greinilega fram í verkfallsmálunum í Frakklandi í stjórnartíð Clemencesus.

Annars álít jeg slík lög sem þessi nauðsynleg, þótt að sjálfsögðu megi deila um nokkur einstök atriði frv., og eigi finst mjer nauðsynlegt fyrir oss að viðurkenna verkfallsrjett opinberra starfsmanna og sýslunarmanna; en lengra ættu lögin ekki að ná. Getur jafnvel verið að rjett sje, að láta þau eigi ná lengra en til opinberra sýslunarmanna í þjónustu landsins. Jeg tel það töluverða bót að orðið „strike“ sje sett milli sviga á eftir orðinu verkfall; þá skýrist betur við hvað átt er. Háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) og hv. 2. þm. Skagf. (J. B.) mintust á vinnuhjúalögin og nefndi hv. kgk. þm. (G. B.) þau leifar gamallar þrælkunar, og þótti allólíklegt að þingið mundi vilja fara að endurnýja þá þrælkunarlöggjöf. Það er satt, vinnuhjúalögin eru samin í anda þeirrar tíðar, sem þau urðu til á. En þrátt fyrir alt, sem að vinnuhjúalögunum má finna, þá er það góður vottur þess, að menn uni þeim allvel, hve lengi þau hafa staðið, án þess við þeim hafi verið rótað, enda er það sannast að segja, að þau geyma ýms dýrmæt rjettindi fyrir hjúin. Jeg tel því allvarúðarvert að fara að hagga við þeim að svo stöddu, þar sem venjan hefir þegar drepið verstu galla þeirra, en kostirnir eru hagnýttir af þeim, sem undir þeim búa, og þeim, sem lögunum eiga að beita.