07.09.1915
Efri deild: 54. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Framsm.(Magn.Pjeturss.):

Jeg gleymdi því í síðustu ræðu minni, að geta um brtt. á þgskj. 811. Um hana hefi jeg ekki annað að segja en það, að hún er ekki frá nefndinni, jeg hefi ekki sjeð hana fyrr en í dag, hjer á þingborðinu.

Það er leiðinlegt, að hæstv. ráðherra er farinn, því að jeg ætlaði að skjóta til hans spurningu viðvíkjandi pósthúsmálinu. Við styðjumst við hann í því máli, gegn háttv. 1. kgk. (E. B.). Jeg ætlaði að spyrja hann, á hverju hann bygði það, að kostnaðurinn við pósthúsið hjer í Reykjavík yrði ekki meiri en gjört er ráð fyrir í fjárlagafrumv. stjórnarinnar. Jeg álít það óheppilegt, ef mikil umframgreiðsla yrði að koma á þann lið, því að ekki vil jeg stuðla að því, að villa fjárhagsútlitið í augum þings og þjóðar. Mig langaði til að skjóta þessu til hæstv. ráðherra, því að jeg vildi ekki, að hann neyddist til að borga mikið meira en ráð er fyrir gjört í fjárlögunum. En sem sagt, nefndin hafði ekki annað við að styðjast en sjálft stjórnarfrumv.

Háttv. þm. Barð. (H. K.), kunni ekki við orðalagið á aths. við Breiðafjarðarbátana. Honum skildist víst svo, að Eimskipafjel. mætti ekki senda nema 2 skip á ári á þessa umgetnu staði. Þessi hækkun á fjárveitingu til Breiðafjarðarbáts var gjörð með því skilyrði, að Eimskipafjelag Íslands losnaði við strandferðirnar inni á Breiðafirði, nema þessar tvær, og því að eins gat verið gróði að brtt. Jeg get ekki sjeð, að þetta sje neitt undarlegt. Við getum auðvitað ekki skuldbundið fjelagið til þess, að fara ekki oftar en tvisvar inn á þessa firði, et það telur sjer hagnað af því, en við viljum losa það við kostnaðinn, sem af fleiri ferðum leiddi, því að landið ber hallann af strandferðunum. Þetta kemur ekki í bága við það, sem óáttv. þm. Barð. (H. K.) og aðrir sögðu við 2. umr. þessa máls. Ef fjelagið heldur að það hafi hag af að senda þangað oftar skip, þá má það auðvitað gjöra slíkt.