12.08.1915
Efri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Steingrímur Jónsson:

Jeg ætlaði ekki að taka til máls nú við þessa umræðu, en gjörði grein fyrir því við 1. umr., að jeg mundi ekki geta greitt frumv. atkvæði mitt. En það er hvorttveggja, að fram hafa komið þarfar brtt. við frv. og svo er málið svo mikils vert, að jeg vil gjöra frekari grein fyrir skoðun minni á því og hvers vegna jeg get ekki verið með frumvarpinu, þrátt fyrir brtt. nefndarinnar. Það, sem gjörir að bannlögin eiga svo erfitt uppdráttar, er í fyrsta lagi það, að þau brjóta bág við rjettlætistilfinningu landsmanna, bæði bannmanna og andbanninga. Það brýtur bág við rjettlætistilfinningu hvers manns, að gjöra það að glæp að neyta áfengis, en það er einmitt rauði þráðurinn sem gengur í gegn um bannlögin. Annað atriði er það, að þau skerða persónulegt frelsi manna. Að vísu eru þau ekki einu lögin, sem gjöra það, en í flestum öðrum lögum reyna menn að komast hjá því, að blanda sjer í framferði manna, að því er snertir sjálfa þá eða heima fyrir. En hjer er gjörð fyrirskipun um það, hvers menn megi neyta. Þriðja atriðið, sem athugavert er, er hvernig eigi að koma þeim lögum, sem ganga svo langt og brjóta svo mjög bág við rjettlætistilfinningu manna, í framkvæmd. Breytingar á bannlögunum hefðu því átt að ganga í þá átt, að milda þau og gjöra þau framkvæmanlegri, því að úr því að lögin eru komin, þá á að gjöra eins gott úr þeim og hægt er. Það mundi gleðja mig, ef jeg gæti sagt við sjálfan mig: Þær hrakspár, sem þú komst með 1909, hafa ekki rætst. Þær hafa reynst rangar. En því miður hefi jeg ekki sjeð neina dagsbrún enn þá. Og þessar breytingar, sem hjer er farið fram á, gjöra hvorki að bæta úr þeim agnúum á lögunum, sem jeg gat um áðan, nje heldur að ljetta framkvæmd þeirra.

Jeg skal minnast á einstök atriði, en get farið fljótt yfir sögu. Vil jeg þá fyrst minnast á 1. gr. frv. Samkvæmt henni mega útlend skip ekki hafa skipsforða: óinnsiglaðan á meðan þau eru hjer við

land. Það getur verið rjett, að við getum lögboðið þetta, að minsta kosti um þau skip, sem komin eru á hafnir, en vafasamt er hvort við getum látið það ná til skipa þessara, þegar þau eru komin út af höfnum, að minsta kosti þegar þau eru komin út úr landhelginni, þó þau sjeu í siglingum hjer við land. En þó við höfum lagalegan rjett til þessa, þá er það ekki kurteisi gagnvart öðrum þjóðum, að banna skipverjum á útlendum skipum, að neyta áfengis á meðan þau eru hjer við land. Jeg held að það sje einn af ókostum bannlaganna frá 1909, að þau gjöra útlendum ferðamönnum erfitt fyrir, og koma því til vegar, að þeir sjá sig knúða til að brjóta lögin. Og komist þetta í lög, held jeg að kvartað muni yfir því af útlendingum, og gæti þá svo farið,

að landsmönnum veitti erfitt að halda þessu uppi.

Þá er annað atriði í frv., sem jeg álít að herði mjög á og spilli bannlögunum; það er að taka megi menn fasta, ef þeir eru ölvaðir á almannafæri, þó þeir engan óskunda gjöri, og fara með þá sem þjófa. Að það megi taka þá og hafa þá í haldi 24 tíma, þó að þeir hafi orðið ölvaðir af sínu eigin áfengi, sem þeir hafa fengið á algjörlega lögmætan hátt, er hart. Lengra var ekki hægt að ganga, því að stjórnarskráin bannar það. Þetta ákvæði er alveg óþarft og einn af þeim títuprjónum, sem skaða bannlögin. Þá er 3. gr. 1. liður, sem mælir svo fyrir, að ef þeir, sem áfengi finst hjá, geta ekki sannað, að þeir sjeu komnir að víninu á lögmætan hátt, skuli þeir skoðast sekir um innflutning áfengis. Þetta held jeg að hljóti að skaða framkvæmd bannlaganna mjög. (Björn Þorláksson: Nefndin leggur til að þessu verði breytt). Jeg held því fram, að því sje að minsta kosti ekki nógu skýrt breytt. Enn er margt fleira athugavert, sem jeg gæti nefnt, en jeg ætla að eins að minnast á síðustu brtt. nefndarinnar, um að fella úr gildi lögin frá 20. okt. 1913. Það getur að vísu verið, að það sje ekkert á móti þessu, eftir því sem framsögumaður sagði, en jeg hefði óskað að nefndin hefði haft meira til að byggja á en hún hefir haft. Alþingi 1913 áleit nauðsynlegt að lögleiða þetta, samkvæmt ósk sendiræðismanna erlendra ríkja. Nefndin hefði því átt að hafa yfirlýsingu sendikonsúlanna þriggja um, að þeir óskuðu ekki að halda þessari heimild, því að það er leitt, ef þessi breyting yrði til þess, að lögin næðu ekki fram að ganga, þegar Alþingi hefði samþykt þau. Þær brtt., sem fram hafa komið, breyta og bæta lögin talsvert, einkum breytingartillögur hv. þm. Strand. (M. P.), en þó ekki svo, að jeg álíti rjett að samþykkja frumvarpið. Jeg ætla ekki að tala meira um einstakar brtt., en að eins minnast á brtt. á þgskj. 263, seinni liðinn, sem fer fram á, að löggiltar verði til lækninga nokkrar víntegundir, sem alment eru notaðar til lækninga. Þessa tillögu álít jeg sjálfsagt að samþykkja, og er jeg á sama máli og hv. þm. Strand. (M. P.) um að hún miði að því, að vinna bannlögunum gagn. Jeg veit að það mælist ákaflega illa fyrir út um land, að læknar skulu ekki mega nota vín til lækninga. Jeg bý í strjálbygðu hjeraði, en hefi þó ekki sjaldan orðið var við, að sjúklingar þurfi þessara vína sjer til lækninga. En jeg hygg, að ekki geti komið til mála, að þessi vín yrðu notuð til drykkjar.

