31.07.1915
Efri deild: 20. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Sigurður Stefánsson :

Jeg skal geta þess, að á þingmálafundi í kjördæmi mínu kom fram tillaga, sem fór í sömu átt og frumvarp það, er hjer liggur fyrir, sem sje að skerpa ákvæði bannlaganna. Tillaga þessi var feld með miklum atkvæðamun. Hjeldu menn að best væri að láta lögin afskiftalaus, og gagnslaust mundi að herða á hegningarákvæðunum.

Jeg verð að játa það, að jeg var alveg á sama máli. Jeg var einn af þeim, sem greiddu atkvæði með lögum þessum á þinginu 1909, án þess að láta frekar í ljós skoðun mína á málinu. Vil jeg því nú lýsa með fám orðum afstöðu minni til frv. og bannlaganna í heild.

Jeg skal játa það, að hugsjón sú, að loka landinu með lögum fyrir öllu áfengi, var fögur, enda var henni mjög haldið á lofti af brautryðjendum bannlaganna, og aðflutningsbann talið örugt ráð til þess, að útrýma nautn áfengra drykkja. Bannmenn ferðuðust um landið þvert og endilangt, og prjedikuðu fyrir þjóðinni nauðsyn laganna, og máluðu upp fyrir henni hinar svörtustu myndir ofdrykkjunnar. Að vísu var þá ofdrykkjan að mestu horfin úr flestum bygðarlögum landsins, að undanteknum fjölmennustu kauptúnunum, svo lýsing þeirra átti fremur við ástandið fyrir 20–30 árum, en myndir af tímanum sem þá var. Þeir máluðu ekki síður glæsilega framtíðina, framtíð, fulla andlegrar og líkamlegrar velmegunar, ef þessi lagasetning næði fram að ganga.

Jeg vil ekki álasa þessum mönnum. Jeg veit þeir hafa álitið þetta aðflutningsbann dýrindis hnoss fyrir þjóðina, og þeim tókst líka 1908 að fá meiri hluta þjóðarinnar til þess að trúa því; af því spratt atkvgr. þjóðarinnar um haustið 1908. Þeim er það að þakka eða kenna, að bannlögin voru samþ. á þinginu 1909 og síðar staðfest. Með þeim lögum er landinn, með litlum undantekningum, lokað fyrir áfengi. Jeg veit að Alþingi hefir verið legið á hálsi fyrir lög þessi, og það mest af mótstöðumönnum þeirra, sem ekki hafa trúað á, að þau næðu tilgangi sínum. En jeg vil ekki álasa þinginu vegna þeirra; getur verið að það sje af því, að jeg sje ekki alveg óhlutdrægur í þessu máli, þar eð jeg greiddi atkv. með lögunum, en jeg skal hreinskilnislega játa, að jeg var þó, þá þegar, allhræddur um, að þessi lagasetning mundi ekki láta hinar glæsilegu vonir rætast. En þinginu var vorkunn, þegar meiri hluti kjósenda. hafði látið þann vilja sinn í ljós, að þessir lagasetning ætti fram að ganga. En hræddur er jeg um, að kjósendur hafi starað of mjög á hugsjónina fögru, án þess að íhuga, hverjir erfiðleikar fylgdu framkvæmdum hennar, og eins hafi verið um þingið 1909. Hugsjóninni hafði verið aflað fylgis þjóðarinnar með agitationum, og þeim oft öfgakendum.

En svo er í þessu máli, sem öðrum, að reynslan er ólygnust, og á þinginu 1909 hugsaði jeg sem svo, að best væri að láta hana skera úr þessu máli. Það var aðalástæðan til þess, að jeg greiddi lögunum atkvæði. Þykist jeg viss um, að fleiri þingmenn á því þingi hafi hugsað eins En reynslan ólygna hefir látið góða von rætast miður en skyldi. Jeg skal játa það að hún er að vísu ekki löng, tæpast nógu. löng, til þess að dæma alveg eftir henni,. en því verður ekki neitað, að hún hefir gefið þeim byr í seglin, sem harðastan reru andróðurinn 1909 gegn þessu; hún hefir. látið hrakspár þeirra rætast sorglega, sem bygðar voru á þeim fullyrðingum þeirra, að lög þessi gengju svo nærri persónulegu frelsi manna, að þau hlytu frekar að verða böl en blessun fyrir þjóðina, þrátt fyrir hugsjónina fögru, og að þau gengju óþurftarerindi inn á það svið, þar sem siðgæðis- og sómatilfinningin á ein að hafa ráðin um athafnafrelsi einstaklinganna, og lögin leiddu því til ólöghlýðni og brota, ekki einungis á þeim, heldur og á öðrum lögum þjóðfjelagsins, bæði borgarslegum og siðferðislegum: Reynslan hefir sýnt, að þessir menn hafa haft of mikið til síns máls.

