10.09.1915
Efri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jósef Björnsson:

Hér verður sem fyrr, að það, sem jeg legg til þessa máls, verður til hv. 6. kgk. (J. Þ.), en áður en jeg fer lengra, vil jeg þakka honum fyrir hógleg ummæli í minn garð. Um tvö atriði í ræðu hv. 6. kgk., vil jeg fara nokkrum orðum.

Fyrst vil jeg snúa mjer að því, sem hv. þm. sagði, að reynsla bannlaganna væri hörmuleg, og byggist hann við að hún versnaði enn. Að því er þetta snertir, skal jeg játa það, að reynslan er ekki eins góð og óskandi væri, en hins vegar álit jeg nokkuð öfgakent, að segja, að reynslan sje hörmuleg. Þó aldrei nema að ofurlítið sje „smyglað“, og einstakir menn drekki meir en vera ber, álít jeg þó ekki ástæðu til að viðhafa þau orð, að reynslan sje afskapleg eða hörmuleg. Þvert á móti má víða sjá þess merki til sveita á Íslandi, að reynslan er ágæt, og þar held jeg að lögin sjeu alls ekki brotin, enda mun það helst koma fyrir við sjávarsíðuna. Hvað snertir hitt atriðið, að reynslan verði enn þá verri en nú er, þegar fram líða stundir, þá álít jeg að þar sje ekki um annað en spádóm að ræða, og úr því hv. 6. kgk. spáir, þá álít jeg mig hafa fult leyfi til hins sama, og jeg spái því gagnstæða. Hefi jeg fulla ástæðu til að halda, að mín spá rætist fremur en hans, því okkur er kunnugt, að mönnum fellur hálfilla að neita sjer um áfengi í bili, ef þeir hafa verið vanir að neyta þess, en þeir, sem aldrei hafa drukkið, þurfa engrar sjálfsafneitunar við. Ef það er rjett, þá má vona að reynslan batni þegar drykkjumennirnir deyja, og ný kynslóð kemur í þeirra stað.

Hv. 6 kgk. sagði, að unga kynslóðin væri verri nú en fyrir 5–6 árum, að því er vínnautn snerti. Jeg get ekki mótmælt því að fullu, að einhverjir sjeu verri nú en fyrir 5–6 árum, en jeg hygg, að hv. 6 kgk. eigi erfitt með að sanna, að svo sje almennt, enda efast jeg um,að hann geti þar fært nokkur rök fyrir sínu máli. Fanst mjer þetta svo þung: ákæra gegn unga fólkinu, að jeg bað um. orðið, vegna þess, að jeg gat ekki látið; þessum orðum mótmælt, sem óhæfilegum áburði.

Þá sneri hv. 6. kgk. sjer að því, sem. jeg hefði talað um rjett Goodtemplara og annara bindindismanna til afskifta af landsmálum. Hjelt jeg því fram, að Goodtemplarar hefðu fullan rjett til að láta: landsmál til sín taka, og því neitaði ekki hv. 6. kgk., svo fremi að afskifti þau væru eigi landinu til skaða. Þetta er alveg rjett, en að kalla bannstefnuna skaðlega, er að mínu áliti fjarstaða hin mesta. Er jeg þar á gagnstæðri skoðun við hv. 6. kgk., því að jeg álít hana gagnlega. En ekki mun tjá að ræða það mál við hv. þm.; til þess stöndum við á of andstæðum meið, enda get jeg ekki fallist á röksemdir hv. þm. og svipað mun vera um allmarga aðra.