10.08.1915
Efri deild: 28. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

46. mál, sveitarstjórnarlög

Eiríkur Briem:

Það er að eins eitt atriði, sem mig langar til að benda á. Jeg vildi skjóta því til háttv. flutningsmanns frumvarpsins (G. Ó.), hvort ekki muni vera hægt að koma atkvæðagreiðslunni tryggilegar farir. Það er hætt við að kosningin verði ekki fullkomlega leynileg með þeirri aðferð, sem hjer er gjört ráð fyrir, því að hætt er við að hægt verði að þekkja hendur manna, þar sem þeir eiga að rita tölur og þar sem venjulegast er um svo fáa menn að ræða. Mjer virðast þessar tölur vera talsvert varasamar við kosningar í einstökum hreppum. Alt öðru máli er að gegna um kosningar til Alþingis. Þar kjósa miklu fleiri menn, og er tryggilegar frá öllu gengið. Auk þess er mjög óheppilegt, að kosningarnar skuli vera svo ólíkar hver annari. Slíkt gjörir mönnum miklu erfiðara fyrir, og væri betra, ef allar kosningar væru sem líkastar. Jeg vildi þess vegna skjóta því til nefndarinnar, sem um málið hefir fjallað, hvort ekki muni hentugra að hafa listakosningu.