12.08.1915
Efri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Björn Þorláksson:

Háttv. þm. Vestmannaeyinga (K. E.) virtist undrast yfir því, að jeg skyldi taka aftur 5, brtt., án þess að bera það undir hann. Jeg tel mjer nægja að bera það undir meiri hluta nefndarinnar. Eins og menn sjá, hefir ágreiningurinn verið svo mikill í nefndinni, að segja má, að hún hafi klofnað; og þess vegna fanst mjer ástæðulaust að bera þetta undir hann.

Þessi sami háttv. þingmaður talaði um að það mundi baka lögreglustjórum kostnað, að fara út í öll skip og innsigla þar áfengisbirgðirnar og virtist hallast að því, að þann kostnað ætti landssjóður að borga. Jeg fyrir mitt leyti er alveg á sömu skoðun.

Háttv. þm. Strand. (M. P.) hóf ræðu sína með því, að taka það fram, að hann væri ekki bannvinur. Það var í rauninni afveg óþarfi, því það vissu allir, og mun jeg enda segja honum í fundarlok, hvers vegna hann er ekki bannvinur.

Háttv. þingmaðurinn (M. P.) hjelt því fram, að það mundi vera ólöglegt að innsigla alt áfengi á skipum meðan þau dveldu hjer við land. Hann kvaðst sjálfur reyndar enginn lagamaður vera, og verð jeg að segja það sama um sjálfan mig. En jeg hefi leitað álits eins besta lögfræðings, sem kostur er á í bænum, og er hann þeirrar skoðunar, að ekkert sje á móti þessu.

Háttv. þingmaðurinn (M. P.) talaði enn fremur um það ákvæði í frumvarpinu, að sekta mætti ölvaða menn, og fann þessu ákvæði það til foráttu, að óhlutvandir dómarar kynnu að nota það gegn mönnum, sem þeim væri í nöp við. En þá hefði legið nær að hann hefði valið aðra leið en þá, sem hann hefir farið, til þess að leiðrjetta þetta, t. d. að breyta ákvæðinu í þá átt, að sekta mætti menn, ef þeir í ölæði vektu óspektir og röskuðu almanna friði, eða væru ósjálfbjarga. Í lögreglusamþyktum bæjanna hafa slík ákvæði lengi verið, og hjer er ekki um annað að ræða en að þau skuli framvegis gilda einnig í kaupstöðum og sjóþorpum, enda er ekki gott að sjá, hvers vegna menn eigi að vera rjettlægri þar en í bæjunum, gagnvart ölvuðum mönnum.

Háttv. þm. Strand. (M. P.) talaði mest um áfengi sem læknislyf í sinni löngu ræðu, og las hann upp máli sínu til stuðnings brjef frá 14 læknum, sem eru hlyntir brtt. hans. En á móti þessum 14 læknum standa 29 sveitalæknar, sem samkvæmt brjefi landlæknis til stjórnarráðsins, hafa tjáð, að þeir notuðu ekki áfengi sem læknislyf. Hinn háttv. þm. Strand. (M. P.) var reyndar að malda í móinn gegn þessu og sagði, að á þeim árum, sem landlæknir tilfærir, hefðu læknar ekki þurft að hafa áfengi í lyfjabúðum sínum, því að þú hefði alstaðar verið hægt að ná til þess. En margir læknar búa svo fjarri kaupstöðum, að það hefði verið bein skylda þeirra að hafa áfengi við höndina, ef þeir hefðu haft nokkra trú á því til lækninga. Jeg hygg því, að skjal þessara 14 lækna sanni harla lítið.

