10.09.1915
Efri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jón Þorkelsson:

Hv. þm. Skagfirðinga (J.B.) vjefengdi orð mín um, hver áhrif tíðarandinn hefði á ungdóm þessa lands. Vil jeg því benda á, að Goodtemplarar sjálfir hafa játað, að yngri kynslóðin, og það sjerstaklega mentakynslóðin, væri mikið spiltari nú en verið hefði, hvað áfengisnautn snerti. Þetta vildi jeg að eins taka fram.

Útaf athugasemd hv. þm. Seyðf. (K.F.) við 4. málsgr. 3. gr., þá vil jeg benda á, að það er þó eðlilegra ákvæði heldur en það, sem brtt. hv. þm. Ísfirðinga fer fram á að fella. Þar ræðir að eins um vín, sem skipverjar selja eða gefa án vitundar skipstjóra. 4 málsgr. ræðir að eins um vín, sem skipinu fylgir, og skipstjóra er fullkunnugt um. Og ef hann skýrir rjett frá því, er það innsiglað af fógeta í Vestmannaeyjum, eða öðrum fógetum konungs, og það innsigli má ekki brjóta.