07.09.1915
Efri deild: 54. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Jósef Björnsson :

Fyrst mun jeg minnast á brtt. á þgskj. 801 frá hv. þm. Seyðf. (K. F.) og hv. 2. kgk. (Stgr. J.). Eins og tillaga, þessi er orðuð í fjárlögunum og í brtt. hv. þm. (K. F. og Stgr. J.), þá hefir hún ekki staðið fullskýrt fyrir nefndinni. En síðan nefndin fjallaði um málið, hefi jeg fengið í hendur lög fyrir heimilisiðnaðarfjelag Norðurlands, þar sem jeg sje að fjelagið er þegar til í því formi, sem mjög er þjóðlegt; meðal annars á öll áhersla að vara lögð á, að sníða heimilisiðnaðinn eftir þjóðlegum fyrirmyndum. Ætlast er og til, að starf fjelagsins nái bæði til bæja og sveita. Fjelagið ætlar að gefa út skýrslur og smá leiðbeiningar-ritgerðir, og útbýta þeim ókeypis til fjelagsmanna. Þegar jeg nú hefi fengið þessar upplýsingar, get jeg greitt atkvæði með tillögunni.

Næst ætla jeg að minnast á brtt. hv. 6. kgk. (J. Þ.) á þgskj. 784. Jeg verð að segja, að mjer finst fyrri liðurinn undir staflið a, sjerstaklega í sambandi við orð þau, æm hv. þm. (J. Þ.) ljet fylgja honum, vægast sagt, harla kynlegur, og jeg get ekki talið framkomu hv. þm., í þessu máli, skemtilega eða honum vegsauka. Mjer þykir það harla undarlegt, að jafnvitur maður og hv. 6. kgk. (J. Þ.) er talinn, skuli láta sjer detta í hug, sóma síns vegna, að koma með slíka brtt. sem þessa. Sjerstaklega þar sem hann lagði svo mikla áherslu á, hve mikið tillit ætti að taka til álits viturra manna; því að þessi tillaga hans mun seint viturleg talin.

Hv. 6. kgk. (J. Þ.) hefir oftar en einu sinni látið þau orð falla, hjer í deildinni, að bannlögin væri komin á fyrir tilstilli goodtemplara. Hann hefir líka sagt það nú hjer í deildinni, að goodtemplara varðaði ekki meira en sig um þau. Þetta eru hans óbreytt orð. Jeg skýt því til góðrar dómgreindar hv. þm., hvort hann telji sig ekki hafa leyfi til að láta sig hvert gott mál skifta, og hvort hann ekki yfirleitt telur sjer heimilt, að láta sig hvert þjóðmál skifta, hvort sem hann telur það þarft eða óþarft. Jeg hygg að hann mundi þykkjast sviftur persónulegum rjettindum, ef honum væri bannað að skifta sjer af

málum, sem hann telur góð vera, og er sannfærður um, að geta stutt með fylgi sinu. Og jafnvíst tel jeg hitt, að hann þættist frelsi sviftur með röngu, ef hann mætti ekki sporna á móti máli, er hann teldi ilt vera.

Ef hv. þm. (J. Þ.) vill játa þetta, þá skil jeg ekki í öðru en að hann muni samsinna því, að til nokkuð mikils sje mælst af goodtemplarareglunni, að hún láti með öllu afskiftalaus bannlögin; hann veit þó að Reglan saman stendur af einstökum meðlimum, sjerstökum einstaklingum, og að bannið hlyti að ná til hvers um sig af þeim, og þeir neyðast til að láta afskiftalaust það mál, er þeir telja einna best vera og mest umvarðandi af þjóðmálum vorum.

Jeg skal líka benda á hið sama, sem hv. þm. Ísaf. (S. St.), að það yrði óframkvæmanlegt fyrir stjórnina að framfylgja þessu, eða hvernig ætti hún að tryggja sjer það, að einstakir menn úr flokki goodtemplara gjörðu eitthvað, er teygja mætti inn undir bannlög hv. þm. (J. Þ.), því að slíkt er rjettnefni á tillögu hans. Afskifti þau, er stjórninni er hjer ætlað að hafa af máli þessu, eru þannig vaxin, eða rjettara sagt, skilyrði þau, er henni er ætlað að setja fyrir útborgun styrksins, að þau mundu svo mjög skerða fjelagsfrelsi og persónufrelsi, að jeg hygg sjálfum tillögumanninum mundi óa við því, sem þetta afkvæmi hans hefði í för með sjer, ef það er ekki kæft í fæðingunni.

Jeg tek það upp: Tillagan er svo mjög laus við að vera bygð á viturlegum grundvelli, að hinni mestu furðu sætir, og því er það svo frámunalegt, að hún skuli vera komin frá jafnvitrum manni og hv. 6. kgk.

(J. Þ.) er, að sjálfs hans skoðun og margra annara.

Hv. þm. (J. Þ.) kvaðst vilja vera laus við alt flangur goodtemplara. Hvað meinar hann með slíkum orðum? Ætlast hann til, að þeir sjeu sviftir persónulegu frelsi allra manna og dýra að hreifa sig til, sviftir náttúrueðli sínu og lífsnauðsyn? Ætlast hann til, svo að jeg viðhafi gamalt íslenskt orðtæki, að þeir sjeu negldir niður og „sitji fastir á sömu hundaþúfunni“? Sjálfum mundi honum eflaust þykja það hart, ef hann mætti ekki flangra eða ferðast eftir eigin vild.

Jeg lýk máli mínu með því, að lýsa því yfir, að jeg get alls eigi greitt atkvæði með jafnóviturlegri og ósanngjarnri tillögu og þessi er.