18.08.1915
Efri deild: 36. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Guðmundur Björnson :

Jeg er að vissu leyti glaður yfir því, að málið er nú komið fram í þessari mynd hjer í háttv. deild, þó jeg verði að telja það efasamt, að tillagan á þgskj. 377 geti komist að eftir þingsköpum, því hún er að efni til, eins og till. á þgskj. 263, er var feld hjer í deildinni. Jeg vek að eins athygli á þessu; hæstv. forseti ræður því.

En úr því að umræður eru leyfðar um tillögu þessa, þá vil jeg leyfa mjer að svara háttv. þm. Strand. (M. P.) ofurlítið.

En jeg endurtek það, að það gleður mig að tillaga þessi kom fram, því hún sýnir það ljóslega, að krafa læknanna er ekkert annað en rjettindakrafa. Þeir halda því fram, að þeir eigi að fá alt það, er hugur þeirra kann að girnast, hvort sem það er vín eða eitthvað annað.

Þetta er krafan.

Jeg er er viss um, að hv. þm. Strand. (M..P.) dettur ekki í hug, að halda því fram, að allir áfengir drykkir sjeu lyf, sem nauðsynleg sjeu til lækninga. Það er brot á heibrigði skynsemi. Og er jeg hræddur um, að honum gengi illa að fá alþýðu manna til að trúa því, að víntegundir eins og t. d, whisky, arrak, absinth, Champagnie, kopirak, Caloric, Köstersbitter og því um líkt, sjeu lyf, sem nauðsynleg sjeu til læknisdóma, enda hefir hv. þm. Strand. (M ;P.) ekki viljað halda því fram. En hann telur það sæma best, að gefa læknum, sem hann kallar „óskertan rjett“, og að hann sje með þessari tillögu, af því hún uppfylli „fylsta rjettinn“ og hann taldi það þröngsýni og ofstæki, að vera á móti þessari að hans dómi eðlilegu rjettarkröfu.

Þar sem hann bar mjer á brýn, að jeg hefði ekki í skýrslu minni farið rjett með um ólöggild lyf, þá er það lítilfjörlegt aukaatriði. Jeg fór eftir skýrslu þeirri, er lyfsalinn gaf mjer. Brjef hans um þetta liggur heima hjá mjer, en jeg nenni ekki að hafa svo mikið við þetta, að koma með brjefið hingað niður á Alþingi. Menn geta fengið að sjá það heima hjá mjer, ef þeir taka ekki orð mín trúanleg.

Það er satt að járnlyf það, er hann tilnefndi, hefir 10–12% af áfengi, en það er rangt hjá honum, að það sje jafnsterkt og sherry, því í sherry eru um 20% af áfengi. Það er ekki heldur rjett hjá honum, að þetta járnlyf sje mest notað af járnlyfjum, því til þess að svo væri, er það of dýrt. Það er of dýrt til þess að allur almenningur geti keypt það, og því nota læknar það ekki mikið. Annars hirði jeg ekki að skattyrðast um þetta aukaatriði við hv. þm. (M. P.), en hægt er að fá að vita það í lyfjabúðinni, hversu mikið er selt af því og öðrum járnlyfjum.

Annað atriði, sem hv. þm. Strand. (M. P.) gjörði mikið úr, voru Danir — hvað Danir segðu, og hann las upp grein úr dönskum lögum. Og þar segir, að þau lyf, er læknar fyrirskipa, eigi lyfjabýðin að hafa, en það stendur ekki að kognak eða romm sje lyf.

Það stendur ekki í athugasemdinni að það geti skoðast sem lyf, sem ekki er lyf Útlendir læknar eru mjög varfærnir, miklu varfærnari en hv. þm. Strand. (M. P.), og þeim dettur ekki í hug að segja,

að áfengi sje lyf. Ef bannlög væru komin á í Danmörku, þá dytti engum í hug að að halda því fram, að kognak væri lyf. Sannleikurinn er sá, að kognak er ekki fremur lyf en brennivín; þetta er óneitanlegur sannleikur, sem hv. þm. Strand. (M. P.) dettur ekki í hug að hrekja — honum dettur ekki í hug að halda öðru fram.

Það er best, úr því háttv. þm. Strand. (M. P.) finst svo mikið til um Danmörku, að jeg segi ofurlitla sögu. Það var alsiða fyrir nokkrum árum, að gefa konum, sem höfðu barnsfarasótt — blóðeitrun — kognak. Þeim var gefið það á hverjum degi, og stundum voru skamtarnir stórir, gátu verið jafnvel 1–2 pelar dag hvern. Þá gjörðist það í Þýskalandi, að ungur læknir gaf ekki áfengi, manni, er hafði blóðeitrun. Þetta þótti hin mesta goðgá. Það var óheyrt, og það vakti feikna athygli um allan heim, af því að yfirmaður læknisins kærði hann, og málið kom undir álit og úrskurð fjölda frægra lækna. Og þessir frægu læknar gáfu einhuga það álit, að læknirinn hefði rjett gjört. Þeir sýknuðu hann og sögðu, að það væri óþarft að gefa kognak í þeim tilfellum.