Frumkvöðlar laganna hugðust að vinna það á í skjótri svipan með lagasetningu, sem margra ára bindindisstarfsemi hafði reynt að vinna. En það væri að gjöra lítið úr bindindisstarfseminni, að neita því, að hún hefi borið góðan ávöxt. Árangur hennar var bæði mikill og gleðilegur. Því miður er ekki hægt að segja annað en að þessi lög sjeu magnaðasta vantraustsyfirlýsing til þeirrar starfsemi. Bardagaaðferðinni gegn ofdrykkjunni var gjörsamlega breytt; með ströngum lögum átti að vinna það, sem frjáls bindindisstarfsemi áður hafði unnið. Hún hafði unnið með hógværum fortölum og bætandi áhrifum á hugsunarhátt þjóðarinnar, hún var mannúðar- og kærleiksstarf En getur framkvæmd bannlaganna verið rekin af þvílíkum beinum hvötum? Jeg verð að efast um það, og skil ekki annað en að slíkur efi sje líka farinn að vakna hjá bannmönnum sjálfum. Jeg skil ekki annað en að þeir með sjálfum sjer hljóti að efast um, hvort heppilegt hafi verið, að hrista úr höndum sjer vopn bindindisstarfseminnar, en grípa í þess stað refsivönd laganna. Nærgöngular rannsóknir hamla frelsi manna, háar fjársektir, og jafsvel fangelsi, liggur nú við þeim verkum, sem naumast er hægt að sannfæra menn um, að sjeu í raun og veru nokkur veruleg brot, eða að minsta kosti hafi afarlítið saksæmt í för með sjer.

Jeg er því hræddur um, að lögunum sje ætlað að vinna óvinnandi verk.

Jeg nefndi reynsluna, sem ekki er orðin löng, og ekki nógu löng til þess, að ganga nú þegar á milli bols og höfuðs á lögunum. En líti maður á reynsluna, þá er hún sorgleg. Alt af síðan 1. jan. 1912 hefir vínið streymt inn í landið. Landinu er að vísu lokað með lögum fyrir öllu áfengi, en samt sem áður er ekkert lát á því áfengis syndaflóði. En hvað hefir lögreglan gjört, og hvað hefir hún getað gjört? Lítið eða ekkert. Staðið nálega ráðalaus og ekkert getað gegn lögbrjótunum. Engum mun detta í hug að segja annað en að þeir fáu, sem lögreglan hefir fest hendur í hári á, sjeu að eins örlítið brot af þeim mikla fjölda, sem lögin hafa brotið. Það vita því allir, bæði af afspurn og reynslu, hve gjörsamlega lögin eru fótum troðin.

Kvartil, kútar og flöskur eru fluttar í land á hverri vík og vog, hvar sem mönnum ræður svo við að horfa. Og það sem verra er, er að þetta hefir gefið tilefni til annara lögbrota af versta tagi, til rána og. gripdeilda og þjófnaðar. Jeg get nefnt dæmi: Jón hefir falið smyglaðan brennivínskút í góðri holu, sem hann hefir fundið, og hygst að sækja hann, þegar dimt sje orðið. En Pjetur hefir sjeð til hans og stelur kútnum. Jón veit að Pjetur hefir stolið honum, fer til hans og heimtar kútinn. En þá hellir Pjetur sem allra rólegast á staup og segir: Skál vinur Jón, í brennivíni stolnu frá þjer, en klagaðu mig, ef þú þorir. (Hlátur).

Þetta er miklu fremur hrygðar en hláturs efni.

