18.08.1915
Efri deild: 36. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Karl Finnbogason:

Háttv. 5. kgk. þm, (G. B.) og framsögumaður (B. Þ.) hafa báðir borið brigður á það, að brtt. á þgskj. 377 væri frambærileg. Jeg fæ ekki annað. sjeð en að það sje misskilningur einn. Ástæðan á að vera sú, að deildin hafi felt. tillögu sama efnis við 2. umr. En því fer fjarri, að svo sje. Tillögurnar eru alls ekki sama efnis. Í tillögunni, sem feld var við 2. umr., var ætlast til að lögboðið yrði stjórnarráðinu að löggilda ákveðnar, nafngreindar víntegundir á lyfjaskrá landsins.

Í þeirri tillögu, sem nú liggur fyrir, er ekki ætlast til neinnar slíkrar löggildingar. Að eins ætlast til, að læknum verði heimilað að fá hvert það vín, sem þeir álíta sjer nauðsynlegt að nota við lækningar, utan lyfjaskrár, ef verkast vill, alveg eins og ótal önnur lyf.

Hjer er því skýr og ótvíræður munur. Önnur tillagan ætlast til að ákveðin vín. sjeu löggilt á lyfjaskrá; hin ætlast ekki til að neitt vín sje löggilt á lyfjaskrá, að. eins að læknar geti fengið hvert það vín, sem þeir telja nauðsynlegt, — utan lyfjaskrár.

Og vissulega er tillagan, sem nú liggur fyrir, betri en hin, bæði fyrir þá, sem ekki telja sig þurfa vín til lækninga og hina, sem þykjast þurfa þess.

Sjeu einhver vín löggilt á lyfjaskrá, verða allir lyfsalar að hafa þau til, hvort sem læknar nota þau eða ekki. En sje ekkert vín löggilt á lyfjaskrá, en þó hægt að fá það, þá geta þeir haft það, sem vilja, en hinir verið lausir við það. Og það ætti að vera öllum ljúfast og affarasælast.

Með þessu ætti því öllum að vera gjört til hæfis. Að öðru leyti skal jeg ekki fjölyrða um breytingartillöguna, en vona að deildin samþykki hana.