12.08.1915
Efri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Magnús Pjetursson :

Jeg get ekki komist hjá að standa upp, en það er ekki. margt sem svara þarf.

Fyrst eru tillögurnar á þgskj. 264 og296. Mjer þykir vænt um og þakka hv. ráðherra fyrir að hann hefir skýrt flutningsmenni frá því, að möguleiki sje fyrir, að frumvarpið nái ekki staðfestingu, ef til. daga mín verður feld. Þetta sýnir þó það, að allar tillögur mínar ganga ekki í þá átt, að tortíma bannlögunum. Þarf jeg því ekki öðru við að bæta, því þetta sýnir svo greinilega hve rjettilega jeg hefi litið á málið.

Jeg mun síðar koma að því, sem flutningsmaður (B. Þ.) talaði til okkar læknanna, en fyrst vil jeg minnast á það, sem háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) sagði. Hann kom reyndar ekki með neitt nýtt, ekkert annað en það, sem stendur í álitsskjali hans, sem jeg áður hefi hrakið. Hann hneykslaðist á því, að jeg kallaði vín lyf, og þótti vænt um, að stjettarbræður mínir gjörðu sig ekki seka í því sama, en það var tæpast von, því að þeir nefna þetta atriði ekki á nafn. Málfræðingur er jeg ekki, en öll þau efni kalla jeg lyf, sem notuð eru til lækninga. En hvers vegna hneykslast háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) á þessu, þegar hann sjálfur í álitaskjali sínu kallar áfengi lyf. Vín eru blönduð af áfengi með ýmsum fleiri efnum. Úr því nú áfengið sjálft er lyf, er það þá ekki einnig lyf, þó það sje í ýmsum þynningum, ef ekki er látið neitt það efni saman við, er eyðileggi lækniskraft þess? Þetta er því að eins hártogun.

Þá er ótti háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) við það, að þetta yrði læknastjettinni til vansæmdar, ef hún fengi vínin til lækninga. Slíkan ótta hefi jeg ekki, og. þetta eru að eins getsakir á engum rökum bygðar. Jeg vona að háttv. deild sje ljóst, að jeg held því fram, að jeg geti ekki búið til áfengisblöndur, sem sjeu jafn gómsætar sjúklingum og þessi vín; háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) heldur hinu fram; annað ber okkur ekki á milli. Hvað við víkur áhættunni, þá er hún sú sama nú, eins og jeg hefi áður tekið fram. Þá talaði háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) um, að í skjali læknanna 14 kæmi tvent ólíkt fram, sem sje rjettindi lækna og að hafa vín til lækninga. Rjett er það, að þetta sje tvent, en hjer fer það saman, og er hvað bundið öðru, svo að ekki er unt að aðgreina það.

Þá hneykslast háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) á því, að jeg skuli hafa nefnt vínbúðir, sem jeg ber ekki á móti, þó það muni hafa verið mismæli fyrir vínbirgðir, en auðvitað gat jeg ekkert annað meint með því en vín í búðum lækna, sem kallast lyfjabúðir. Alt annað, sem lagt væri í það orð, er vísvitandi útúrsnúningur. En hann undirstrikaði, að ef tillaga mín yrði samþykt, þá yrðu vínbúðir hjá öllum læknum landsins. Einnig talaði háttv. þm. (G. B.) um, að eftirlitið yrði erfitt. Ekki skil jeg að það yrði mikið erfiðara, því nú þarf hann þó að hafa eftirlit með áfengisblöndunum. Viðvíkjandi spurningum þeim, sem háttv. þm. (G. B.) kom með, þá verð jeg að gangast við því, að jeg skildi alls ekki hvað hann átti við. Hann spurði t. d. hvort læknar ættu að vera lausir við að halda lögin? Mjer vitanlega höfum við aldrei gjört kröfu til að vera þeim undanþegnir, eða hver hefir farið fram á slíkt?

Þá talaði háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) um misbrúkun ýmsa, sem komin væri þegar í ljós hjá læknum, og var með dylgjur þar að lútandi. Það er leitt, að hjer er að eins einn læknir til að bera af sjer, en þessi ásökun nær til allra, og þykir mjer harla óviðeigandi af háttv. þingmanni (G. B.), að koma fram með slíkt hjer í þingsalnum, enda mundi verða erfitt um sannanir, ef lengra væri látið fara, og það jafnvel þó landlæknir eigi hlut að máli, og því enn ósæmilegra af honum að bera slíkt upp á stjett sína. Fleiru þarf jeg ekki að svara háttv. 5, kgk. þm. (G. B.), en vildi örlítið víkja að því, sem flutningsmaður (B. Þ.) sagði.

Háttv. flutningsmanni (B. Þ.) var mikið niðri fyrir, er hann stóð upp; sagðist vera hás, en það rættist furðanlega úr honum, þegar fram í sótti. Aðallega talaði háttv. flutningsmaður (B. Þ.) í getsökum og stóryrðum. Hann ljest mundi skýra frá því hvers vegna jeg væri bannfjandi, og bjóst jeg við einhverjum mikilsverðum upplýsingum út af þeim orðum, og hefir það víst átt að vera þetta, að jeg væri í fjelagi, ásamt háttv. þm. Vestm. (K. E.) togara og lækna, sem hygðust að tortíma bannlögunum. Mikil er nú trúin og viskan! Því jeg gjöri ráð fyrir að hann hafi heyrt þetta einhver staðar; hitt er ótrúlegt, að hann hafi búið þetta til sjálfur. En ósvinna má það heita. að hann er svo trúgjarn að hlaupa með slúðursögur og koma með rakalausar staðhæfingar í garð manna hjer í deildinni. Barði hann sjer á brjóst yfir spillingu okkar tveggja embættismanna, sem heldur er ekki einkennilegt, ef hann trúir á þetta leynifjelag. En það er nú einu sinni svo með bannvini, að þeir verða alt af að hnýta í okkur, sem lítum öðruvísi á það mál heldur en þeir. Þetta er geðveiki í þeim og því vorkennandi. Jeg var fyrir skömmu að tala við bannvin um það, hvort hann óttaðist, að við, sem erum andstæðingar bannlaganna, mundum verða lögunum að falli. „Nei“, sagði hann, „ekki þið bannfjendur, heldur bannvinirnir með öllu sínu ofstæki“.