07.09.1915
Efri deild: 54. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Karl Einarsson:

Jeg ætla ekki að fara að deila við háttv. 2. kgk. (Stgr. J.), sem mælti á móti brtt. minni á þgskj. 811. Að eins vil jeg segja, að það er ekkert undarlegt, að hún kom frá mjer, þótt jeg sje formaður fjárlaganefndar. Háttv. 5. kgk. (G. B,) sagði ekki annað um þetta mál en að það gæti verið hættulegt, að ríkisborgari í öðru landi væri málsvari okkar á þessum hættutímum. Jeg er honum að því leyti sammála, en hjer er ekki um það að ræða, að verið sje að gefa neinum umboð til þess, að vera málsvari okkar. Ástæðan fellur því um sjálfa sig. Að það sje niðurlæging, eins og háttv. 5. kgk. (G. B.) sagði, að útlendingur hafi þetta starf með höndum, get jeg ekki sjeð, enda höfum við oft tekið útlendinga inn í landið, til þess að gegna ýmsum störfum. Jeg er því síst mótfallinn, að Íslendingar sjeu sendir til þess, að reka erindi vor í útlöndum.

Jeg ætla svo að lokum að eins að taka. það fram, út af því, sem háttv. 2. kgk. (Stgr. J.) sagði um sparnaðinn, að jeg er svo sannfærður um, að af því gætum vjer haft margvíslegan hag og beinan gróða, ef fjárveiting þessi nær fram að ganga, en jeg vil ekki sanna það á þessum stað, en eitt er víst, að tap bíðum við aldrei af þessu.