31.07.1915
Efri deild: 20. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Flutningsm:

(Björn Þorláksson): Jeg ætlaði ekki að halda neina ræðu, en að eins láta nægja að segja örfá orð.

Vil jeg byrja á að geta þess, að prentvillur höfðu slæðst inn í þingskj. 136, en þær hafa verið lagfærðar, og þgskj. útbýtt.

Á ný í deildinni. Vona jeg að þetta hafi. ekki komið að sök.

Eins og sjá má, stefnir frv. þetta að því, að bæta galla, sem eru á aðflutningsbannslögunum. Skal jeg geta þess, sem einn af flutningsmönnum þeirra, að mjer duldist ekki, að ýmsir gallar voru á þeim, er þá var ekki hægt að lagfæra, eins og stóð á, sökum ýmissa atvika, og var eigi nema um tvent að gjöra, annaðhvort að samþykkja þau óbreytt, eða fella þau. En reynsla sú, sem vjer höfum þegar fengið þetta hálfa ár, sem lögin hafa verið í gildi, hefir sýnt, að gallarnir tefja framkvæmd þeirra að ýmsu leyti. Frv. þetta er því fram komið í þeim tilgangi, að lagfæra þessa galla, þrátt fyrir það, þó mjer dyljist ekki, að ekki muni með því takast að lagfæra þá alla. Málið er þýðingarmikið og alvarlegt, jafnt vinum þess sem andstæðingum, og vona jeg því, að háttv. deild sýni frv. þá kurteisi, að láta það ganga til 2. umr. og kjósi 5 manna nefnd til þess að athuga það.