Að mínum dómi hafir tvent valdið klofningnum í nefndinni, — því að klofin er hún í raun og veru, — nefnilega togararnir og læknarnir. Jeg ætla mjer ekki að fara fleirum orðum um læknana; það mun annar háttv. þingmaður hjer í deildinni gjöra, en vil leyfa mjer að fara nokkrum orðum um togarana. Háttv. þm. Vestm. (K. E.) taldi það ósamræmi í frv., að útlend skip gætu flutt áfengi, en íslenskum togurum væri bannað það. En hjer er um ekkert ósamræmi að ræða, því að löggjafarvald vort nær ekki yfir útlend skip, en íslenskir togarar verða að lúta íslenskum lögum. (Karl Einarsson: Jeg talaði ekki um útlend skip, heldur innlend flutningaskip). Það er satt að það er ósamræmi, að íslenskum farþegaskipum haldist uppi að hafa með sjer áfengi, ef togurunum er bannað það, en væntanlega verður hægt að lagfæra það við 3. umr.

Jeg sný mjer aftur að fiskiskipunum. Ákvæðið um þau er sett til þess, að hindra óreglu, enda er lögreglustjórum lítt kleift að fara út í hvert einasta slíkt skip, til þess að innsigla áfengisbirgðir. Mjer þykir því meir en undarlegt, að mótmæli gegn þessu skuli koma frá lögreglustjóra, sem þar að auki þykist vera bannvinur, og ætti því að láta sjer sjerstaklega hugarhaldið, að lögin væru. svo úr garði gjörð, að þau væru framkvæmanleg. Og nú vil jeg leyfa mjer að spyrja: Til hvers eiga íslensk skip að hafa áfengi meðferðis? Setjum svo, að alt áfengi yrði innsiglað, hvað lengi á þá innsiglið að haldast? Sjálfsagt ekki lengur en þangað til þau eru komin út fyrir landhelgina. Þá eiga þau auðvitað að hafa leyfi til að leggjast borð við borð og skipverjar að þreyta drykkju af kappi! Óþarft held jeg sje að fjölyrða um, hvað mikið ilt getur leitt af þessu. Óskaplegar eru afleiðingar drykkjuskaparins á landi, en margfalt eru þær þó voðalegri á sjó. Jeg þykist mega fullyrða, að slysförum mundi ekki fækka, nje afli vaxa, ef slíkt háttalag yrði heimilað með lögum. En annars er jeg fullviss um, að útgjörðarmenn mundu aldrei þola þetta; þeir mundu grípa í taumana og sjálfra sín vegna afstýra slíkri óhæfu.

En þó að nú útgjörðarmenn vildu þola að áfengi væri haft um hönd á skipum þeirra, þá væri það eigi að síður gagnstætt íslenskum lögum, því að fyrir því finst hvergi íslenskur lagastafur, að hásetar á íslenskum skipum hafi rjett til þess að fá vín. Mjer er raunar sagt, að til sje gömul reglugjörð, sem fari í gagnstæða átt, en hún hlýtur þá að falla úr gildi, því að hún getur ekki staðið við hlið bannlaganna.

Jeg er líka hræddur um, að vátryggingargjaldið mundi ekki lækka, ef leyft væri að hafa áfengi um borð í skipunum. Skiptjón hafa oft orsakast af völdum áfengis, og mundi vátryggingargjaldið því hækka, hvort sem vátrygt væri hjer eða erlendis. Enda er bannað sumstaðar í útlöndum að hafa áfengi um borð í fiskiskipum, og mundu það því ekki verða nein meðmæli með sjómannastjett vorri í þeim löndum, ef þessi brtt. yrði samþ. Jeg vona nú, að óþarft sje að fjölyrða meir um þetta mál, enda er mjer kunnugt að ýmsir merkir menn hjer, sem nákunnugir eru togaraútveginum, líta á þetta mál eins og jeg. Svo er t. d. um Jón bæjarfógeta Magnússon, Hannes Hafliðason formann Fiskifjelagsins, Þorstein Guðmundsson fiskimatsmann á Suðurlandi, Jakob Jónsson verslunarstjóra Duus-verslunar og formann fiskiútgjörðar mikillar o. fl. Til árjettingar vil jeg leyfa mjer, með leyfi forseta, að lesa nokkrar línur úr grein um bannlögin og togarana, sem fyrir skemstu birtist í blaðinu „Vísir“. Þar segir svo: „Erlend útgjörðarfjelög hafa seinni árin stranglega bannað vínnautn á togurum sínum og vátryggingarfjelögin lagt mikla áherslu á þetta atriði, svo að sum hafa gjört slíkt bann að skilyrði fyrir vátryggingu skipanna. — Hvað segja nú vátryggingarfjelögin, erlend og innlend, þegar þau fá að vita, að íslenskir togarar og fiskiskip eru fljótandi knæpur, sem búast má við að þau verði, ef ekki er tekið fyrir þenna ósóma. Mundu þau ekki fara að líta í kring um sig og verða treg til vátrygginga gegn venjulegu gjaldi?“

