10.09.1915
Efri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jón Þorkelsson :

Það veit guð, sem ríkastur er allra, að nú hefði jeg ekki staðið upp, ef hv. 4 kgk. (B..Þ)., hefði ekki nefnt mig í sambandi við hv. þm. Ísfirðinga (S.St.), og haldið því fram, að við bærum ábyrgð aðflutningsbannslaganna frá 1909. Satt er það, að nokkurn þátt átti jeg í þeim, því jeg reyndi að laga á þeim smíðagallana, og gjörði margar atrennur til að fá út úr þeim allra mestu vitleysurnar, að hv. 4 kgk. (B. Þ.) nauðugum. Annað var þó margt, er jeg fjekk ekki ráðið við, að lagfært væri, og á öllum þeim vitleysum ber jeg enga ábyrgð, en fulla ábyrgð skal jeg bera á því, sem nokkurt vit er í og mannræna. Afskifti mín af þessu máli nú eru eðlileg afleiðing af því, er jeg gjörði þá; og að jeg tók í mál að setja mig ekki með öllu beint á móti lögunum 1909, var af því, að mjer var þá ekki eins ljóst, hve mikið ilt gæti af þeim leitt. Nú hefi jeg sjeð reynsluna, og hún er okkur bæði til minkunar og skapraunar, en hún á enn eftir að versna. Reynslan hefir sýnt, að eldri kynslóðin hefir ekki batnað síðan lögin gengu í gildi, og það sem sorglegra er, er það, að yngri kynslóðin. hefir versnað, og segi jeg það ekki af skrökvi, hún hefir versnað síðustu 6 árin, og þar má engu öðru um kenna en lögum þessum. Menn eru alt af sólgnastir í það, sem frekast er bannað, og það veit hv. 4. kgk. líka, og hefir fengið að kenna á því, en um það skal jeg ekki fara fleiri orðum. Það er svo alkunnugt, og endurtekur sig alt af

Hjer liggur fyrir brtt. frá hv. þm. Ísaf. (S. St.) og greiði jeg atkvæði með henni, því jeg álít hana til bóta. Jeg þarf ekki að fara að ræða um, hvaða vit sje í því, að einn beri ábyrgð fyrir annan; allir hljóta að sjá, að rjettlætið krefst þess, að sá, sem í leyfisleysi selur eða flytur pytluna, beri ábyrgð gjörða sinna. Þetta hlýtur hv. 4. kgk. að sjá, og skil jeg ekki; að hann vildi bera ábyrgð allra þeirra skírlífisbrota, sem aðrir fremja í Dvergasteinsprestakalli, nje á faðerni allra ófeðraðra barna, er fæðast kynnu í söfnuði hans, eða ef einhver af sóknarbörnum hans gjörðist fingralangur, og get jeg ekki láð honum það. Brtt. hv. þm. Ísfirðinga er til bóta, en af því jeg vissi ekki, að hennar var von, þá hafði jeg hugsað mjer að koma með brtt. í þá átt, að allar greinar umrædds frv. væru niður feldar, að undantekinni 1. gr. Þá væri vel, og veit jeg að hv. 4. kgk., sem annars er skynsamur og skemtilegur maður og fróður um marga hluti, mundi játa það, ef um annað mál væri að ræða. Af því, sem sagt hefir verið, gefur að skilja, að jeg ætla ekki að rökræða þetta mál; við hv. 4. kgk. (B. Þ.). Annað mál væri það, að tala við hv. þm. Gullbr. og Kjósars. (K. D.) og hv. þm. Skagfirðinga (J. B.), en það hirði jeg þó ekki um. Þó vil jeg geta þess, að fyrir nokkrum dögum átti jeg orðastað við þm. Skagfirðinga, og heyrði röksemdir. hans, og kendi hann mjer, að hann áliti Goodtemplurum fyllilega leyfilegt, að láta til sín taka þau landsmál, er þeir hefðu áhuga á, og væri því að eins hægt að fást um það, ef málin væri að einhverju skaðleg fyrir þjóðina. Jeg ansa honum svo til þess, að jeg álít afskifti Goodtemplara af málum þessum þjóðskaðvæn í mesta máta.

Jeg ætlaði mjer ekki að halda hjer langan kapítula eða catalogum, en jeg vil taka það fram, að jeg vil samþykkja 1. gr. og að sumu leyti 2. gr. frv., þótt hún hafi sína galla, en um það hefir hv. þm. Ísf (S. St.) þegar talað, en af mörg- um ástæðum mun jeg greiða atkvæði móti frv. í heild. Var jeg á sömu skoðun og hv. þm: Ísf., er hv. 4. kgk. kom með frv. þetta, að ekkert ætti að káfa við lögin að svo stöddu, og var það ekki af virðingu fyrir þeim, heldur til reynslu, og að ekki bæri að tefja þingtímann með þrefi um þau. — Þarf jeg svo ekki að rökstyðja atkvæði mitt betur.