18.08.1915
Efri deild: 36. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Framsögumaður (Björn Þorláksson):

Eins og hv. deild sjer, hefir nefndin í máli þessu komið fram með breytingartillögur við frumvarpið, eins og það var samþykt við 2. umr. Þær eru fjórar og fyrir glöggleikasakir eru greinarnar prentaðar upp með breytingunum, eins og þær verða, ef breytingarnar verða samþyktar, og skal jeg stuttlega skýra frá efni þeirra.

1. brtt. er við 2. gr. Hún er þess efnis, að banna öllum íslenskum skipum að flytja áfengi til landsins, nema það eigi að fara til umsjónarmanns áfengiskaupa. Það er ætlast til að þessi viðbót komi fram við 2. gr., eins og hún var samþykt við 2. umræðu.

Í framsögu meiri hluta nefndarinnar við 2. umr. kom fram sú stefna, að íslensk fiskiskip skyldu ekkert áfengi flytja til landsins. Nefndinni þótti nú rjett að koma með brtt. í þessa átt, samræmisins vegna, og gjöra öllum íslenskum skipum jafn hátt undir höfði, hvort heldur eru farmeða farþega-skip. Það var tekið fram, hve nauðsynlegt það er öllum íslenskum fiskiskipum að hafa ekki áfengi innanborðs, svo af því leiði engin hætta, en með því að ákvæðið er nú gjört víðtækara, nær það einnig til Eimskipafjelags Íslands, bæði farm- og farþega-skipa þess, og skal jeg fara um það nokkrum orðum.

Jeg mintist á það við 2. umr. þessa máls, að stjórn Eimskipafjelags Íslands hefði gjört þá ráðstöfun, að á skipum fjelagsins skyldi ekki vera haft um hönd áfengi, meðan þau væru hjer við land. Þetta er vel gjört. En vel gæti hugsast, að á þessu yrði einhver breyting, ef stjórnarskifti yrðu. Jeg get ekki betur sjeð, en að það sje mjög óviðeigandi og jafnvel neyksli, ef íslensk skip hefðu áfengi hjer við land. Jeg er sannfærður um, að það mundi verða til þess, að vinsældir fjelagsins minkuðu hjá þeim, sem hafa tekið það upp á arma sína, og það er verr farið, ef afleiðingin skyldi verða sú, að færri hlutabrjef yrðu tekin en ella. Það yrði því ávinningur, ef fjelagið kæmist þegar í fyrstu í rjett lag. Um þetta fjelag vonum við allir jafnt, að það eigi mikla og blómlega framtíð fyrir höndum. Við vonum, að skipum fjölgi, að ekki verði þess langt að bíða, að við náum öllum samgöngum í okkar hendur, svo að ekki gangi önnur skip en íslensk hjer með ströndum fram. Ef svo færi og ekkert þeirra skipa hefði áfengi, þá yrði engin hætta á ferðum fyrir bannlögin, því þá væri ekki um önnur skip en íslensk að ræða; útlendu skipin væru þá úr sögunni. Aðalbreytingin er þá þessi, og er það einungis viðbót við það, sem samþykt var við 2. umr. Svo heldur greinin áfram óbreytt að öðru en því, sem er bein afleiðing af þessu, eða mutatis mutandis. Inn í 2. gr. þarf að bæta: hvort heldur skipið er íslenskt eða erlent. Það er svo augljóst, að um það þarf ekki að fjölyrða, enda læt jeg úttalað um 1. brtt.

Næsta brtt. er við 3. gr.; sú grein er orðuð um. Fyrsta og síðasta setningin eru þar teknar saman í eina málsgrein. Inn í hana er skotið því; að ölvaðan mann megi taka fastan og láta sæta sektum, ef hann raskar ró og friði manna, eða er ósjálfbjarga. Það er alveg það sama, sem jeg lýsti í framsögu minni. Jeg hygg, að brtt. sje þannig úr garði gjörð, að mönnum verði geðfelt að greiða atkvæði með henni. Síðustu orðin úr greininni eru feld burt, enda eru þau óþörf. Ölvaður maður verður aldrei hafður í haldi lengur en í 24 klukkustundir, samkvæmt ákvæðinu stjórnarskrárinnar, og eru því þau orð óþörf.

Jeg vil taka það fram um brtt. hv. þm. Barð. (H. K.), um að 2. málsgrein falli burt, að jeg hefi talað við hann, og hann hefir lýst því yfir, að hann sje fús á að taka hana aftur, ef það, sem fyrir honum vakti, sje tekið fram í brtt. nefndarinnar. Jeg býst því við, að hann taki hana aftur 3. brtt. er við 5. gr. Hún er um það, hvernig með það áfengi skuli farið, er íslensk skip flytja ólöglega til landsins. Hún leiðir eðlilega af viðbótinni við 2. gr. og hlýtur eðlilega að standa eða falla með 1. brtt.

Þá er 4. brtt., sem er við 6. gr. Hún hljóðar um að úr gildi skuli að eins fella b. gr. laga nr. 44, 30. júlí 1909. 8. gr. þeirra laga verður vitanlega að standa, þótt hún væri feld í fuminu, sem varð 32 um daginn. Sama er að segja um 13. gr. Hún verður að standa áfram, því að eitt ákvæði hennar, nefnilega það, að ölvaðan mann megi leiða fyrir dómara, var ekki tekið upp í 3. gr. 6. gr. frv. orðist því þannig, ef sú breyting nær fram að ganga.

Jeg þarf ekki að tala meira um brtt. nefndarinnar. Um brtt. hv. þm. Barð. (H. K.) hefi jeg þegar talað, og mun ekki að sinni segja fleira um hinar brtt., fyrr en flutningsmenn þeirra hafa tekið til máls.