04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

138. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Guðmundur Björnson :

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með breytingartilögur á þgskj. 755 við frumvarp þetta. Jeg vil byrja á síðustu breytingartillögunni, sem er við fyrirsögn frumvarpsins. Jeg álít að fyrirsögnin eigi illa við, því að hún segir: Frv. tillaga um verkfall opinberra starfsmanna. En þegar maður les frumvarpið, leynir það sjer ekki, að með því er verið að banna verkfall. Því ætti frumvarpið að heita: Lög um bann gegn verkfalli opinberra starfsmanna. Að hafa hitt nafnið er jafn skakt og að kalla bannlögin: Lög um aðflutning á áfengi. Aðalefni þessara laga er að banna verkfall.

Það er fjarska erfitt að ræða um frumvarp þetta hjer á Alþingi, því að verkföll eru svo lítt kunn hjer á landi. Nauðsynlegustu undirstöðuatriðin eru þau, að meðal verkamanna, sem vinna saman, er um öll lönd fjelagsskapur, og hjer á landi bólar dálítið á því.

Ef fjelagsmenn eru óánægðir með kjör sín, heimta þeir allir af vinnuveitendunum umbætur á þeim, og fái þeir þær ekki, hafa þeir ekki annað úrræði, en að gjöra verkfall. Öll sú mikla bót, sem orðið hefir á kjörum verkamanna á síðari tímum, er að þakka þessu ráði, sem verkamenn hafa fundið til þess að fá kröfur sínar uppfyltar. Verkföllin eru vopn vinnandi fólks gegn auðvaldi og undirokun vinnuveitenda.

Nú má líta svo á, og á því er frumvarpið bygt, að það geti orðið til mikils miska fyrir almenningsheill, ef opinberir starfsmenn hefji verkfall. Í öðrum löndum og líka hjer hafa opinberir starfsmenn myndað fjelagsskap sín á milli eins og aðrir, til þess að vernda hagsmuni sína og bæta kjör þau, sem þeir eiga við að búa. Því verður ekki neitað, að þeirra kjörum er líka hægt að misbjóða og þjaka, eins og annara starfsmanna, svo að verkfallsnauðsynin er eins mikil fyrir þá og aðra. Hitt er víst og satt, að verkföll opinberra starfsmanna geta verið mjög meinleg fyrir almenningshag og jafnvel meinlegri en önnur, enda þótt hin geti verið það líka, t. d. kolaverkföll, vjelamannaverkföll og verkföll á járnbrautum.

Það, sem mjer virðist vera þungamiðjan í þessu máli, er það, hvort ekki sje hægt að sjá önnur ráð en að banna verkfall opinberra starfsmanna, hvort ekki sje hægt að sjá um, að þeir geti fengið sanngjarnar kröfur sínar uppfyltar og standi ekki verr að vígi en aðrir. Jeg get ekki varist þeirra orða, að flýtirinn, sem hafður er á að afgreiða þetta frumvarp, — því að það er reynt, að lemja það í gegn í flughasti, — er bersýnileg játning Alþingis á því, að kosti opinberra starfsmanna er þröngvað, og því þurfi að kúga þá.

Jeg skal játa, að nauðsynlegt er, að koma í veg fyrir verkfall opinberra starfsmanna, en jeg vil þó halda því fram statt og stöðugt, að það verði að búa svo um, að opinberir starfamenn geti á einhvern hátt fengið kröfur sínar metnar eins og aðrir, svo að þeir verði ekki þrælar vinnuveitendanna.

Það var góð samlíking hjá háttv. flutningsm.(J.B.) að líkja þessum lögum við vinnuhjúalögin gömlu, því að þau voru þrælkunarlög. Þetta eru ný þrælkunarlög, og það mannúðarlaus, og því get jeg ekki greitt þeim atkvæði mitt.

Mín meining er, að eins verði girt fyrir verkfall með því, að veita verkafólkinu rjett til að fá kröfur sínar metnar af óvilhöllum mönnum. Vinnuveitandanum er veitt yfirhöndin, því að hann nefnir einn og yfirdómurinn annan. Þá er girt fyrir að stórbagi geti hlotist af verkfalli.

Það var drepið á, að slík lög sem þessi væru til í 2 öðrum löndum, en jeg ætla að bíða eftir sönnun fyrir því. En þótt slík lög sem þessi hafi verið gefin út í öðrum löndum, sem jeg hygg að sjeu harla fá, þá efast jeg um að nokkursstaðar sje útilokað að menn geti fengið sanngjarnar kröfur sínar metnar, eða að bannað sje að gjöra verkfall. En þótt slík lög væru komin á á öðrum stöðum, eigum við ekki að semja siðu okkar eftir öðrum þjóðum í því, sem er ilt, ósómasamlegt og ómannúðlegt.

Við höfum mikið að gjöra í dag, og vil jeg því ekki tefja tímann. En jeg spái því, að þótt þessi lög komist á, þá sje þó ekki með þeim girt fyrir öll vandræði á ókomnum tíma. Jeg býst við að þessi ræða mín verði þýðingarlaus, því að það lítur út fyrir að það sje búið að samþykkja hjer í deildinni í hljóði, að þessi lög skuli ganga fram. En sá tími getur komið, að þrátt fyrir þessi ströngu lög slái þó einhvern tíma í baksegl.