10.08.1915
Efri deild: 28. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

46. mál, sveitarstjórnarlög

Jósef Björnsson:

Jeg verð að taka undir með háttv. þm. Strand. (M. P)., að skoðanamunur virðist hjá flestum mjög lítill í þessu máli. Þess vegna ætti ekkert að vera á móti því, að frumvarpið gengi óbreytt í gegn um þessa umræðu, en svo mætti reyna að mæta óskum þeirra, sem eitthvað vilja lagfæra, við 3. umr. málsina. Jeg hefi alls ekkert heyrt í þessum. umræðum, sem mælti með því, að fleygja málinu nú frá sjer. Sterkasta ástæðan er sú, að lítið hefir borið á óskum manna um breytingar í þessu efni. Jeg vil ekki halda því fram, að óskir í þá átt hafi verið verulega almennar, en ef jeg man rjett, þá höfðu nokkrar þingmálafundargjörðir, er fram voru lagðar á lestrarsal Alþingis 1913, inni að halda óskir í þessa átt, og jeg held að sama hafi átt sjer stað 1911, að þær raddir hafi látið til sín heyra, sem óskuðu leynilegrar atkvæðagreiðslu við kosningar til hreppsnefnda og sýslunefnda. Háttv. kgk. þm. (Stgr. J.) taldi þann agnúa helstan á frumvarpinu, að með leynilegri atkvæðagreiðslu væru kosningarnar gjörðar pólitískar. Þetta get jeg ekki falist á. Jeg lít eins á og háttv. framsögumaður (G. Ó.), að líklegt sje, að það verði einmitt betur vandað til kosninganna, ef þær eru leynilegar. Leynilegar kosningar koma mönnum til að hugsa meira um, hvern þeir eigi að kjósa, heldur en opinberar kosningar.

Jeg hefi oft tekið eftir því við slíkar kosningar, að menn hafa mjög lítið um kosninguna hugsað, heldur hefir það mest ráðið, hver eða hverjir hlotið hafa fyrstu atkvæðin, svo að helst leit svo út, að einn elti annan, og að oft hafi það verið tilviljun ein, sem rjeði, hver kosninguna hlaut. Sá oft fengið flest atkvæði, sem fyrstur fekk atkvæði. En ef kosningin er leynileg, þá eru menn neyddir til að hugsa sig betur um, ráða við sjálfa sig, hvern eða hverja þeir helst vilja eða. best treysta, og verður þá betur til kosningarinnar vandað.

Jeg mun því greiða atkvæði á móti rökstuddri dagskrá, því jeg fæ ekki sjeð, að frumvarpið sje neinn háskagripur, og ekkert sje jeg því til fyrirstöðu, að það verði sent háttv. Nd. til íhugunar, þegar háttv. efri deild hefir fjallað um það.