10.09.1915
Efri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Björn Þorláksson):

Jeg skal ekki svara háttv. þm. Ísaf. (S. St.) með mörgum orðum, því það er óþarfi. Jeg vil geta þess, að hann byrjaði ræðu sína með. útúrsnúningi, og sagðist ekki eiga að bera ábyrgð á frumvarpinu. Jeg sagði aldrei, að hann ætti að bera ábyrgð á þessu frv.

Hann hefir lítt munað eftir þeirri ábyrgð, sem hann ber á bannlögunum. Það kom fljótt í ljós eftir að bannlögin gengu í gildi,. að hann var mótstöðumaður þeirra, enda þótt hann þykist vera vinur þeirra.

Háttv. þm. Ísaf. (S. St.) sagði að jeg hefði talið málsgrein þá, er hann leggur til að breytt verði, kjarnann í frumvarpinu,. en það er að eins útúrsnúningur, því að jeg sagði að hún væri kjarninn í 3. grein.. Hann talaði eins og jeg bæri ábyrgð á. greininni, að hún væri komin inn í frumvarpið. Hann sagðist ekki vera lögfræðingur enn talaði þó eins og lögfræðingur. Jeg ætla ekki að fara að skattyrðast við hv. þm. Ísaf. (S. St.), en jeg get þó sagt honum það, að þetta ákvæði kom inn fyrir tilstilli lögfróðs manns. Og jeg get enn fremur sagt honum það, að fjórir lögfræðingar í háttv. Nd., þeir báðir þingmenn Rvík (S. B. og J. M.), þm. V.-Skaft. (S. E.) og 2. þm. Árn. (E. A.), eða sjálfur ráðherra, greiddu því allir atkvæði sitt. Það væri því barnalegt af mjer að fara að reyna að hrekja þetta fimbulfamb, sem alt var út í bláinn og sprottið af því, að hann hafði ekki vit á því, sem hann var að tala um.

Jeg sagði, að jeg teldi þessa brtt. banaráð við frumvarpið, og jeg verð að halda því fast fram, að svo sje. Háttv. þm. Ísaf. (S. St.) veit hve þingtíminn er stuttur, það sem eftir er, enda þótt afbrigða yrði leitað, og hann veit líka hve tæpt það stendur í Nd. Það er traustið hans, þess góða þingmanns.

Jeg hygg líka að sumum forsetum væri ekki ákaflega ant um að láta það ganga fram með afbrigðum. (Sigurður Stefánsson: Hann lítur til forseta. Forseti: Hann hefir litið til mín fyrr, karlsauðurinn). Já, og þori það enn. (Forseti: Og jeg þoli tilitið). Hvernig stendur annars á því, að háttv. þingmaður. (S. St.) kemur fyrst með þessa brtt. nú, en þegar málið var til umræðu hjer í Ed., steinþagði hann yfir því, að það væri brot á guðs og manna lögum.

Þögn hans um daginn virðist því vera full sönnun þess, að tillaga hans sje banaráð við frumvarpið.

Það er annars sannarlega margt kynlegt, sem kemur frá hv. þm. Ísaf. (S. St.), bæði nú og endrarnær. Jeg skal geta þess, er næst liggur. Við vitum allir hvernig hann hefir greitt atkvæði í þessu máli. Við 2. umræðu málsins var hann á móti því, að læknarnir fengju rauðvín, sherry, malaga, kognac og pilsner til lækninga, en við 3. umræðu er hann með því að leyfa læknunum alls konar víntegundir, hverju nafni sem þær nefnast, til lækninga. Maður skyldi nú halda, að þegar leyfið var orðið miklu víðtækara, þá hefði jafn skynsamur og sómakær þingmaður eins og hv. þm. Ísaf. (S. St.) verið á móti því, en sussu nei, hann var með því. Jeg veit, að ef jeg hefði hegðað mjer svona, hefði verið orð á því haft, enda eðlilegt, því

með slíkri atkvæðagreiðslu sem þessari, gjöra menn sig að undri.

En úr því að jeg fór að minnast á framkomu háttv. þm. Ísaf. (S. St.), þá get jeg ekki látið hjá líða að minnast á ummæli hans við 1. umræðu þessa máls. Jeg man þau vel, þótt aðrir hafi ef til vill gleymt þeim.

Hann rökstuddi þá það; að hann væri á móti því að skerpa eða breyta ákvæðum bannlaganna, með því, að tillaga um það hefði verið feld með miklum atkvæðamun á þingmálafundi á Ísafirði, og hann vildi fylgja þar um kjósendum sínum. En hversu mikill var þessi mismunur, þessi mikli atkvæðafjöldi, er hv. þm. talaði um? 4 — fjögur — atkvæði. (Hlátur). Já, það má ekki hlægja; það verður að geta þess, að þessi tala 4, er orðin helg tala fyrir þm. Ísaf., svo þó okkur finnist það lítill mismunur, þá fær hann ekki skilið það, telur það má ske meira en þó 100 væri. Og það mun stafa af því, að hann hefir tvisvar siglt á feræring inn á þingið; því er það ofur eðlilegt, að hann telji töluna bæði mikla og merka tölu.