Jeg hygg því, sem betur fer að ekki mundu verða mikil brögð að vínnautn á togurunum, þótt brtt. yrði samþykt. Enda er bersýnilegt, að refarnir eru til alls annars skornir; — maður getur skilið fyrr en skellur í tönnunum.

Leikurinn er til þess gjörður, að hægt sje að flytja áfengi inn í landið. Það á að nota lækna og togara til þess að koma óorði á bannlögin. Jeg verð að játa, að í upphafi átti jeg bágt með að trúa, að svo spiltur hugsunarháttur væri til, en nú er mjer sjón sögu ríkari. Og það eru tveir embættismenn, læknir og lögreglustjóri, sem eru fengnir til að vinna slíkt verk. Jeg get ekki betur sjeð en að þar með brjóti þeir beint í bág. við embættisskyldu sína, og er það hræðilegt tímanna tákn. Mjer verður á munni hið fornkveðna: „O! tempora! 0! mores!“

Þessu næst vil jeg minnast á. brtt. á þgskj. 264 og 296. Það er háttvirtur þm. Strand. (M. P.), sem þær brtt. flytur, og er jeg algjörlega andvígur þeim báðum. Um fyrri brtt. er það að segja, að það er ótilhlýðilegt að veita stjórnarráðinu slíka heimild, sem þar er gjört ráð fyrir, og bætir, það lítið úr skák, þótt því sje bætt við, að aldrei megi gefa eða selja öðrum en skipverjum af skipsforðanum. Ef brtt. yrði samþykt, mundu erfiðleikarnir við framkvæmd bannlaganna stórum vaxa. Það er ekki vafi á því, að þá mundi útlendingum gefast tækifæri til þess að fara í kring um bannlögin, en reynslan hefir sýnt, að flestir þeirra hafa ríka tilhneigingu í þá átt. Jeg tel illa til fallið að gefa stjórnarráðinu heimild,til þess að veita slíkar undanþágur; það, gæti orðið sumum af þeim háu herrum,sem þar sitja, fullmikil freisting, ekki síst, ef sá orðrómur er sannur, að ekki sjeu allir í stjórnarráðinu of miklir vinir bannlaganna, Og hver á svo að að meta, hvað sje hæfilegur skipsforði? Jeg sje því ekki betur, en að þessi brtt. sje óhæfileg.

En þó er meira blóð í kúnni! Á þgskj. 296 kemur hv. þm. Strand. (M. P.) með nýja brtt. við brtt. á þgskj. 264. Þar er farið fram á, að útlend skip megi, án þess að sækja um neitt leyfi, hafa hæfilegan skipsforða óinnsiglaðan „til næstu hafnar“. Engin ástæða er færð fyrir þessari till.