Það getur verið að háttv. þm. Strand. (M. P.) og íslensku læknarnir, sem eru skoðanabræður hans, afli sjer heiðurs í svip með kognakinu sínu, en hvort sá heiður verður til frambúðar, það veit framtíðin ein. Jeg fel henni, fyrir mitt leyti, óhræddur dóminn.

Jeg vík þá máli mínu að breytingartillögunni sjálfri.

Hún fer fram á það, að læknar megi flytja inn áfengi til lækninga, en í þessu liggur að sjálfsögðu ekki það, að alls konar áfengi sje nauðsynlegt til lækninga. En þá kemur strax spurningin, hver á að skera úr því, hvaða áfengistegundir sjeu nauðsynlegar?

Þetta kemur strax fram við fyrstu pöntunina. Er til dæmis romm nauðsynlegt?

Hver á að skera úr því?

Eru það allir íslensku læknarnir; eru það nokkrir þeirra, eða er það að eins einhver einn, og ef svo er, þá hver þeirra?

Jeg get hugsað mjer að þetta geti gengið t. d. svo til. Einhver stúdent, er gengið hefir á læknadeild Háskólans, er lítt fær, en hefir þó náð læknaprófi með ljelegustu einkunn, sem háskólinn á til. Prófið er ljelegt og þekkingin af skornum skamti, en hann hefir öðlast þann mikla rjett, að mega flytja áfengi inn til landsins síns eins og hann vill. Hugsum okkur svo að hann setji sig niður hjer í Reykjavik og byrji á að panta kampavín, whisky, líkör, romm, absint, banko o. s. frv., og segist ætla að nota þetta til lækninga. Hver á að dæma um þetta, má ske enginn, að eins viðkomandi læknir sjálfur.

Það verður ekki skemtilegt líf fyrir lyfsalana, ef þetta verður svona, því það er alls ekki útilokað, að einhver læknir taki upp á þessu.

Því furðar mig það ekki, sem einn lyfsalinn sagði einu sinni við mig, að hann teldi það eina mestu óhamingju fyrir sig, ef hann þyrfti að gjöra lyfjabúð sína að vínbúð.

Þar sem háttv. þm. Strand. (M.-P.) vjek að því, að háttv. framsögumaður(B. Þ.) hefði farið óvirðulegum orðum um íslensku læknastjettina, og sagt að það væri eins og að fá óvitum hárbeitt járn í hendur, ef læknarnir fengju áfengi, þá eru það vitanlega ekki rjett ummæli, ef háttv. framsögumaður (B. Þ.) hefir látið svo um mælt.

Það hefir sýnt sig, síðan að reynsla kom á bannlögin, að mikill hluti læknanna eru heiðarlegir og samviskusamir menn, sem misbrúka ekki heimildir sínar. En landslög eru nú ekki gefin fyrir þá, er vel breyta, heldur fyrir þá, er miður breyta.

Og manneskjurnar breyta misjafnt. Og því miður eru læknarnir manneskjur, og eins og allar aðrar manneskjur þá eru þeir breyskir, og því verða altaf einhverjir í stjettinni, sem ekki geta staðist freistingarnar.

Það hefir sýnt sig, að allur fjöldinn hefir hegðað sjer vel, og ekki brotið bannlögin, en það eru til læknar, sem ekki hafa hagað sjer vel.

Ekki er þetta neitt last, þetta er nokkuð sem allir vita og allir gátu búist við. Jeg segi þetta í fullri alvöru, og jeg efa, að nokkur stjett taki íslenskri læknastjett fram, hvað samviskusemi snertir, því þeir eru einhver samviskusamasta embættismannastjett landsins. Jeg efa það, að hv. þm. Strand. (M. P.) sje annara um heill og heiður þessarar stjettar en mjer. Og jeg sje enga von til þess, að þessi rjettindi auki heill eða heiður þeirra, heldur þvert á móti.

