10.09.1915
Efri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Ráðherra:

Mjer skilst að einhver hafi beint til mín, og nú síðast hv. þm. Vestm. (K. E.) fyrirspurn um, hvort menn geti borið ábyrgð á gjörðum annara.

Almenna reglan er sú, að þeim er refsað, sem fremur eitthvert brot af ásetningi eða gáleysi. Þetta þekkja allir, og það vita allir að svo er. En frá þessu eru nokkrar undantekningar, þar sem þeim, sem fremur brot af ásetningi eða gáleysi, er ekki hegnt, heldur öðrum, eða að mönnum er refsað fyrir verk annara; og eins og hv. þm. Vestm. (K. E.) tók fram, þá eru þess dæmi í botnvörpuveiðalögunum, og þar er líka tekið fram, að gjöra megi fjárnám í skipunum fyrir sektinni. Það er annars ekki regla, að hægt sje að gjöra fjárnám í eign fyrir sekt. Ef einhver er dæmdur í sekt eftir hegningarlögunum, og greiðir ekki sektina, þá tekur við fangelsi. Og í öðrum dómum er, jafnframt og sektin er ákveðin, ákveðinn varadómur, fangelsi, ef sektin ekki er greidd; þetta eru því undantekningarákvæði, sem rjettlætast af sjerstökum ástæðum. Sem dæmi þessa má enn fremur nefna lög nr. 20, frá 11. nóv. 1899 um veitingamenn, þar sem þeim er gjört að skyldu að bera ábyrgð á gjörðum þjóna sinna, nema það sannist að hann sje ekki að valdur. Enn fremur má nefna lög um veiði frá 9, febr. 1900, þar sem mönnum er hegnt, enda þótt eigi sannist, að þeir hafi neitt refsivert gjört. Ef maður hittist með veiðarfæri nálægt veiðistöð annars manns, þá sæti

hann sektum, nema hann sanni, að hann hafi átt þangað lögmætt erindi, sem vitanlega er nær ókleift að sanna. Ýms slík ákvæði eru í lögreglusamþyktum og lögum, þótt jeg ekki muni þau í svip.

Í raun og veru mundi sektin hjer hrína á útgjörðarfjelögunum, en ekki á skipstjórunum, og svo er það venjulegast um botnvörpusektirnar, enda gengið að skipinu, ef sektin er ekki greidd. Hjer er því nákvæmlega hið sama. Þegar lögin um botnvörpuveiðar voru sett, þá þótti óhjákvæmilegt og nauðsynlegt að setja þetta, til þess að reyna að afstýra brotum á lögunum, og á sama hátt lítur líklega meiri hluti þingsins á nú, að slíkt sje nauðsynlegt, til þess að reyna að afstýra brotum á bannlögunum.

Teoretiskt má og fullyrða það, að þetta sje undantekning, og ekki gripið til þess, nema þegar menn þurfa að veita einhverjum hagsmunum sjerstaka vernd.