12.08.1915
Efri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Björn Þorláksson) :

Hv. 2. kgk. (Stgr. J.) sagði ýmislegt, sem talsvert var athugavert, en jeg nenni ekki að eltast við það alt. Einkum lagði hann áherslu á, að það væri ekki kurteist gagnvart útlendum þjóðum, að innsigla vínföng á skipum þeirra. Jeg skal ekki segja um það, en hann efaðist jafnframt um, að það væri löglegt. Þar ber jeg fyrir mig ummæli annars lögfræðings, jafngóðs, sem áleit það fyllilega löglegt. Þá kvartaði hann um, að ekki væri rjett að leggja það á lögreglustjóra, án þess að fje væri veitt til þess sjerstaklega, en jeg vil halda því fram, að framkvæmdirnar yrðu auðveldari, ef breytingarnar næðu fram að ganga. Talaði hann um hve lögin væru ströng, og að þau mundu eyðileggja sig sjálf þess vegna. Viðurkendi hann að mikil hreyfing væri í bannlagaáttina í hinum enska heimi, en gat þess þó, að ekki væri okkar bannlög komin þaðan, eða sniðin eftir þeim fyrirmyndum, sem þar gæfust. (Steingrímur Jónsson: Nei). Jeg segi jú. En á fleira ætla jeg ekki að minnast hjá hv. 2. kgk. þm. (Stgr. J.).

Við ræðu háttv. þm. Vestm. (K. E) hefi jeg tvent að athuga. Vildi hann mótmæla því, að 5. brtt. væri tekin aftur, en. jeg skyldi hann sem klofinn út úr nefndinni og bar hana því ekki undir hann,. en hjelt, að nóg væri að fá samþykt meirihluta nefndarinnar. Mun verða rætt um hana í nefndinni seinna og hann þá líka taka þátt í því. Sama er að segja um 15. brtt., sem talar um að nema úr gildi heimild erlendra sendiræðismanna; hún er nú tekin af dagskrá, til þess að nefndin geti athugað hana frekar.

Út af orðum háttv. ráðherra verð jeg að lýsa yfir því, að mjer þótti leitt, það sem hann sagði nú, þar eð hann hefir lýst yfir öðru áður.

Háttv. þm. Strand. (M. P.) sagði í ræðu sinni, að það hefði hneykslað sig, hverorð jeg notaði, er jeg sagði að dýralæknirinn hefði hrundið þessu af stað; hefði hann að eins verið að leita konu sinni lækninga, og skil jeg ekki við hvað hann átti. Jeg þykist stilla orðum mínum stillilega. En jeg hneykslast á orðum hv. þm.Strand. Hann segir: „Hvað var dýrið sem talað var um? Það var konan hans“ Þetta hneykslaði mig, því jeg ætlaði ekki að hnjóða í frúna.

Háttv. sami þm. var dálítið stórorður út af því, að jeg hefði sagt hann vera í fjelagi, til þess að koma lögunum fyrir kattarnef. Jeg sagði þetta ekki beinlínis,. en að hann ræki erindi annara.

Mjer finst framkoma hans bera vott um það. Og í því efni er sjón sögu ríkari. Hann segist gjöra þetta til þess, að varðveita lögin. Jeg vildi nú leggja þá spurningu fyrir háttv. deildarmenn, hverir sjeu nú líklegri til að vilja lögunum vel, vinir þeirra eða óvinir. Háttv. þingmaðurinn hóf ræðu sína með því, að lýsa því yfir, að hann hafi ávalt verið mótfallinn bannlögunum. Er hann þá manna líklegastur til að gjöra þau þannig úr garði, að best gegni? Hann virtist vera í öngum sínum út af því, að jeg mundi ekki efna það, að skýra honum frá, hvers vegna hann væri andbanningur. Hann má vera óhræddur; jeg skal efna það eftir örlitla stund.

