10.09.1915
Efri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Sigurður Stefánsson:

Hafi menn nokkurn tíma heyrt fimbulfamb, þá var það þessi ræða hv. 4. kgk. þm. (B. Þ.). Það var síður en svo, að hann reyndi að svara nokkuru höfuðatriði í ræðu minni, (Björn Þorláksson: Lögfræðingarnir gjöra það.) enda mundi hann hafa lent í hinum mesta bobba, hefði hann reynt það. Hann reyndi að eins að styðja sig við það, að 4 lögfræðingar í neðri deild hefðu ljeð þessu atkvæði. En jeg hefi hlýtt á umræðurnar í háttv. neðri deild, og jeg heyrði engan þessara lögfræðinga um það tala, nje neinn leggja þessu atriði liðsyrði. Eg hefi spurt einn mesta lögfræðing vorn að þessu, og hvert er svarið? — Hann ypti öxlum og gaf ekkert svar. Og þessi lögfræðingur var sjálfur hæstv. ráðherra. Jeg er sannfærður um, að hann hefði gefið mjer skýr og ljós svör, hefði alt verið með feldu um þetta atriði, og mjer dettur ekki í hug að lá honum, þó hann gjörði það ekki, úr því að hann nú ekki er frv. algjörlega mótfallinn.

Þá minntist hv. 4. kgk. þm. (B. Þ.) á, að jeg hefði talað um frumvarpið við 1. umræðu — já, hann verður að fyrirgefa það, að jeg tala er mjer list, en fer ekki í því efni eftir reglum frá honum, því er alt hans tal þar um út í bláinn.

Hann talaði enn fremur um það, hvernig sómakær þingmaður ætti að breyta; það ætti þessi hv. þingmaður síst að vera að tala um, eftir frammistöðu sjálfs hans hjer í deildinni.

Þá sagði hann að jeg hefði komist inn á þing með fjórum atkvæðum. En hver er atkvæðafjöldi hans? Hann hefir siglt á einu atkvæði inn í þingsalinn (Björn Þorláksson: Konungsatkvæði.), og jeg veit að honum varð þetta atkvæði full dýrt, og varð að borga það fyrirfram.

En hjer í háttv. deild sitja lögræðingar, og jeg vil biðja þá að svara máli mínu, og skýra frá því, hvort slíkt ákvæði og það, sem hjer ræðir um, sje samkvæmt grundvallarreglum laganna. Þeirra dómi vil jeg hlíta, en hliðri þeir sjer hjá að svara því, verð jeg að líta svo á, sem það sje sönnun þess, að jeg hafi rjett fyrir mjer.

Að þetta frumvarp sje upp á mína ábyrgð, er rangt, en af því að jeg greiddi atkvæði með bannlögunum, og finn til þeirrar ábyrgðar, þá er jeg á móti þessu frumvarpi, því jeg vil ekki spilla þeim með tildri og hjegómaskap, sem yrði ekki annað en nagli í líkkistu þeirra. (Björn Þorláksson: Þá væri þingmaðurinn ánægður). Það hefir þingmaðurinn engan rjett til að segja, því hann getur ekki rannsakað hjörtu og nýru mannanna, en hann getur atað menn út með svívirðingu, bæði þingmenn og hæstv. forseta. (Björn Þorláksson: Hann hefir verðskuldað átölur. Forseti: Það er ósatt. Björn Þorláksson: Það er rjett).