Sem sagt, hjer er á það að líta, hvort fullnægja beri rjettindakröfu læknanna, gjöra þá rjetthærri en aðra, því öðrum er bannað að flytja inn vín, og það er ekkert vit í því, að halda fram rjetti lækna til innflutningi alls konar áfengra drykkja, eins og þessi till. fer fram á. Þá var hin till., sem feld var, miklu betri; þar var ekki talað um brýna nauðsyn, heldur að eins rjettarkröfu. Á þá að gjöra læknunum hærra undir höfði en öllum öðrum, og gefa þeim þennan rjett? Um það geta allir dæmt, bændur og búaliðar. Eins og jeg sagði síðast, skoða jeg það engan ósigur fyrir mig, þó till. þessi yrði samþykt, en hitt heldur engan sigur, þó að hún yrði feld. Hitt mætti segja, að sje ósigur fyrir mig, er flest allir læknar landsins fylkja sjer gegn mjer.

Mjer liggur við að segja, að það sje dálitið broslegt, sem hjer er að gjörast. Undanfarin ár hefi jeg unnið að því, að bæta heilsufar þjóðarinnar og kjör læknastjettarinnar, og hefir mjer sífelt verið legið á hálsi fyrir þá sök, að jeg dragi of mjög taum stjettarbræðra minna, og ef til vill hefi jeg átt það skilið. Nú rignir aftur yfir mig yfirlýsingum frá þeim um, að þeir sjeu mjer mótsnúnir. Mjer dettur ekki í hug að lasta það, og finst það alveg eðlilegt, að þeir láti í ljós skoðun sína á málinu, en þá finst mjer ekki nema rjettlátt, að jeg losnaði undan þessu ámæli, sem á mjer hefir legið. Því hefir verið beitt svo, að jafnvel við síðustu kosningar hjer í Reykjavík, þá var agiterað fyrir einum frambjóðanda með því, að þá var auglýst á hverju götuhorni, að hann væri andvígur landlækni, sem drægi svo mjög um of taum læknastjettarinnar!

Þetta er varasamt mál fyrir íslensku læknastjettina. Þetta er alþjóðarmál, og hvað sem í því verður gjört, þá gleymist það ekki hjer, heldur berst út í heim, og kemur þá fyrr eða síðar fyrir dómstól vísindanna. Og þá eigum við, íslenska læknastjettin, mikið undir því, að við stöndumst þann dóm. Jeg skal láta ósagt, hvernig þar fer, en jeg segi fyrir sjálfan mig, að jeg kvíði ekki þeim dómi, og jeg vildi óska þess, að íslenska læknastjettin líði aldrei neinn álitshnekki vegna þessa máls.

Það er margt skrítið sagt um þetta mál. Því var skotið að mjer nýlega, að jeg ætti ekki að vera á móti því, að læknar fengju vín í búðir sínar, það mundi auka tekjur þeirra að stórum mun. Þeir mundu selja vínið í stórskömtum þjóðinni til heilsubótar og hressingar. Jeg er sannfærður um. að allur fjöldi lækna mundi ekki nota leyfi þetta þannig; enda álít jeg aðrar leiðir heppilegri til að bæta kjör lækna en að gefa þeim leyfi til áfengissölu, og aðrar heilbrigðisráðstafanir þjóðinni þarfari.

Að lokum vil jeg taka eitt fram. Þegar mál þetta kom fyrst fram fyrir ári síðan, var það með þeim hætti, að Magnús Einarsson dýralæknir fjekk lyfseðil upp á 50 flöskur af Gamla Carlsberg öli, sem auðvitað var ekki til í lyfjabúðinni. Út af því klagar hann til stjórnarráðsins. En hvað gjörir stjórnarráðið? Þetta er mál, sem heyrir beint undir landlækni, en í stað þess, að senda honum málið til umsagnar, sendir það læknafjelagi Reykjavíkur fyrirspurn. Og læknafjelag Reykjavíkur sendir Stjórnarráðinu álit sitt, í stað þess, að vísa málinu frá, sem sjer óviðkomandi. Málið lá nú í stjórnarráðinu um hríð, og var ekki frekar að gjört, þar eð ráðherra var ekki heima, en svo að síðustu var það þó sent landlækni. Hann skrifar síðan stjórnarráðinu brjef, en það brjef er síðan birt í Stjórnartíðindunum. Af ýmsum ástæðum — ekki mín vegna, — gjörðist jeg til að koma í veg fyrir, að þetta yrði gjört að blaðamáli, og það hefir lánast þagað til síðastliðinn laugardag, að hv. þm. Strand. birti ræður sínar í Ísafold, og jeg býst við að yfirlýsingar læknanna komi þar síðar.

Jeg ætla ekki að gjöra þetta að deilumáli við stjettarbræður mína — jeg ætla að gefa þeim fríspark í þessu máli, — en mun láta álit mitt í ljós til stjórnarinnar, ef jeg er spurður. Að öðru leyti deili jeg ekki um málið, en legg það, eins og öll mín mál, í dóm framtíðarinnar.