En það er ekki eingöngu á afskektum stöðum, sem brotin koma fyrir; það er á allra vitorði, að þau koma vikulega og daglega fyrir í þjettbýlustu kauptúnum landsins, rjett fyrir framan nefið á lögreglunni. En mjer dettur ekki í hug að álasa lögreglunni fyrir það; það er ekki mensks manns verk, að sjá við öllum þessum brotum, og lífsómögulegt fyrir nokkra lögreglustjóra að framkvæma lögin, eins og nú standa sakir. Mjer dettur ekki í hug að neita því, að innflutningar á áfengi hafi minkað frá því sem var, enda mætti þar á milli vera. En mjer dettur í hug að efast um hitt, að gagnið, sem af lögunum leiðir, fyrir siðgæði þjóðarinnar, vegi upp á móti því tjóni, sem þau gjöra á öðrum sviðum siðferðismeðvitundarinnar. Þeirri spurningu er ekki hægt að svara til fulls að svo komnu máli. Og hverju erum við þá bættari, ef við getum ekki verið sannfærðir um að lögin hafi verið til góðs, bætt efnahaginn og siðferðisþroska þjóðarinnar? Það gerði bindindisstarfsemin. Og jeg bæti því við: Hvað eigum við að hugsa, er vjer höfum fyrir oss dæmi af þeim mannaumingjum, sem nú byrla sjer enn verra eitur en þeir nokkurn tíma hafa fengist til að láta ofan í sig, áður en þessi lög komu? Er það ekki gamla sagan, að menn hljóta æfinlega að streitast á móti þeim lögum, sem þeim finnast ganga of nærri persónulegu frelsi sínu? Jeg gæti sagt margar sögur, af slíkum eiturbyrlurum, kátlegar sögur, sem deildin mundi skellihlægja að, en jeg kæri mig ekki um það; málið er raunalegra en svo, að hlægjandi sje að því. Og svo hugsa menn sjer, að þeir geti fyrir bygt þetta með lögum. Heilaga einfeldni! liggur mjer við að segja. Lögreglustjórinn þyrfti að fylgja manninum svo að segja milli borðs og sængur, ef slíkt ætti að vera mögulegt.

Jeg verð að játa það, að jeg fæ ekki betur sjeð en hjer hafi verið verr farið en heima setið. Ekki er ólíklegt, að nú standi einhver upp og segi: „Góður maður, nú hefir þú haldið langa ræðu um lítt hafandi galla bannlaganna og ættir því að vera fyrstur manna til þess að koma fram með frumvarp til laga um afnám þeirra“. En jeg lít svo á, að þó að reynslan sje slík, sem raun er á orðin, þá sje þó viðurhlutamikið að hætta nú. Jeg er ekki með öllu vonlaus um, að eftir því sem þeim mönnum fækkar, sem frá barnæsku hafa haft áfengið um hönd, þá kunni mótspyrnan að rjena og þá geti runnið upp betri tímar. Vonin um þetta er að vísu veik, en þó nægilega sterk til þess, að jeg vil ekki afnema lögin nú þegar, og vil jeg taka á allri þolinmæði til, þess að sjá hverju fram vindur, hvort þetta batnar eða versnar. Batni það, þá er vel farið, versni það, þá er ekki annað að gjöra, en nema staðar á þeirri braut, er vjer erum nú komnir inn á og snúa þar alveg við blaðinu. Jeg þarf ekki að taka það fram, að jeg vona að til þess komi aldrei. En hinu verð jeg að mótmæla, að þetta frumvarp, sem nú er fram komið hjer í deildinni, komi að nokkru gagni. Það er algild regla, að lögum er ekkert hlýtt því betur. því harðari sem viðurlögin eru í þeim. Þetta vitum við allir. Það var einu sinni til dómur hjer á landi, er hjet Stóridómur. Hann lagði á menn þungar refsingar fyrir öll skírlífisbrot. En haldið þið, að siðferði manna hafi verið betra hjer í landi fyrir þá sök? Sagan sýnir oss alt annað. Nægir í því efni að benda á söguna um Bjarna bónda, sem var einn af meðdómsmönnum, er Stóridómur var dæmdur á Alþingi, og er hann kom heim, þá sá konan hans til hans, er hann framdi sama verknaðinn við vallargarðinn, sem dómurinn tók einna harðast á, og varð henni þá að orði :„Legið hefir þjer nú á, Bjarni minn“. Jeg hefi ekki minstu trú á, að lögin verði neitt bætt með þessu frumvarpi, sem hjer er fram komið, og vil jeg lang helst að alls ekkert verði krukkað í lögin að svo stöddu. Við bíðum og sjáum hvað setur, sjáum hvort birtir eða syrtir enn að í þessu máli.

Jeg fer ekkert út í einstakar greinar frv., en jeg lýsi því yfir, að jeg vildi helst, að það kæmist ekki í gegn um þingið. hinn bóginn vil jeg ekki vera á móti því, að nefnd verði skipuð í málið, svo það verði sem vandlegast íhugað. Fleira óska jeg ekki að taka fram og býst ekki við að tala oftar í málinu.