04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

138. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Guðmundur Björnson:

Jeg skal hafa fá orð. Hæstv. ráðherra talaði um aðalatriðið í brtt. minni, og bar því við, að það gæti komið sjer illa, ef landssjóður væri dæmdur til að borga hærra kaup.

Jeg vil segja, að það, sem er að gjörast, bendir á að það sje í alla staði rjett, að landið greiði starfsmönnum sínum hærra kaup. Því hvað er að gjörast? Það er dýrtíð, sem gengur yfir þessa þjóð. Allir hafa fengið hærra kaup, verslunarmenn, sjómenn, kaupamenn, allir, nema starfsmenn þess opinbera.

Vjer höfum einmitt nýlega haft dæmi þess, að starfsmenn landsjóðs hafa borið sig upp við stjórnina og farið fram á umbætur á kjörum sínum. En þeim var sífelt neitað, og þá gripu þeir loks til þess óyndisúrræðis að hóta verkfalli. Þetta er augljóst dæmi þess, að starfsmenn landsjóðs verða harðar úti en aðrir vinnandi menn. Og svo á það að bætast ofan á, að þeir mega tæpast með einu orði láta óánægju sína í ljós, án þess það varði stórsektum eða fangelsi. En þá virðist mjer nú, að skörin sje farin að færast upp í bekkinn. Því hefir verið kastað fram, að landssjóður gjöri aldrei lock-out — verkbann — og því eigi starfsmönnum hans hins vegar ekki að leyfast að gjöra verkfall. En jeg býst við, að þetta stafi af því, að landsstjórnin getur ekki verið án starfsmanna sinna, enda hefi jeg enga sönnun fyrir því, að það geti ekki komið fyrir, að landsstjórnin lýsi yfir verkbanni.

Þá vil jeg minnast á þessar greinar, sem jeg legg til, að falli burtu. Þær eru svo ófrjálslegar, að þær. mundu flekka íslenska löggjöf Mjer virðist það ótrúleg óhæfa, að menn megi ekki kvarta yfir kjörum sínum, án þess að það varði við lög, eða að það eigi að vera eins saknæmt, að ympra á verkfalli eins og hefja það. Jeg veit ekki til, að í hegningarlögunum sje lögð hegning við hótunum um kjaptshögg, en hitt veit jeg að er saknæmt, að reka manni löðrung. Hingað til hefir löggjöf vor gjört mun á orði og verki. Það er að vísu satt, að hegningarlög vor eru orðin svo úrelt, að ekki er við unandi, en mjer hefði aldrei komið til hugar, að farið yrði að endurbæta þau með svo ómannúðlegum ákvæðum, sem hjer er um að ræða. Eftir því sem jeg best gat heyrt, áttu þessi frönsku lög, sem hæstv. ráðh. vitnaði í, fremur við landráð heldur en verkfall. Og þar í landi vantar ekki herlið, til þess að kæfa niður rjettlátar kröfur. En jeg harma lítt, þótt ekki sje eins ástatt hjer að því leyti. Jeg harma það ekki, þótt okkur vanti herlið til að kæfa niður rjettmætar kröfur almennings.