10.08.1915
Efri deild: 28. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

46. mál, sveitarstjórnarlög

Steingrímur Jónsson:

Mig langar að eins til að gjöra örstutta athugasemd við ræðu háttv., flutningsmanns (G. Ó.). Hann virtist ekki geta áttað sig til fulls á því, sem jeg sagði um það, að hætt væri við, að kosningarnar yrðu pólitískar, þar sem líkt fyrirkomulag væri haft sem það, er frumvarpið mælir fyrir. Þetta er í raun og veru ofur eðlilegt, því slík aðferð er upprunalega sjerstaklega ætluð pólitískum kosningum. Háttv. þingmaðurinn spurði hvers vegna þessi aðferð hefði þá verið lögleidd við kosningar til bæjarstjórna. Raunar get jeg nú svarað því á þá leið, að jeg beri enga ábyrgð á þeim lögum, og sje það þess vegna ekki sjerstaklega mitt verk að svara því, enda er jeg þess alls ekki full viss, að sú breyting hafi verið til neinna bóta. En hins vegar verður maður líka að kannast við, að talsvert öðru máli er að gegna um kosningar í bæjum en í sveitum. Það er eðlilegra að pólitíkin dragist þar inn í kosningarnar og þar má hún það miklu fremur, þar eð málefni bæjanna eru umfangsmeiri og líkari málefnum landsins. Pólitík er ekki æfinlega ill, en í þessu tilfelli er hún það. Það má síst bera mikið á slíku í strjálbygðum og fámennum sveitahjeruðum.

Háttv. þingmaðurinn hjelt mig munu hafa lítið vit á málinu, og get jeg vitanlega vísað þeim ummælum heim aftur, því: samkvæmt stöðu minni verð jeg og hlýt jeg að vera þessum málum talsvert kunnugur. Að minsta kosti er jeg málinu svo kunnugur, að jeg veit, að almenningur óskaralls ekki þessara breytinga á kosningunum, nema ef vera skyldi í Húnavatnssýslu.