Jeg ætla áður að minnast nokkrum orðum á 4. gr. frumvarpsins. Um hana hefir nú orðið allmikill ágreiningur hjer í deildinni, eins og menn hafa heyrt. Jeg ætla lítið um þann ágreining að tala, því jeg játa, að jeg hefi ekki full skilyrði til þess, að geta dæmt þar um. Háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) hefir líka tekið þar alt ómak af mjer, og talað á þá leið, að jeg gæti engu þar við bætt. Læknarnir hjer í deildinni hafa leitt saman hesta sína í dag. Ágreiningurinn milli þeirra var í stuttu máli sá, hvort áfengi væri þarft eða óþarft sem læknislyf. Jeg skal auðvitað ekki um það dæma hvor þeirra hefir rjett fyrir sjer; en þó er það trúa mín, að eitthvað talsvert sje bogið við þessa brtt. háttv. þm. Strand. og lækningakraft áfengisiös. Jeg held, að það sje eitthvað líkt um hana og trúna gömlu á Gratiu og Brama og Kína-elixírinn. Núna er sú trú gengin úr gildi, og áfengistrúin er að fara sömu leiðina. Tröllatrú alþýðunnar á áfengið er alveg horfin. Sje hún einhversstaðar eftir, þá er það helst hjá þeim, sem vanist hafa áfengi svo, að þeir eru orðnir ímyndunarveikir, og halda að áfengið bæti öll sín mein. Ágreiningurinn var mikill á milli þessara tveggja lækna, landlæknir öðru megin og hjeraðslækni Strandamanna hins vegar. En jeg get ekki að því gjört, að mjer finst; sem jeg hafi einungis hlustað á einn lækni. Ræða landlæknis bar vott um að honum er ant um heilsu og velferð manna, og lítur á málið sem föðurlandsvinur. Þegar jeg heyri menn tala, þá dæmi jeg þá eftir þeim anda, sem þeir tala af. Háttv. þm. Strand. (M. P.) talaði sem andbanningur, en ekki sem læknir, og vill sýnilega gjöra lögin með öllu óframkvæmanleg. Hann hefir ásamt háttv. þm. Vestm. (K. E.) komið fram með brtt., sem snertir togarana og aðra, og um að löggilda ýmsar víntegundir á lyfjaskrá landsins. Með þessu öllu. hefir háttv. þm. Strandamanna sýnt það, að hann kemur hjer fram eingöngu sem andbanningur, en alls ekki sem læknir. Að því leyti, sem háttv. þm. Vestmannaeyinga er flutningsmaður með honum að þessum tillögum, þá verður hann að sæta sama vitnisburði frá mjer fyrir þetta, hvort sem honum líkar það betur eða miður.

Jeg hyg að mörgum manni muni þykja það undarlegt, að tveir embættismenn landsins skuli verða til þess, að bindast samtökum um, að tortíma bannlögunum. Því jeg endurtek það, að það eru þeir að reyna að gjöra. Jeg hygg, að margur muni undrast, að sýslumaður og læknir, skuli veljast til þess skaðsamlega starfs. En mjer hefir dottið í hug, hver orsökin muni vera, og skal jeg nú skýra frá henni. Jeg hef þekt menn, sem grætt hafa fje á því, að selja áfengi, og hefi jeg tekið eftir því, að margt bölið hefir oft fylgt heimili þeirra. Börn þeirra hafa alist upp við þá skoðun, að áfengissala væri heiðarlegt og nauðsynlegt starf. Synir sumra þessara manna hafa oft eyðilagas fyrir ofdrykkju, þegar þeir komust á legg, og allir hafa þeir átt það sammerkt, að hafa óbeit á bannlögum og bindindi. Þetta hygg jeg muni vera orsökin til þess, að þessir menn hafa orðið til þess, að bera fram þessar tillögur. Það vill svo til, að báðir þessir menn eru synir vínveitingamanna og aldir upp á vínveitingahúsi. (Forseti : Jeg skora á hv. þingmann að fara ekki lengra inn á þessa braut. Þetta er alt of persónulegt). Jeg skil ekki hvers vegna hæstv. forseti finnur ástæðu til að áminna mig út af þessu, og veit jeg ekki til, að það sje nokkursstaðar bannað í þingsköpunum að tala á þá leið, er jeg hefi gjört. Enda er ekkert ljótt í því, sem jeg hef sagt. Það sem jeg ætlaði að segja, var það, að þessir menn væru aldir upp á veitingahúsi, og þaðan mundu þessar skoðanir stafa, sem þeir nú hafa á þessu máli. En þess skulu þeir minnast, að „sjer grefur gröf þó grafi“. Jeg skal ekki öfunda þessa menn af þeim orðstír, sem þeir eru nú að afla sjer af þessu máli. En jeg ætla að minna þá á það eitt, að Nemesis hefir verið til, og hún lifir enn. Per quod quis peccat, per idem punitur et idem.