31.07.1915
Efri deild: 20. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Steingrímur Jónsson:

Eins og háttvirtum samþm. mínum er kunnugt, þá hefi jeg jafnan verið og er enn andbanningur. Jeg stend því nú upp við þessa umræðu málsins til þess, að gjöra grein fyrir hvers vegna jeg vil að málið fari til annarar umræðu og að nefnd verði skipuð í það.

Jeg er sammála háttv. 4. kgk. þm. (B. Þ.) um; að þetta er mjög þýðingarmikið mál. Því sem lög eru bannlögin mikils verð fyrir almenning. En mjer kom ekki á óvart, þó fram kæmi einhver tilraun frá bannmönnum til að bæta og breyta lögunum. En hitt var mjer vonbrigði, í hvaða átt breytingarnar svo fóru, þegar þær komu fram. Jeg hafði búist við að breytingarnar mundu miða að því, að gjöra landsstjórninni og lögregluvaldinu ljettara að framfylgja lögunum í aðalatriðunum. deg hafði búist við, að reynslan hefði kent bannmönnum að sjá hina miklu og mörgu agnúa, sem á lögunum eru, alls konar óþörf ákvæði, sem frekar gjörðu ilt en gott, mæddu þolinmæði manna og gengu of nærri rjettarmeðvitund þjóðarinnar. Og jeg hjelt að bannmenn mundu nú sníða þá agnúa í burtu. En með því frumvarpi, sem nú er fram komið í deildinni, er slíkt alls ekki gjört. Frumvarpið er enn ómannúðlegra en lögin, og ekkert ákvæði er í því, sem gjörir minstu vitund ljettara fyrir lögreglustjóra, að sjá um að lögunum verði hlýtt. Þetta frumvarp virðist ganga öllu nær persónulegu frelsi manna en bannlögin gjöra, og það virðist frekar auka á en draga úr erfiðleikunum — í viðskiftum vorum við erlendar þjóðir.

Ef þetta frv. verður samþykt, þá er vissulega gengið feti framar, en með bannlögunum, í því, að brjóta bág við þær rjettarfarsreglur, sem viðurkendar eru af rjettarmeðvitund almennings. En jeg fæ ekki sjeð, að það gjöri framkvæmd laganna auðveldari. Jeg hygg, að í nefnd geti það komið fyrir, að þessu verði breytt til bóta, þannig, að gjört verði nokkurn veginn mögulegt að framkvæma bannlögin, svo þau geti komið að meira gagni en nú gjöra þau. Þess vegna er jeg því samþykkur, að nefnd verði skipuð til að íhugamálið, og. bíð eftir breytingum á frumvarpinu.