18.08.1915
Efri deild: 36. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jón Þorkelsson:

Jeg verð að lýsa því yfir, að jeg sæi ekki mikið eftir, þó að þetta mál hefði aldrei inn í þingið komið. Og úr því, sem komið er, hefði jeg óskað, að ekkert hefði verið hreyft við lögum þessum meðan þau eru ekki búin að reyna sig til hlítar, þó að því verði ekki neitað, að sú reynsla, sem fengin er, sje harla ómerkileg. Eftir henni að dæma virðist það vera ómögulegt að hafa neitt eftirlit með lögunum, sem að nokkru gagni geti komið. Ef eftirlitið ætti að vera nægilegt, þá mundi til þess þurfa meira fje en næmi öllum áfengistollinum gamla. Tekjur landssjóðs hafa stórskerst af þessum lögum, en ekkert annað hefir í móti komið en að lögin hafa verið stórlega brotin, og verða brotin. Það lítur því helst út fyrir, að lögin verði ekki einungis til skaða, heldur og minkunar. Jeg ætla ekki að fara neitt út í það, þó að ýmsir menn, sem gott þykir að gleðja sig í guði, hafi lagt sjer allskonar ódrykki til munns, sem eru stórhættulegir lífi þeirra og heilsu. Þeir um það, sem það gjöra. En afleiðing er það bannlaganna.

Eins og mönnum er kunnugt, þá er talin dýrtíð nú í landi. Jeg sje að fjárfaganefnd Nd. hefir þótt svo mikil brögð að því, að hún er nú að klípa af ýmsum stórmerkilegum og nauðsynlegum fjárveitingum. Meðal annars fer hún fram á að feld sje 47,000 kr. fjárveiting til að reisa vita í því skyni, að gjöra innsiglingar öruggari umhverfis landið. Enn fremur leggur nefndin til, að feldur sje styrkurinn til búnaðarfjelaganna 44,000 kr. Þetta eru fjárveitingar, sem snerta stærstu atvinnuvegi landsins. En sömu meðferðinni sæta einnig mentamál landsins. 30,000 kr. klipt af fjenu til barnakenslu. Auk alls þessa er stjórninni heimilað að taka 1,000,000 kr. lán. Svona segir þingið nú fjárhag landsins. Og svo sitjum við hjer og þrætum um þetta auðvirðilega mál. Vegurinn út úr vandræðunum sýnist þó vera auðrataður. Við höfum hjer einmitt í þessu máli ágætan gjaldstofn, ef við hefðum vit á að nýta hann, og þyrftum við ekki annan nema bannlögin úr gildi um stundar sakir. Reyndar væri öruggast, arðvænlegast og sómasamlegast, að þau væru alveg feld niður.

Ef við gjörðum þetta, þá mundum við bæði losna við lög, sem ekki koma að tilætluðum notum og eru okkur til vansa, og mundum, auk þess, vinna upp það fje, sem okkur vanhagar um.

Frá þessu sjónarmiði held jeg væri betra að skoða bannlögin í þetta skifti, og handleika þau samkvæmt því.

Mjer hefir heyrst á háttv. þm. Strand. (M. P.), að hann efist um að brtt. á þgskj. 377 verði samþykt hjer í dag. Vera má, að svo fari, og af þeirri ástæðu ætla jeg að leyfa mjer að koma fram með rökstudda dagskrá, sem jeg vona að borin verði upp, eftir að út sjeð er um, að brtt. á þgskj. 377 nái fram að ganga.

Það er nóg, að bannlögin eru fjárhag landssjóðs skaðræði, þó að ekki haldi þingið áfram í meðferð þeirra þeirri óhæfu að grípa fram fyrir hendurnar á þekking, viti og reynslu.

Jeg tel því rjettast, að deildin vísi málinu til landsstjórnarinnar, ef hún ekki moldar það að fullu, sem best væri. Jeg ætla þess vegna að leyfa mjer að afhenda hæstvirtum forseta svofelda rökstudda dagskrá :

Deildin tekur fyrir næsta mál á dagskrá í því trausti, að landsstjórnin nemi úr gildi um sinn. með bráðabirgðalögum í nauðsyn landssjóðs, ef á þarf að halda, fram á Alþingi 1917 lög nr. 44, 30. júlií1909, um að flutningsbann á áfengi, til vara:

gjöri ráðstafanir til þess að lyfjaskrá landsins verði svo hagað, að í lyfjabúðum öllum og hjá hjeraðslæknum megi vera nægar birgðir af vínanda þeim og öðru áfengi, sem læknar telja nauðsynlegt til lækninga.