09.08.1915
Efri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

58. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Björn Þorláksson :

Af því að jeg er flutningsmaður þessa máls, vil jeg segja fáein orð um það. Framsögumaður hefir skýrt alveg rjett frá, en af því að jeg er kunnugur þarna fyrir austan, vil jeg geta þess, sem mælir með því, að sími verði lagður til Loðmundarfjarðar. Fyrst er það sveit, sem hefir mikil framtíðarskilyrði. Sveitin er mjög grösug, útvegur hefir verið þar dálítill og gæti verið talsverður að sumarlagi, og væri því nauðsynlegt að fá þangað síma. Á vetrum er oft erfitt um ferðir til Seyðisfjarðar,. og getur því verið erfitt að ná til læknis, en ef sími væri lagður, væri unt að ná munnlega til læknisins og fá ráð hjá honum, enda þótt ekki væri unt að sækja hann. Um kostnaðinn þarf jeg ekki að ræða, því að háttv. framsögumaður hefir skýrt frá að hann yrði ekki verulegur fram yfir kostnað við símalagningu um Unaós til Borgarfjarðar, þó báðir þessir símar væru lagðir á Austfjörðum, er frumvarpiðtil nefnir.