Hvers vegna á skipsforðinn endilega að vera óinnsiglaður til næstu hafnar? Segjum að skip komi fyrst til Fáskrúðsfjarðar, á það þá að hafa leyfi til að hafa skipsforðann óinnsiglaðan til Eskifjarðar — en síðan ekki við söguna meir? Hvers vegna ætti það fremur að komast í fordæminguna á Eskifirði en ekki á Fáskrúðsfirði? Jeg skil ekki annað eins og þetta, — og skil það þó. Hjer er enn verið að búa til nýja smugu fyrir áfengið. Jeg get tekið fleiri dæmi. Ef skipið kemur fyrst til Vestmannaeyja, þá á ekki að innsigla fyrr en í Reykjavík, og geta allir á þeirri leið notið góðs af skipsforðanum. En ef skip kemur fyrst til Rvíkur og Ísafj. eða Seyðisfj. er næsta höfn, þá ætti hver og einn að geta sagt sjer sjálfur, að greiðviknir skipverjar gætu miðlað talsverðu af áfengi á svo langri leið. Og greiðviknir á slíkt eru útlendir sjómenn venjulega; það vita allir, og er því engin hætta á, að þeir ljetu menn deyja úr þorsta, þó að þeir væru ekki læknar.

Nei, till. ristir djúpt, og hún ber vitni um djúpsæi hv. þm. Strand. (M. P.), eða þeirra, sem hafa hleypt honum af stað. Jeg mun því verða á móti þessari brtt. þótt, hún sje framkomin til þess, að svala þyrstum sálum. Útlend skip hjer við land verða að lúta landslögum, enda er það víst, að sum útlend skip hafa engan áfengisforða. Svo var t. d. um „Flóru“ fyrst þegar hún kom hingað, en seinna var því breytt, vegna samkepni við önnur skip hjer við land, sem áfengi höfðu.

Jeg get látið útrætt um þessa brtt. Breytingartillagan á þgskj. 264 fer fram á að breyta 1. gr. frv. þannig, að fella burtu ákvæðið um, að ölvaða menn, sem eru á almanna færi, megi taka og setja í hald. Jeg hefi farið nokkrum orðum um þetta atriði í framsögu minni og í nefndarálitinu, og hefi fáu við það að bæta, en að eins vil jeg geta þess, að ef menn eru hræddir við að samþykkja frv., vegna þess, þá er mönnum innan handar að koma fram með brtt, við 3. umræðu, sem takmarki þessa heimild við það, að hinn ölvaði maður raski ró eða friði. Og jeg get sagt það fyrir mitt leyti, að jeg væri því með, mæltur að þetta yrði gjört, en að öðru leyti verð jeg að leggja á móti breytingartillögunni, eins og hún er nú.

2. brtt. á þgskj. 263 fer fram á það, að löggiltar verði sem læknislyf 5 víntegundir og öl áfeng. Ef þetta yrði samþykt, mundu allir 50 læknar landsins hafa leyfi til þess, að selja þessa drykki. Jeg skal lýsa því yfir, að jeg held að flestir þeirra mundu ekki vanbrúka þetta, en það er eins í þessari stjett eins og annarsstaðar, að mennirnir eru misjafnir. Það liggur það orð á um suma lækna, að þeir drekki upp spíritusinn, sem þeir eiga að hafa til lækninga, og það mundi óheppilegt fyrir þessa menn, ef brtt. yrði samþykt. Þau vín, sem hjer eru talin, yrðu þeir að hafa sjálfir, af því að lyfjabúðir eru fáar, og mundi það ekki holt fyrir þá.

Jeg get ekki komist hjá því, að lýsa því yfir, þó mjer sje það nauðugt, að læknar hafa stundum hjálpað mönnum til að ná í vín til neytslu, og gjörst með því frómuðir drykkjuskapar. Ef þessi breyting yrði samþykt, mundi það sama og að fá beittan brand í höndur örvita mönnum, að því er suma lækna snerti.

Menn verða að fyrirgefa mjer, þó jeg segi, að mjer finst það hneyksli, ef þessi tillaga nær fram að ganga, og að hún mundi verða til þess, að veikja virðingu fyrir læknastjett landsins, og að vandaðir læknar, sem margir eru hjá okkur, svo sem betur fer, mundu einnig súpa seyðið af því.