Það er ekki af þeirri ástæðu, að jeg er á móti bannlögunum, að jeg vil ekki samþykkja frumvarpið, heldur af því, að mjer virðist það spilla bannlögunum. Það hafa komið fram ýmsar fullyrðingar af hálfu þeirra, sem eru með þessu frv. Framsm. sagði t. d. að sveitirnar væru orðnar þurrar, áður hefðu þar verið votar. Jeg mótmæli því, að þetta sje rjett, að því er hið síðara snertir. Jeg get að vísu ekki sagt um þetta fyrir allar sveitir, heldur að eins fyrir þann hluta landsins, sem jeg er kunnugur. Þær voru orðnar þurar áður en aðflutningsbannið kom, og var það þakka bindisstarfseminni.

Það er eins og þeir góðu bannmenn hafi gleymt að bindindi var til hjer á landi áður en Goodtemplarareglan kom. Það var að miklu leyti að þakka þeirri bindindisstarfsemi, sem var hjer á undan Goodtemplarareglunni, að sveitir voru orðnar þurrar og vín aðeins til í kauptúnum. Jeg held jeg þori því að fullyrða, að ástandið þá hafi ekki verið verra en nú; að vísu mun þá hafa verið meira vín til í landinu en nú, en nú hafa menn að eins sterkustu og óhollustu drykkina. Þessu hafa menn gleymt. Í Þingeyjarsýslu er það að minsta kosti svo, að menn hafa geymt aðallega sterkustu drykkina. Þótt bleytan því sje minni, er óhollustan alls ekki minni. Háttv. þm. (B. Þ.) sagði að kaupstaðirnir væru mikið breyttir til batnaðar í þessu efni frá 1909, en því mótmæli jeg. Drykkjuskapurinn hafði minkað mikið um árabil áður en bannlögin komust á. Þess vegna var samanburður hv. þm. um Reykjavík þannig lagaður, að hann sannaði ekkert. Þegar jeg kom hingað 1904, undraðist jeg hve lítill drykkjuskapur var hjer. Nú er hann að sjálfsögðu minni, en það, sem drukkið er, er aðallega sterku, óhollu og stundum baneitruðu drykkirnir. Þetta er háskinn.

Háttv. þm. talaði um að andbanningar hefðu lítið kynt sjer, hvað bannmálinu liði utanlands, og það er ef til vill rjett. Þó gat jeg kynt mjer árið 1909 hvað því leið í Ameríku, og jeg gat ekki annað sjeð en að bannlög Bandaríkjanna væru líkari lögunum okkar frá 1899, en bannlögunum 1909; þau voru líkari þeim lögum, enda hafa þau átt mjög mikinn þátt í að draga úr áfengisnautn hjer á landi, jafnvel meiri en snapsalögin 1882. Bannhreyfingin hjer hefði einmitt átt að fara í líka átt og í Ameríku, þá hefði hún reynst vinsælli. Hv. þm. benti á, að í Ameríku væri búist við bannlögum um 1920. Fari svo, hygg jeg að þau bannlög verði mýkri en okkar lög og betur að alþýðu skapi.

Rússar hafa nú í ófriðnum að eins bannað brennivínið sitt, sterkustu drykkina, eins og Frakkar, þeir hafa bannað absintið. Sú stefna hlýtur að reynast mikið vinsælli. Þess vegna vænti jeg þess, þegar jeg heyrði að breytingartillögur væru á ferðinni, að þær gengju í þá átt, að mýkja lögin, í þá átt, sem auðvitað hefir verið aðaltakmarkið, að útiloka sterku óhollu drykkina, en hleypa þeim hollu inn.

Það lítur út fyrir, að bannlögin hafi miklu fremur gjört hitt að verkum, að útiloka hollu drykkina, en hleypa þeim skaðlegu inn.

Háttv. flutningsmaður endaði á því, að Íslendingar yrðu kallaðir brautryðjendur erlendis. Jeg held að hann hafi litið of stórum augum á okkur. Jeg held að erlendar þjóðir nefni okkur ekki sem brautryðjendur, heldur segi: „Þetta hafa Íslendingar reynt, til þess eru vítin að varast þau“. Jeg er viss um að Englendingar taka þetta mál öðruvísi. Það er rjett, að Englendingar eru farnir að hugsa um bann, en þeir fara aðrar leiðir en við. Og jeg hygg ensku aðferðina betri en ofstopann frá 1909.