07.09.1915
Efri deild: 54. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Eiríkur Briem:

Út af því, að háttv. framsm. vitnaði í ástæður fjárlagafrv. í sambandi við brtt. mínar, vil jeg taka það fram, að þær standa í nánu sambandi hvor við aðra. Hann tók það fram, að samkvæmt tillögum stjórnarinnar væri upphæðin, sem á milli ber, ekki nema 2500 kr. En hugsanlegt er að hún verði hærri. T. d. varð kostnaðurinn 1912–13 við skrifstofuhald póstmeistara og rekstur pósthússins kr. 17147,90 á ári, en á því tímabili voru ekki veittar nema 13 þús. kr. hvort árið, og varð því umframgreiðsla á því fjárhagstímabili kr. 8295,80, en það er nokkuð á annað þús. fram yfir það, sem hjer er farið fram á að veitt sje. Það er því sýnilegt, að þótt kostnaðurinn yrði ekki meiri en hann var 1912–1913, þá dugar ekki þessi fjárhæð, sem áætluð er í frumv. Hjer er því langt of lítið áætlað. Árið 1914 voru útgjöldin kr. 18511,77, og er það töluvert meira en hjer er farið fram á í brtt. minni. Sú hækkun, sem jeg fer fram á í brtt. minni, er engin á fyrri liðnum, en á seinni liðnum nemur hún 3500 kr. frá því, sem áætlað er í stjórnarfrumvarpinu. Að þetta sje eðlilegt, er sýnilegt, þegar litið er á það, hversu stórkostlega póstflutningar hafa aukist, og tekjurnar af þeim vaxið þá um leið. Það er ekki einungis, að kostnaður hafi aukist við aukinn póstflutning, heldur hefir og ýmislegt, eldsneyti t. d., hækkað mjög í verði, og kaupgjald verkamanna hækkað frá því, sem áður var. Það getur því ekki verið rjett áætlun, sem hjer er í stjórnarfrv. Menn mega ekki bara búa til einhverja áætlun, sem lítur vel út, og gjöra á þann hátt tekjuhallann í fjárlögunum minni. Þetta getur því ekki verið neitt álitamál; póstafgreiðslan er svo mikilsvert mál, að ráðherra getur alls ekki bundið sig við þá áætlun í fjárlögunum, sem er alt of lág.